Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Ársfundur Seðlabanka Íslands 2005

Ræða forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, á ársfundi Seðlabanka Íslands 30. mars 2005.

Góðir fundarmenn.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag í fyrsta sinn, á ársfundi Seðlabanka Íslands. Þessir fundir gefa færi á að fara yfir stöðu efnahagsmála, líta yfir farinn veg og meta horfur til næstu framtíðar. Hagfræðin hefur stundum verið kölluð hin döpru vísindi. Það hefur líka oft verið svo að á ársfundum Seðlabankans hafi verið farið yfir ákaflega dapra stöðu efnahagsmála hér á landi og það kom iðulega fyrir að menn færu daprari út af fundum en þeir voru þegar þeir hófust. Ég man þetta sem stjórnmálamaður, ég minnist þessa líka sem formaður bankaráðs Seðlabankans hér í eina tíð.

Þetta er sem betur fer liðin tíð. Mér finnst það líka tímanna tákn að efnahagsumræðan á Íslandi í dag snýst gjarnan um ýmis góðærisvandamál eins og það hvort það sé rétt að lækka skatta alveg svona mikið eða hvort það sé endilega rétt að ráðast í svo og svo miklar framkvæmdir á vegum hins opinbera. Hér áður fyrr ræddu menn hversu mikið þyrfti að hækka skatta og hvernig ríkið gæti fjármagnað þessa eða hina vegaframkvæmdina án þess að setja ríkissjóð á hliðina. Ég verð að viðurkenna að mér finnst efnahagsumræðan í dag mun skemmtilegri en hún var hér á árum áður og vona að mér fyrirgefist það.

Þó er það líklega svo að ýmsum, ekki síst yngra fólki, finnst óþarfi að fara mörgum orðum um góða stöðu íslenskra efnahagsmála og þær grundvallarbreytingar sem orðið hafa í þeim efnum á undanförnum árum. Yngri kynslóðir þessa lands hafa alist upp við efnahagslegan stöðugleika og ört batnandi lífskjör og þekkja ekkert annað og finnst þess vegna ekki ástæða til þess að dvelja of mikið við fortíðina. Ég hef fullan skilning á þessu sjónarmiði. Hins vegar er mikilvægt að allir átti sig á því að stöðugleiki í efnahagsmálum er ekkert náttúrulögmál. Stöðugleikinn kemur ekki af sjálfu sér. Við sem höfum tekið þátt í íslenskum stjórnmálum lengi og upplifað bæði skin og skúrir, ekki síst á sviði efnahagsmála, getum vitnað um að það hefur kallað á blóð, svita og tár að ná þessu fram eins og sagt er. Eða hvað skyldu vera margir hér í salnum sem muna eftir því þegar verðbólgan var í kringum 100% og þegar kaupmáttur heimilanna gat hrapað um tugi prósenta á 1-2 árum? Þetta var enginn sýndarveruleiki heldur blákaldar staðreyndir eins og hagtölur sýna.

Ég get fullvissað ykkur um að þetta voru skelfilegir tímar. Tímar sem ég vona að við eigum aldrei eftir að ganga aftur í gegnum. Ég er líka sannfærður um að við eigum ekki eftir að upplifa annað eins svo framarlega sem við kunnum fótum okkar forráð og förum ekki út í einhverja ævintýramennsku í efnahagsmálum.

Eins og margoft hefur komið fram höfum við á undanförnum áratug eða svo borið gæfu til þess að hrinda í framkvæmd gífurlegum skipulagsbreytingum í íslensku efnahagslífi sem hafa lagt grundvöll að þeim efnahagslegu framförum sem hér hafa orðið. Í reynd er hér um algjöra byltingu að ræða. Ég veit að það þarf ekki að skýra þetta sérstaklega fyrir ykkur sem hér sitjið; sennilega væruð þið alls ekki hér ef þessar breytingar hefðu ekki komið til framkvæmda. Líklega væri ég ekki heldur hér.

Meginmarkmið þessara skipulagsbreytinga var að skapa traust og nútímalegt samfélag sem byggir á öflugu markaðshagkerfi og kröftugu atvinnulífi ásamt því að skapa grundvöll fyrir þróuðu heilbrigðis-, mennta- og félagsmálakerfi.

Ég tel að við höfum náð þessum markmiðum. Með uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðingu frjálsra fjármagnshreyfinga. Með aðild að evrópska efnahagssvæðinu og auknu frelsi á sviði viðskipta. Með gjörbyltingu á sviði skattamála, sem fyrst og fremst miðaði að því að lækka skatthlutföll, breikka skattstofna og fækka undanþágum. Með þessum breytingum voru skapaðar nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins sem nú sér fyrir endann á. Allir þessir þættir eiga sinn mikilvæga þátt í að renna styrkari stoðum undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf, auka hagvöxt og bæta lífskjör heimilanna í landinu.

Áhrifin blasa alls staðar við: Íslenska hagkerfið er nú í hópi þeirra hagkerfa þar sem hvað mestum árangri hefur verið náð. Hér hefur hagvöxtur verið hvað mestur. Atvinnuleysi verið hvað minnst. Kaupmáttaraukning heimilanna verið hvað mest. Staða ríkisfjármála verið góð, hvort sem litið er á afkomu eða skuldastöðu. Þessi þróun hefur skilað okkur í hóp þeirra ríkja þar sem lífskjör eru með því besta sem þekkist.

Allt er þetta af hinu góða. Hins vegar er mikilvægt að átta sig á því að þessi þróun, þessar miklu breytingar sem gerðar hafa verið á umgjörð efnahagslífsins, hafa ekki orðið til af sjálfu sér. Þær eru í reynd hluti af miklu víðtækara þróunarferli þar sem fjölmörgum áður viðteknum viðhorfum hvað varðar hagstjórn hefur verið hafnað. Um áratugaskeið hafði helsta kennisetning efnahagsstjórnar verið að ríkið ætti að vera þar í aðalhlutverki. Þetta gilti jafnt hér á landi sem í öðrum ríkjum. Þessi kenning fól það í sér að stjórnvöld ættu að grípa inn í efnahagsstarfsemina með virkum hætti, með auknum útgjöldum eða lægri sköttum þegar hagkerfið væri í niðursveiflu, og minni útgjöldum og hærri sköttum í uppsveiflu.

Slíkar kenningar kunna að hafa verið góðar og gildar fyrir tíma alþjóðavæðingar og aukins frjálsræðis í efnahagsmálum. En þær eiga miklu síður við í nútímahagkerfi. Af þessum ástæðum hafa þau almennu viðhorf smám saman orðið ofan á í flestum iðnríkjum að mikilvægasta hlutverk hagstjórnar væri að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Í því samhengi er stöðugleiki í verðlagsmálum talinn afar mikilvægur. Mikilvæg forsenda fyrir slíkum stöðugleika er að ríkisfjármálin séu í góðu lagi. Seðlabankanum er síðan falið það hlutverk að tryggja verðstöðugleika.

Sem betur fer höfum við borið gæfu til að tileinka okkur þessar breyttu hagstjórnaraðferðir. Auðvitað hefur gengið á ýmsu og það tekur tíma fyrir alla aðila að laga sig að breyttum aðstæðum. Það á jafnt við um atvinnulífið, heimilin og okkur stjórnmálamennina. Við megum líka búast við og sætta okkur við einhver skakkaföll og byrjunarerfiðleika í nýju og gjörbreyttu efnahagsumhverfi. Aðalatriðið er að markmiðin séu á hreinu, að við séum að stefna í rétta átt og að árangurinn láti ekki á sér standa og sé sýnilegur og merkjanlegur.

Ég tel að við séum svo sannarlega á réttri leið. Sem betur fer er ég ekki einn um þessa skoðun þar sem margar virtar alþjóðaefnahagsstofnanir eins og OECD, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og World Economic Forum í Sviss hafa farið lofsamlegum orðum um stöðu íslenskra efnahagsmála og þær breytingar sem orðið hafa á skipulagi þeirra á undanförnum áratug. Sama gildir um helstu matsfyrirtæki heims, Moody’s, Standard & Poor’s og Fitch International þar sem við njótum einhverra bestu einkunna sem hægt er að fá. Þetta hefur síðan skilað sér aftur í hagstæðum lánskjörum hjá erlendum bönkum. Og það er ekki bara ríkissjóður sem nýtur hér góðs af heldur hafa bankarnir fengið góðar einkunnir hjá matsfyrirtækjunum.

Eitthvert augljósasta merki um jákvæða þróun íslenskra efnahagsmála er það sem kallað hefur verið útrás íslenskra fyrirtækja og fjárfesta á erlenda markaði. Það kann vel að vera að einhverjum finnist þetta undarlegt og spyrji hvernig það megi vera að þessi litla þjóð geti gert sig svo gildandi á erlendum mörkuðum sem raun ber vitni. Ég hef sjálfur lent í þeirri ánægjulegu stöðu að útskýra fyrir ýmsum erlendum aðilum að þar skipti að sjálfsögðu miklu máli það áræði, sá kraftur og það frumkvæði sem býr í íslenskum athafnamönnum. En einnig hitt að þær aðstæður sem hér hafa skapast á undanförnum árum hafa orðið til þess að íslenskt atvinnulíf hefur dafnað og blómstrað og í raun gert það að verkum að íslenski markaðurinn er í mörgum tilvikum orðinn of lítill fyrir þessa starfsemi.

Ég tel að Seðlabankinn hafi gegnt mikilvægu hlutverki í þessari þróun og að það hafi verið mikið framfaraspor þegar lögum um bankann var breytt árið 2001 og honum í senn fært aukið sjálfstæði í sínum ákvörðunum og gert að sinna því meginhlutverki að halda verðbólgu innan tiltekinna marka. Nánar tiltekið er verðbólgumarkmiðið sjálft 2,5% en svokölluð þolmörk 1,5% til hvorrar áttar.

Nú hefur það gerst, í annað skipti frá því að Seðlabankinn fékk það hlutverk að halda verðbólgu innan tiltekinna marka, að verðbólgan á mælikvarða vísitölu neysluverðs hefur rofið þolmörkin. Í framhaldi af því sendi bankinn greinargerð til ríkisstjórnarinnar þar sem fjallað var um helstu ástæður þess að verðbólgan fór yfir þolmörkin að mati bankans, hvernig bankinn hygðist bregðast við og hve langan tíma hann teldi að það muni taka að ná verðbólgumarkmiðinu að nýju.

Þessi staða hefur kallað á umræðu um það hvort hagstjórnarblandan sé rétt, hvort ríkisfjármálastefnan sé nægilega aðhaldssöm og hvort of mikið sé lagt á peningamálastefnuna.

Ég tel afar mikilvægt að hér sé jafnan í gangi mikil og frjó umræða um efnahagsmál þar sem menn skiptast á skoðunum um stöðu og horfur, hvað megi betur fara í hagstjórn og fleira í þeim dúr. Mér finnst þessi umræða stundum vera á nokkrum villigötum og að menn átti sig ekki alveg á hagstjórnarhlutverki ríkisfjármála í nútímahagkerfi. Að mínu viti er alveg augljóst að hlutverk ríkisfjármálanna á fyrst og fremst að lúta að langtímasjónarmiðum og skipulagi hagkerfisins. Það á ekki að beita ríkisfjármálunum til þess að draga úr skammtímasveiflum í efnahagslífinu. Þeir tímar eru liðnir.

Það er auðvitað áhyggjuefni hversu mikið gengi íslensku krónunnar hefur styrkst á síðustu mánuðum. Enda hefur það komið öllum á óvart, jafnt Seðlabanka, fjármálaráðuneytinu sem og öllum aðilum á fjármálamarkaði. Ég hef fullan skilning á áhyggjum útflutnings- og samkeppnisfyrirtækja af afkomunni við þessar aðstæður. Þar er hins vegar ekki við stjórnvöld að sakast.

Af hálfu stjórnvalda hefur verið gripið til umfangsmikilla aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum til þess að sporna gegn þenslu vegna stóriðjuframkvæmdanna. Fjárfestingar á vegum ríkisins hafa verið skornar niður og miklu aðhaldi hefur verið beitt, einkum á sviði almenns ríkisrekstrar. Nýjustu tölur Hagstofunnar fyrir árið 2004 staðfesta þessa niðurstöðu þar sem bæði fjárfestingar- og samneysluútgjöld ríkissjóðs eru innan þeirra viðmiðunarmarka sem ríkisstjórnin setti sér. Það veldur reyndar nokkrum vonbrigðum að fjármálastjórn sveitarfélaga virðist ekki hafa verið eins aðhaldssöm, en þau mynda ásamt ríkisfjármálunum hin opinberu umsvif. Af því leiðir að það er ekki nóg að beita aðhaldi í ríkisfjármálum til þess að draga úr vexti samneyslunnar og þar með þenslu, heldur þurfa allir opinberir aðilar að koma þar að málum.

Ég vil benda á að stjórnvöldum eru nokkur takmörk sett hvað varðar svigrúm til að auka aðhald þar sem til dæmis fjárfestingar á vegum ríkisins eru tiltölulegar litlar í samanburði við fjárfestingar í atvinnulífinu, að ekki sé talað um stóriðjuframkvæmdirnar. Þannig námu fjárfestingar ríkis og sveitarfélaga árið 2004 um 35 milljörðum króna, eða einungis þriðjungi af fjárfestingum fyrirtækja á því eina ári.

Hvað er til ráða? Eru stjórnvöld varnarlaus gagnvart þeirri styrkingu krónunnar sem orðið hefur? Í þessu samhengi finnst mér mikilvægt að átta sig á hvað það er sem hefur valdið gengishækkun krónunnar. Eru það stóriðjuframkvæmdirnar og of lítið aðhald í ríkisfjármálum? Nei, svo sannarlega ekki. Þegar horft er á innstreymi erlends fjármagns til landsins kemur í ljós að innan við fimmtung má rekja beinlínis til stóriðjuframkvæmdanna. Meginhlutinn stafar af gjaldeyriskaupum erlendra fjárfesta, einkum banka, sem eru að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa til þess að hagnast. Þetta er eðlilegt út frá sjónarhóli viðkomandi banka sem horfa fyrst og fremst til þess að auka arðsemina. Jafnframt lýsir þetta ákveðnu trausti á stöðu efnahagsmála og hagstjórn hér á landi.

En þessi þróun skapar ákveðin hagstjórnarvandamál í okkar litla hagkerfi. Við erum hér að horfa upp á einhverjar stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar sem ganga yfir á 2-3 árum. Mér er til efs að aðrar þjóðir hafi staðið frammi fyrir öðru eins risaverkefni. Þessar aðstæður eru einstakar, þær eiga sér ekkert fordæmi og það eru einfaldlega ekki til einhverjar töfraformúlur til að leysa öll þau vandamál sem upp kunna að koma, hvort sem það er á sviði almennrar hagstjórnar eða á þrengri sviðum eins og vinnumarkaðsmála.

Auðvitað gjöldum við þess hve íslenski fjármálamarkaðurinn er lítill í samanburði við alþjóðamarkaðinn. Tiltölulega litlar fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu geta skapað miklar sveiflur í gengi okkar litlu íslensku krónu. Ég held að þetta sé staða sem við verðum að búa við á meðan við höfum okkar eigin gjaldmiðil. Með þessu er ég ekki að segja að upptaka evrunnar myndi leysa öll vandamál. Hún gerði það ekki. En þetta er eitt þeirra atriða sem hlýtur að koma til skoðunar þegar sveiflur gengisins eru brotnar til mergjar.

Góðir fundarmenn.

Ég mun nú víkja nánar að stjórn peningamála sem nokkuð hefur verið gagnrýnd að undanförnu. Þessi gagnrýni er reyndar ekki alveg einsleit þar sem því er annars vegar haldið fram að Seðlabankinn hafi brugðist of seint við þenslumerkjum í efnahagslífinu og hefði átt að hækka vexti fyrr. Hins vegar hefur verið talið að hann hafi þegar gengið of langt í vaxtahækkunum. Þá hefur verið talið að beiting vaxta sem hagstjórnartækis sé ekki að skila tilætluðum árangri heldur leiði það fyrst og fremst til hækkunar gengis og skapi erfiðleika í útflutnings- og samkeppnisgreinum þar sem þenslumerkin eru ekki yfirþyrmandi.

Hér eru því skiptar skoðanir. Það atriði sem mér finnst hins vegar mikilvægast að ræða á þessari stundu er hvaða verðbólgumælikvarði sýnir besta mynd af stöðu efnahagsmála og hvaða viðmiðun gagnist Seðlabankanum best til að sinna sínu hlutverki. Eins og allir vita hefur vísitala neysluverðs hækkað um liðlega 4½% á síðustu tólf mánuðum. Meira en helmingur af þessari hækkun stafar hins vegar af hækkun á húsnæðisverði. Almennur framfærslukostnaður án húsnæðis hefur hækkað miklu minna, eða um liðlega 2%.

Það er því eðlilegt að spurt sé hvort vísitala neysluverðs gefi rétta mynd af stöðu verðlagsmála við þessar aðstæður. Í þessu samhengi hefur verið bent á að vísitala neysluverðs endurspegli ekki nægilega vel breytingar á almennum framfærslukostnaði heimilanna þar sem lækkun á vöxtum að undanförnu og minnkandi greiðslubyrði húsnæðislána hafi ekki að fullu komið inn í vísitöluna. Ég tel fullkomlega eðlilegt að þessi umræða eigi sér stað og að menn velti fyrir sér kostum og göllum mismunandi verðlagsviðmiðana sem Seðlabankinn þurfi að horfa á þegar hann tekur sínar vaxtaákvarðanir.

Af þessu tilefni finnst mér full ástæða til að ræða það opinskátt hvort Seðlabankanum sé of þröngur stakkur sniðinn með því að miða verðbólgumarkmiðið alfarið við tólf mánaða breytingar vísitölu neysluverðs. Ég tel sjálfgefið að Seðlabankinn horfi til fjölmargra þátta efnahagslífsins þegar hann tekur sínar vaxtaákvarðanir, þar á meðal til þróunar fasteignaverðs. Mér finnst hins vegar fasteignaverðsþátturinn hafa of mikið vægi eins og staðan er í dag og tel nauðsynlegt að láta skoða þetta atriði vandlega.

Í framhaldi af þessu finnst mér eðlilegt að Seðlabankinn meti hvort frekari vaxtahækkanir séu nauðsynlegar og líklegar til að stuðla að því að verðbólgumarkmiðin náist. Ég hef heyrt rök Seðlabankans fyrir þeim vaxtahækkunum sem hann hefur þegar beitt sér fyrir. Þau eru góð og gild svo langt sem þau ná. En ég hef líka átt viðræður við fjölmarga fulltrúa atvinnulífsins og fleiri sem hafa efasemdir um að stýritæki Seðlabankans séu að virka eins og til er ætlast. Ég ætla mér ekki að gerast dómari í þessu máli. Hins vegar finnst mér eðlilegt að hlusta á öll sjónarmið.

Forsætisráðherra þjóðarinnar ber einfaldlega skylda til að ræða um áhyggjur almennings og atvinnulífs út af verðbólguþróun og hækkandi vöxtum Seðlabankans, tjá hugleiðingar fólksins um valkosti og leita svara fyrir hönd þjóðarinnar um flókin og mikilvæg mál. Öll þessi málefni eru auðvitað umfjöllunarefni stjórnvalda, atvinnulífs og allrar þjóðarinnar. Allt orkar tvímælis þá gert er og ólík sjónarmið og matsatriði eiga vitaskuld að fá málefnalega athugun.

Við eigum að fagna því að tilefni gefist til að færa fram gild og málefnaleg rök með og á móti ráðandi stefnu og viðhorfum. Við megum aldrei festast í einhverju hjólfari. Ný reynsla, ný þekking og ný fræðileg og málefnaleg rök eiga stöðugt að vera í umræðunni. Ég vil að sem flestir fái tækifæri til að taka ábyrgan þátt í málefnalegum umræðum um þessi mikilvægu hagsmunamál atvinnulífsins og allrar þjóðarinnar.

Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að Seðlabankinn er að stíga sín fyrstu spor í peningamálastjórn þar sem hann býr við sjálfstæði án afskipta stjórnvalda á sama tíma og fjármagnshreyfingar milli landa eru algjörlega frjálsar. Það er hins vegar svo að áhrif og ekki síst tímasetningar áhrifa vaxtaákvarðana eru talsverðri óvissu háðar. Virka vaxtabreytingar með hálfs árs töf, eins árstöf eða eins og hálfs árstöf ?

Um þetta eru skiptar skoðanir meðal hagfræðinga. Það er eðlilegt að Seðlabankinn vilji fara varlega í upphafi og hafa vaðið fyrir neðan sig. Á hinn bóginn hef ég áhyggjur af því að frekari vaxtahækkanir hafi fyrst og fremst áhrif á gengið til hækkunar. Það hefur vissulega jákvæð áhrif á verðbólguþróunina til skamms tíma en um leið er hætt við að gengið kunni að lækka þeim mun hraðar þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur og menn horfa fram á vaxtalækkun.

Slík þróun skapar hættu á kröftugu verðbólguskoti sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir okkar efnahagslíf, jafnt fyrir einstaklinga, atvinnulífið og fjármálakerfið. Við verðum að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ég hef reyndar fulla trú á að okkur takist að komast klakklaust í gegnum þetta þensluskeið þannig að við varðveitum þann efnahagslega stöðugleika sem hér hefur náðst. Honum megum við alls ekki fórna.

Ég vil að lokum þakka stjórnendum Seðlabankans gott samstarf á liðnu ári og starfsfólki bankans fyrir vel unnin störf. Eins og hér hefur komið fram verður enginn skortur á verkefnum hjá ykkur á næstu mánuðum og misserum og ég veit að þið munuð hér eftir sem hingað til sinna þeim verkefnum með hagsmuni þjóðarbúsins alls að leiðarljósi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum