Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. mars 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Ávarp forsætisráðherra við opnun Nýsköpunarþings 2005

Heiðraða samkoma.
Það er mér mikil ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur í upphafi Nýsköpunarþings. Þetta þing er orðið að árvissum vettvangi þar sem leitast er við að efla skilning manna á samspili vísinda, tækni og þekkingar annars vegar og vöruframleiðslu og markaðsstarfs hins vegar. Að þessu sinni er undirskrift þingsins “Nýir tímar í nýsköpun” en af heiti erinda sem flutt verða hér á eftir má ráða að öflug menntun og þekking er undirstaða nýsköpunar í atvinnulífinu.

Orðið nýsköpun er ungt í íslenskri tungu og hefur yfir sér ákveðna birtu og bjartsýni. Það merkir að búa til eitthvað nýtt, eitthvað sem ekki var til áður. Það vísar til þeirrar áráttu mannsins að kanna nýjar slóðir, að leita stöðugt nýrra leiða til endurbóta. Þörfin fyrir nýjungar er ávallt fyrir hendi og hefur líklega aldrei verið meiri en nú. Sama gildir um tækifærin sem morgundagurinn hefur að geyma.

Brautriðjandinn eða frumkvöðullinn þarf að vera ýmsum kostum prýddur. Hann verður að hafa einbeittan vilja, getu og áræðni til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann þarf að búa yfir útsjónarsemi og hafa hæfileika til að sannfæra aðra um ágæti eigin hugmynda og þannig fá fleiri til samstarfs. Síðast en ekki síst þarf hann að hafa kjark til að taka af skarið, taka áhættu, því oftast er hann í þeim sporum að þurfa að fara af stað án tryggingar um árangur og vera reiðubúinn að kosta miklu til, bæði erfiði, fé og tíma.

Nýsköpun er nauðsynleg í litlu samfélagi eins og því íslenska til að auka fjölbreytni og skapa ný tækifæri. Þeir landkostir sem við höfum búið við í aldir, baráttan við náttúruöflin í harðbýlu landi, hafa orðið til þess að okkur er í blóð borið hugrekki og hagsýni sem gerði þjóðinni kleift á sínum tíma að komast til bjargálna við kröpp kjör. Með vaxandi menntun og þekkingu, og þeirri landlægu áráttu að tileinka okkur fljótt og vel tækninýjungar, hefur okkur tekist að komast í fremstu röð þeirra þjóða sem státa af hæstu þjóðartekjum á mann. 

Á tiltölulega fáum áratugum hefur okkur tekist að styrkja stoðir atvinnulífsins frá því að afkoma þjóðarinnar var algerlega háð gæftum og afkomu í sjávarútvegi og landbúnaði yfir í fjölbreytt atvinnulíf þar sem hátækni og menntun þjóðarinnar hafa tekið við af náttúruöflunum við að ákvarða okkur lífskjör.

Það skiptir okkar fámennu þjóð afar miklu að okkur takist áfram að efla nýsköpun og tileinka okkur nýjungar með markvissum hætti. Í því samfélagi sem við lifum í eru landamæri og hömlur óðum að hverfa og allur heimurinn er smám saman að verða að einu markaðssvæði. Upplýsingar berast með hraða ljóssins heimshorna á milli og fjarlægðir skipta æ minna máli. Það er því ekki nóg að halda í horfinu eða þokast rólega í framfaraátt því einhverstaðar út í heimi er einhver að reyna að gera betur.

En til þess að nýsköpun fái þann sess sem henni ber í atvinnulífinu þurfa margir aðilar að leggja hönd á plóginn. Menntamál þurfa stöðugt að vera í brennidepli og skólakerfið þarf að vera fært um að takast á við nýja tíma og nýjar áherslur.

Stjórnvöld hafa verið sér meðvituð um mikilvægi þess að örva einstaklinga og fyrirtæki til nýsköpunar og hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum til að hvetja til fjárfestingar í nýsköpun og sprotafyrirtækjum

Með samkomulagi milli fulltrúa stjórnvalda og samtaka í iðnaði og sjávarútvegi var Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins komið á fót árið 1997. Nýsköpunarsjóður er áhættufjárfestir sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum og styðja við þróunar- og kynningarverkefni.

Sjóðurinn efldist mjög fyrstu árin og var hagnaði hans varið til uppbyggingar sjóðsins og frekari fjárfestinga. Árið 2000 urðu þáttaskil í starfsemi Nýsköpunarsjóðs sem og annarra sjóða sem lögðu áhættufé í nýsköpun þegar gengi hlutabréfa um heim allan féll verulega. Nýsköpunarsjóður hélt þó enn um sinn sínu striki á meðan að aðrir sjóðir hættu að mestu að fjárfesta í nýsköpun.

Nýsköpun atvinnulífsins hefur hin síðustu ár liðið fyrir skort á áhættufjármagni til sprotafyrirtækja sem vilja nýta nýja þekkingu og hugmyndir. Kröfur fjárfesta til arðsemi hafa aukist, en þær eru háðar mati á áhættu. Einnig eru gerðar auknar kröfur um styttri binditíma á fjárfestingar þó það gangi þvert á þarfir ungra fyrirtækja. Sprotafyrirtæki þurfa almennt lengri tíma til að komast á rekstrarlega trygga braut en fjárfestar telja ásættanlegan. Þetta hefur leitt til þess að fjárfestar hafa að undanförnu lítt sinnt þörfum íslenskra sprotafyrirtækja fyrir áhættufé. Þessu þarf að breyta með vísun til þess að mörg framsæknustu fyrirtækin í framrás íslensks atvinnulífs hófu starfsemi sína sem sprotafyrir-tæki fyrir nokkrum árum. Nægir þar að nefna fyrirtæki á borð við Marel, Össur, Latabæ og Actavis – fyrirtæki sem veita hundruðum einstaklinga störf, skapa þjóðarbúinu verulegar tekjur og treysta efnahag þjóðarinnar allrar.

Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum til að hvetja á ný til tæknirannsókna og aukinnar fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. Þannig hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka árleg framlög til opinberra vísinda- og tæknisjóða um að minnsta kosti einn milljarð króna á yfirstandandi kjörtímabili sem er ríflega tvöföldun frá því sem var árið 2003. Um helmingur þeirrar aukningar rennur til nýs sjóðs, Tækniþróunarsjóðs, sem stofnaður var til að styðja við tækniþróun og rannsóknir sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Sjóðnum er þannig ætlað að brúa bilið á milli Vísindasjóðs og Nýsköpunarsjóðs.

Þá hefur Nýsköpunarsjóður fengið heimild til að stofna til nýrra sameignar-sjóða með öðrum fjárfestum sem vilja ávaxta fé sitt í ungum og vaxandi fyrir-tækjum. Þessi heimild sjóðsins opnar á samstarf með innlendum jafnt sem erlendum framtaksfjárfestum og ég vænti þess að fjársterkir aðilar á borð við lífeyrissjóðina að sjá sér hag í að koma að slíku samstarfi og leggja áhættufé í sprotastarfsemi. Að mínu mati mætti hvetja til þess með breytingum á skattkerfinu.

Efla þarf og einfalda ferlið frá hugmynd til fyrirtækis. Á fundi Vísinda- og tækniráðs í desember síðast liðnum beindi ráðið því til viðskiptaráðherra að láta kanna leiðir til að auka fjárfestingafé Nýsköpunarsjóðs og að leita samstarf við fjárfesta, bæði fjársterka einstaklinga og stofnanafjárfesta um að efla nýsköpun í atvinnulífinu.

Framangreindar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa bætt forsendur til að fjármagna nýsköpun og tengdar rannsóknir. Þær miða jafnframt að því að fjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu verði samfellt svo atvinnulíf þjóðarinnar endurnýist með eðlilegum hætti. En betur má ef duga skal.

Ágætu þinggestir.
Ég tel að þessi málaflokkur verði einn sá mikilvægasti á vettvangi stjórnmálanna á næstu árum og hyggst beita mér fyrir því á vettvangi formennsku í Vísinda- og tækniráði að framlög til þessa málaflokks verði aukin á næstu árum og þannig undirstrikað mikilvægi menntunar, nýsköpunar og þekkingar í hagkerfi framtíðarinnar. Með slíkum áherslum munum við sjá fjölmörg ný fyrirtæki spretta upp og vaxa á næstu árum og áratugum.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum