Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2004 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Áramótagrein í Fréttablaðinu

Góðir Íslendingar,

Andartakið sem við upplifum um áramót þegar við kveðjum eitt ár og stígum inn í annað er á margan hátt stórbrotnara en aðrar stundir. Minningin um hið liðna verður skýrari, framtíðarsýnin ljósari. Andartakið getur skipt sköpum í lífi okkar ef við njótum þess og lifum í samræmi við hugsanir og væntingar sem brjótast fram.

Áramótin eru tími uppgjörs. Árið 2005 blasir við um leið og við sjáum á bak árinu 2004, sem að mörgu leyti var gjöfult og farsælt ár í sögu þjóðarinnar. Við höfum upplifað gleði og sorg á árinu sem er að líða, en minningarnar eru okkur þó dýrmætar og vitur maður sagði eitt sinni að þjóð án sögu væri eins og maður án minnis.

Við höfum lært af sögu okkar að góð menntun er besta vopnið í sókninni fram á veg. Á fræðslusetrinu Odda dvaldi Snorri Sturluson í tvo áratugi í fóstri hjá Jóni Loftssyni. Þar var líka við nám Þorlákur Þórhallsson biskup sem hélt námi áfram í París og Lincoln. Þetta menningarsetur menntaði Snorra til afreka sem hafa haft meiri áhrif á þjóðina en flest annað.  Nú eru liðin áttahundruð ár síðan Snorri var að komast til áhrifa í íslensku samfélagi, ekki hvað síst á grundvelli hæfileika og góðrar menntunar.  Aldrei fyrr höfum við lagt jafn mikla áherslu á menntun og nú.  Um fimmtán þúsund Íslendingar stunda nú háskólanám.  Endurmenntun og símenntun hefur aldrei verið öflugri.  Við verðum að halda áfram á þessari braut og auka menntun enn frekar. Því aðeins getum við tryggt stöðu okkar í samfélagi þjóðanna að þekking okkar og starfshæfni sé eins og best verður kosið.

Mennt er máttur og sá máttur býr í íslenskri þjóð og að honum þarf að hlúa. Ég hvet til víðtæks samráðs allra stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka um menntun og skólastarf með það fyrir augum að efla menntun í landinu enn frekar.

Hvaðeina í okkar tilveru er sett á mælistiku og horft til samanburðar við ýmsa aðra þætti. Þjóðarbúskapurinn er veginn og metinn og fyrirtæki skoða afkomu sína. Einstaklingar líta sömuleiðis yfir farinn veg til að meta árangur ársins og ævinnar. Allflestir eru sáttir og una glaðir við sitt, enda sýnir hver alþjóðleg könnunin á fætur annarri að við Íslendingar stöndum fremst í flokki þjóða að því er snertir afkomu, mannauð, lýðræði og lífsgæði.

Staða efnahagsmála hér á landi er traust. Hagvöxtur er meiri en annars staðar; atvinnuleysi minna; kaupmáttur heimilanna hefur aukist meira en annars staðar þekkist, eða um 40% frá árinu 1995 og stefnir í 55% aukningu til loka kjördæmabilsins. Þá hefur afkoma ríkisins verið betri en víðast hvar annars staðar sem meðal annars hefur orðið til þess að skuldir ríkissjóðs hafa minnkað mjög mikið, eða úr 35% af landsframleiðslu 1995 í 19% samkvæmt áætlun fyrir árið 2004 og 17% í árslok 2005. Þótt verðbólga hafi færst heldur í aukana upp á síðkastið stafar það fyrst og fremst af hækkandi fasteigna- og olíuverði. Það er ekkert óeðlilegt að verðbólga taki við sér samhliða auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi.

Ábyrg og traust efnahagsstjórn undanfarin ár og styrk staða ríkissjóðs eru lykilatriði í því að svigrúm hefur nú skapast til þess að lækka skatta heimilanna í landinu án þess að stofna stöðugleikanum í hættu. Áherslur ríkisstjórnarinnar eins og þær hafa birst í fjárlagafrumvarpi og langtímaáætlun í ríkisfjármálum gera fyrst og fremst ráð fyrir aðhaldi hvað varðar opinberar framkvæmdir. Þessi stefnumörkun er algjörlega í takt við ábendingar innlendra sem erlendra hagfræðinga, til dæmis frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD sem hafa mælt með slíkum aðgerðum til að hamla gegn þensluáhrifum stóriðjuframkvæmdanna. Áfram er hins vegar gert ráð fyrir auknum útgjöldum til þess að halda uppi almennri og umfangsmikilli þjónustu á sviði velferðar- og menntamála.

Í lífinu skiptast á skin og skúrir. Í velgengni er vitaskuld gott að finna vinarhug, en þegar eitthvað bjátar á kemur þó fyrst í ljós hvað skilur viðhlæjendur frá vinum. Við Íslendingar höfum löngum reynt að styðja hvert annað á erfiðum stundum og er samkenndin rík í þjóðarsál okkar Íslendinga. Í því ljósi dvelur hugur okkar nú hjá þeim fjölmörgu sem eiga um sárt að binda eftir hinar hrikalegu náttúruhamfarir í Suður Asíu fyrir örfáum dögum. Óblíð náttúruöflin minna á sig, það þekkjum við Íslendingar. Við erum því fljót að rétta þeim sem minna mega sín hjálparhönd og höfum brugðist við með opinberu fjárframlagi og jafnframt hafa einstaklingar lagt fram sinn skerf til aðstoðar. 

Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

Svo kvað Valdimar Briem í áramótaljóði sínu. Minning ársins 2004 lifir og hvetur til áframhalds á þeim góða grunni sem lagður hefur verið.
 
Ég þakka gott samstarf og ánægjuleg kynni og óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs ár og farsældar á árinu 2005.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum