Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. febrúar 2004 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

100 ára afmæli heimastjórnar

Hátíðarræða Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, á 100 ára afmæli heimastjórnar 1. febrúar 2004.

 

Ég er þeirrar skoðunar að það sé við hæfi að þjóðin geri sér nokkurn dagamun þennan 1. febrúar, á aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi. Hvunndags æðum við áfram, mörg hver, í tilraun til að laga okkur að örum breytingum og forðast að dragast aftur úr eða daga uppi. Í þeim bardaga er vísast ekki talið til sérstakra kosta að muna langt fram og vera of bundinn við gærdaginn, svo ekki sé talað um aldar gamlan dag. Og það er reyndar rétt, að þennan dag fyrir hundrað árum horfðu menn ekki um öxl. Framtíðin var í fyrirrúmi. Nýliðinni fortíð vildu menn gleyma sem fyrst af skiljanlegum ástæðum. Fyrsti febrúar var hlaðinn fyrirheitum. Dagur draumanna var upp runninn, ekki draumóranna, heldur vonanna og væntinganna, sem Íslendingar áttu sjálfir loks kost á að gera að veruleika. Við aldamótin, fáum árum fyrr, voru stórskáldin í ham. Þau fundu í sínum skáldabeinum niðinn af nýjum tíma og ortu, sem aldrei fyrr. Aldrei áður höfðu aldamót fengið svo upphafnar trakteringar. Hannes kvað:

 

„Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,

sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,

brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,

menningin vex í lundi nýrra skóga.

 

Sje jeg í anda knör og vagna knúða

krafti, sem vanst úr fossa þinna skrúða,

stritandi vjelar, starfsmenn glaða og prúða,

stjórnfrjálsa þjóð, með verslun eigin búða.“

 

Og Einar Benediktsson kvað:

 

„Vor hólmi er snauður, svo hart er um brauð,

margt hérað sem eyðimörk köld og dauð.

Sú öld, sem nú hefst, á hlutverk að inna –

sjá hjálpráð til alls, varna þjóðinni falls.

En sýnir ei oss allur siðaður heimur,

hvað sárlegast þarf þessi strjálbyggði geimur,

að hér er ei stoð að stafkarlsins auð?

Nei, stórfé! Hér dugar ei minna!

Oss vantar hér lykil hins gullna gjalds

að græða upp landið frá hafi til fjalls.

Hann opnar oss hliðin til heiðanna', á miðin,

í honum býr kjarni þess jarðneska valds.

Þann lykil skal Ísland á öldinni finna, –

fá afl þeirra hluta', er skal vinna.“

 

Og það kváðu fleiri. „Þú ert móðir vor kær.

Þá er vagga okkar vær,

þegar vorkvöldið leggur þjer barn þitt að hjarta;“

kvað Þorsteinn Erlingsson til Íslands.

 

Þessi fátæka þjóð átti ekki margt en hún átti þó ófá stórskáld, jafnvel þjóðskáld, að minnsta kosti eitt fyrir hverja tíu þúsund íbúa. Við þyrftum að eiga þrjátíu slík núna til að halda í hlutfallið. Það var inn í þennan hugarheim skálda, hugsjóna- og draumóramanna sem heimastjórnin kom. Efnin voru lítil og úrræðin fá, en það var vorblær nýrra tíma sem varð vindurinn í segl heimastjórnarinnar. Þess vegna fór hún svo vel af stað. En það var líka vegna þess að til forystu fékkst maður sem virtist skapaður í hlutverkið. Persónudýrkun er örugglega ekki lengur í takt við tíðarandann, ef frá eru taldir popparar og knattspyrnuséní, og persónudýrkun er reyndar oftast nær æði holótt og innantóm, þegar grannt er skoðað. Og það á við um Hannes Hafstein, sem aðra, að honum er enginn greiði gerður með því að hefja hann gagnrýnislaust á stall. En það er að sama skapi óþarfi að neita sér um að horfa til og viðurkenna þá eiginleika, sem gerðu hann að réttum manni á réttum stað og tíma. Hann var ekki nema 42 ára, þegar að hér kemur sögu, en þó löngu þjóðkunnur maður og í miklum metum hjá löndum sínum, skáld í fremstu röð, glæsimenni og garpur, sem fáliðaður rést gegn landhelgisbrjótum, svo ógleymanlegt varð. Ekki lítill heimamundur þetta. Og á daginn kom, að þeir eiginleikar, sem menn þóttust mega lesa út úr ljóðunum hans, voru til staðar þegar á reyndi og féllu undravel að því verki, sem hann hafði nú axlað ábyrgð á. Hann var kjarkmaður sem þráði að fá að reyna krafta sína í glímu við þá erfiðleika og stórvirki sem allsstaðar blöstu við. Og bjartsýnismaður var hann, fullviss um að þjóðin myndi hafa sigur í þeim átökum. En um leið var hann raunsæismaður sem þekkti sín takmörk og sinnar fámennu þjóðar. En síðast en ekki síst var hann fjörmikið ljúfmenni og lipur og sanngjarn samningamaður sem oftar en ekki var reiðubúinn til þess að koma til móts við gagnrýni og sjónarmið andstæðinganna, stundum svo að stuðningsmönnum hans þótti nóg um. Þrátt fyrir allt þetta verður ekki sagt að Hannes hafi átt langan eða glæsilegan stjórnmálaferil að baki, þegar hann hefst til æðstu metorða. Hann vann óvæntan sigur á Ísafirði, en einnig hafði hann tvívegis látið í minni pokann þar og var nýkosinn af Eyfirðingum, þegar þarna var komið. En eitt stóð upp úr pólitískum ferli. Hann hafði fengið dönsku stjórnina til að bjóða Íslendingum heimastjórn. Um það segir dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra: „Eins og þá horfði, hafði Hannes því unnið einn frækilegasta sigur, sem íslenskur stjórnmálamaður nokkru sinni hefur unnið.“ Þetta segir dr. Bjarni 3. desember 1961 og á þeim tíma sem síðan er hefur ekkert gerst, sem breytir þessu mati.

 

Við hrífumst af því nú, hve heimastjórnin hafði góð áhrif á lífsskilyrði og þróun íslensku þjóðarinnar. Fyrsta heimastjórnaröldin hefur verið byltingarkennd bót fyrir allt mannlíf í þessu landi. Nú er auðvitað ekki víst og reyndar harla ólíklegt að við hefðum farið á mis við alla þá framþróun, ef stjórnskipan okkar hefði ekki breyst til þess sem varð 1. febrúar 1904 og í framhaldi af því 1. desember 1918. En það má fullyrða með öruggri vissu að árangur okkar hefði ella ekki orðið svo glæsilegur og varanlegur sem raun varð á.

 

Seinast í fyrradag heyrði ég fréttamann nefna í viðtali að við værum aðeins þrjúhundruð þúsund „hræður" sem byggðum þetta land, eins og það var orðað. Sumir stjórnmálamenn hafa einnig þann ósið að tala um Ísland heima og erlendis sem „örríki". Við erum að sönnu hvorki mörg eða mikilvæg á heimsvísu, en svona volæðistal er óþarft með öllu og meðan aðrir tala ekki svona til okkar getum við sleppt því að gera það sjálf. Fyrsta febrúar 1904 voru Íslendingar 79.700 og hafði sá mannfjöldi nánast staðið í stað frá lokum landnáms og reyndar hnignað á erfiðustu skeiðum í sögu þjóðarinnar. Það var kannski ekki nema von að Danir ættu erfitt með að sjá að þessir fáu fátæklingar gætu séð um sig sjálfir. Í höfuðstaðnum bjuggu þá áttaþúsund manns. Drengir, sem fæddust á því ári, gátu búist við að verða 48 ára gamlir og stúlkur 53 ára og er þá miðað við meðal ævilíkur, en ungbarnadauði var þá mikill. 101 barn af hverjum eitt þúsund sem fæddust dó á fyrsta aldursári, en nú deyja tvö af hverjum eitt þúsund börnum á þessu úrslita ári. Kannski lýsa þessar tölur gleðilegustu breytingunum af mörgum góðum sem urðu á tímabilinu. Botnfiskafli okkar var þá aðeins 56 þúsund tonn en var á síðasta ári 463 þúsund tonn. Landsframleiðsla á hvern mann hefur nífaldast á þessum tíma og þar sem þjóðinni hefur fjölgað er landsframleiðslan nú orðin ríflega 30 sinnum meiri en hún var árið 1904. Þá má til gamans nefna að brautskráðir stúdentar voru 17 árið 1904, en eru nú um 2200 á ári og eru þá ekki talin með þau fjölmörgu menntunartækifæri önnur sem ungu fólki stendur nú til boða. Þá brautskráðust 1,2 prósent af hverjum árgangi sem stúdentar, en nú eru það rétt tæp 50 prósent. Það var eitt fyrsta verk Hannesar Hafstein sem ráðherra að breyta reglugerð svo stúlkum varð heimilt að setjast í menntaskóla. Þetta gerði hann að undirlagi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, eins og reyndar sumar aðrar breytingar í þágu kvenna, en augljóst er að sjálfur var hann mjög áhugasamur um slíkar breytingar, enda umvafinn stórmerkum konum, hvert sem litið var, eins og lesa má um á hinni ágætu heimasíðu heimastjórnarafmælisins.

 

Allar þessar breytingar sem ég hef nefnt til sögunnar af handahófi, undirstrika þann mikla árangur sem þjóðin hefur náð og þýðingu heimastjórnarinnar í þeim árangri. En ónefnt er að með heimastjórninni hófst eitt mesta framkvæmdaskeið í íslenskri þjóðarsögu. Hafist var handa um byggingu á nýju geðsjúkrahúsi og stofnað til byggingar þessa húss, sem við dveljum í nú, Safnahússins, nú Þjóðmenningarhúss. Þetta hús mun hafa kostað því sem næst fjórðung af fjárlögum íslenska ríkisins og er enn að mati margra fegursta hús sem Íslendingar hafa reist. Mikilvægir áfangar náðust fljótt í vega- og brúargerð í þessu stóra og strjálbýla landi og hefur þjóðin satt best að segja náð ótrúlegum árangri í þeim efnum á þessari öld. Þótt enn sé vissulega nokkuð óunnið, þá er óhætt að segja að Íslendingar sjái nú fyrir endann á mikilvægustu verkefnunum á þessu sviði. Mér segir svo hugur að meira að segja óbilandi bjartsýnismaður eins og Hannes Hafstein með frjótt og skapandi ímyndunarafl skálds og hugsjónamanns, hefði ekki getað séð slíkan árangur fyrir, fremur en svo margt annað sem hefur gengið þessari þjóð í haginn á heimastjórnaröldinni.

 

En þótt þannig sé af ríkum ástæðum dvalið nokkuð við, að höfuðstöðvar framkvæmdarvaldsins fluttust heim til Íslands og að til stjórnarráðs var stofnað, þarf að horfa víðar um sviðið, þegar heimastjórnarinnar er minnst. Staða Alþingis, til að mynda, gjörbreyttist og styrktist. Þingræðið festist í sessi og þingið fékk nýjan atbeina að framkvæmdarvaldinu, sem það náði ekki til, á meðan æðsti yfirmaður þess sat í kóngsins umboði í Kaupmannahöfn. Menn geta horft til helstu kaflanna í þjóðfrelsisbaráttunni, endurreisn alþingis, þjóðfundar, stöðulaganna, stjórnarskrár, heimastjórnar, fullveldis og loks lýðveldis og spurt sig, hver þessara atburða stóð upp úr. Að forminu til má segja að fullveldið 1918 hafi verið stærsti atburðurinn. En að öllu öðru leyti var heimastjórnin 1. febrúar 1904 mikilvægasti atburður sjálfstæðisbaráttunnar og reyndar var farsæl framkvæmd á heimastjórninni forsenda fullveldisins. Þá tókst tvennt í senn. Umheiminum, og þá einkum Dönum, var sýnt fram á að Íslendingar væru fullfærir um að fara með eigin mál, þrátt fyrir fámenni, fátækt og harðbýlt lítt numið land. Og Íslendingum sjálfum óx ásmegin. Ísland, þessi hjari í norðurhöfum, var orðið land tækifæranna. Mjög snögglega dró úr vesturförum Íslendinga um þessar mundir, meðan straumurinn til Ameríku annars staðar frá jókst. Það undirstrikar vel hið breytta hugarfar. Væntingar og bjartsýni höfðu bægt burtu vonleysi og uppgjöf. Heimastjórnin 1. febrúar 1904 var því happafengur fyrir íslenska þjóð á þeim degi og ætíð síðar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum