Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. maí 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins

Góðir aðalfundargestir.

Eftir að hafa horft á þau myndskeið sem hér hafa verið sýnd þarf varla að hafa mörg orð um þær efnahagsframfarir sem orðið hafa hér á landi á undanförnum áratug eða svo. Þótt stjórnvöld hafi vissulega átt sinn þátt í þessari ánægjulegu þróun er óhætt að fullyrða að slíkur efnahagslegur árangur hefði ekki náðst nema með samstilltu átaki allra aðila, jafnt stjórnvalda sem aðila vinnumarkaðarins og heimilanna í landinu.

Sem betur fer báru stjórnvöld gæfu til að grípa til róttækra aðgerða þegar íslenskt efnahagslíf var komið í ógöngur og skapa þannig nauðsynleg skilyrði til að atvinnulífið kæmist inn á rétt spor eftir áratuga óðaverðbólgu sem torveldaði arðbæran og heilbrigðan atvinnurekstur. Samtök launafólks og atvinnurekenda voru hér í lykilhlutverki sem endurspeglast fyrst í gerð þjóðarsáttasamninganna árið 1990 og í reynd í öllum kjarasamningum sem síðan hafa verið gerðir.
Sú öra framþróun sem einkennt hefur íslenskt þjóðfélag undanfarinn áratug byggir á þessum grunni. Árangurinn sýnir svo ekki verður um villst að þar var svo sannarlega ekki byggt á sandi.

Þannig hefur hagvöxtur hér á landi numið hvorki meira né minna en 51% á síðustu tíu árum. Til samanburðar má nefna að hagvöxtur í OECD ríkjunum nam 35% á sama tímabili. Heildarverðmæti landsframleiðslu okkar jókst þá um 120%, eða úr 465 milljörðum árið 1995 í 970 milljarða árið 2005. Á sama tíma var aukningin 84% í hinum OECD ríkjunum.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist um 55% á þessum tíma sem er margfalt meira en í OECD ríkjunum í heild og tvöfalt meira en á hinum Norðurlöndunum, þar á meðal í olíuríkinu Noregi. Þessi mælikvarði endurspeglar samanlögð áhrif launahækkana, skattalækkana, hækkunar barnabóta og vaxtalækkana.

Enn einn mælikvarðinn á lífskjör almennings er atvinnuleysi. Frá árinu 1995 hefur atvinnuleysi hér á landi minnkað um helming og farið úr 5% árið 1995 í 2½% samkvæmt spá fyrir árið 2005. Þetta er helmingi minna atvinnuleysi en þekkist á hinum Norðurlöndunum og munurinn er enn meiri þegar horft er til landa eins og Þýskalands og Frakklands þar sem atvinnuleysið er nálægt 10%.

En hvað með aðra mælikvarða sem ekki eru eins mikið í umræðunni og hinir hefðbundnu efnahagsmælikvarðar?

Ég vil fyrst nefna að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að hækka elli- og örorkulífeyri verulega umfram almennar launahækkanir á sama tíma og dregið hefur verið úr jaðaráhrifum tekna á bótagreiðslur. Þetta hefur skilað sér í umtalsverðum kjarabótum til allra lífeyrisþega.

Í öðru lagi má nefna lengingu fæðingarorlofs og upptöku feðraorlofs sem hafa skipað Íslendingum í forystu í heiminum á sviði jafnréttis- og fjölskyldumála. Þetta er eitthvert stærsta skref sem tekið hefur verið til að styrkja innbyrðis tengsl fjölskyldunnar og efla með foreldrum vitund um gildi uppeldis.

Í þriðja lagi hafa stórstígar framfarir átt sér stað á öllum stigum menntunar og aldrei hefur meiri fjármunum verið varið til þessa málaflokks en nú. Áhersla er lögð á að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Vísindalegar rannsóknir háskóla, stofnana og fyrirtækja hafa einnig eflst og orðið markvissari.

Í fjórða lagi hafa framlög ríkisins til heilbrigðismála aukist um 50% að raungildi frá árinu 1998 og enn meira frá árinu 1995. Áhersla hefur verið lögð á að allir landsmenn hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð aldri, búsetu og efnahag.

Þessi þróun ber vott um að íslenskt efnahagslíf er á réttri leið. Enn mikilvægara er að horfa fram á veg og leita allra mögulegra leiða til að tryggja að við höldum áfram á sömu braut. Að við höldum Íslandi áfram í úrvalsdeild eins og segir í yfirskrift þessa fundar. Það er langt frá því sjálfgefið að næst áratugur verði jafn gjöfull og sá síðusti. Ef eitthvað er má færa fyrir því rök að við þurfum að leggja enn meira á okkur til að halda núverandi stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, hvað þá að bæta hana enn frekar.

Ástæðan er sú að á tímum aukinnar alþjóðavæðingar og frjálsra viðskipta milli þjóða, vaxandi samkeppni samhliða meiri þátttöku fjölmargra nýrra ríkja, meðal annars í Austur- og Mið-Evrópu, og síðast en ekki síst meira frelsis og aukins fjármagnsflæðis milli landa hefur heimurinn tekið algjörum stakkaskiptum. Þær reglur sem giltu í gær gilda ekki í dag. Þessi umskipti kalla á endurmat á flestum sviðum þjóðfélagsins, ekki síst á sviði efnahagsmála.

Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Jú, það þýðir að við öll, jafnt stjórnvöld, atvinnulíf sem heimili, verðum að taka höndum saman og vera samstiga um að Ísland sé samkeppnishæft í samfélagi þjóðanna. Með öðrum orðum: Að tryggja að íslenskt  atvinnulíf búi ekki við lakari kjör en gengur og gerist meðal okkar helstu viðskiptalanda, og helst betri kjör. Sömuleiðis að tryggja að launafólk búi við sambærileg kjör og þekkist í okkar stærstu viðskiptalöndum.

Þetta á að vera okkar meginmarkmið. Hvernig gerum við þetta? Mig langar að nefna nokkur atriði sem ég tel hvað mikilvægust í þessu samhengi án þess þó að þetta sé tæmandi verkefnaskrá.

Fyrst ber að nefna þá þætti sem snúa að frekari uppbyggingu atvinnulífs í landinu. Ég get tekið undir margt af því sem kemur fram í skýrslu ykkar samtaka og fagna því að fá fram svo skýra stefnumörkun sem gagnast stjórnvöldum í þeirri vinnu sem framundan er.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að huga að frekari  erlendri fjárfestingu hér á landi til að halda uppi hagvexti og skapa auknar útflutningstekjur. Við höfum á undanförnum árum búið við mun meiri hagvöxt en flestar okkar nágrannaþjóðir sem ekki síst má rekja til mikilla stóriðjuframkvæmda. Öllum spám ber saman um að um leið og þessum framkvæmdum ljúki dragi úr hagvexti.

Brýnt er að hagstjórnin taki mið af þessum horfum og komi í veg fyrir að þessar spár rætist. Það er mikill áhugi erlendra aðila fyrir frekari uppbyggingu stóriðju í landinu. Þau mál eru til alvarlegrar skoðunar þar sem vitaskuld verður tekið fullt tillit til umhverfissjónarmiða. Þannig er hægt að tryggja áframhaldandi hagvöxt hér á landi á næstu árum. Sömuleiðis er mikilvægt að efla verulega þátt vísinda og rannsókna í landinu og bæta skilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Þá vil ég taka undir það meginsjónarmið sem hér hefur verið nefnt að halda áfram á þeirri braut að laga skattaumhverfið með fyrrgreind markmið í huga, þ.e. að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og bæta lífskjör almennings.

Það er hins vegar ljóst að hið efnahagslega svigrúm til skattalækkana er takmarkað, ekki hvað síst á sama tíma og yfir standa einhverjar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Ríkisstjórnin er oft minnt á að það þurfi að gæta ítrasta aðhalds í ríkisfjármálum, bæði hvað varðar skattalækkanir og aukin útgjöld. Við höfum þó metið það svo að ef skattar eru ekki lækkaðir þegar efnahagslífið er í uppsveiflu þá verði það einfaldlega ekki gert.

Fyrir um það bil áratug var atvinnulífið í mikilli kreppu. Þá var ákveðið að forgangsraða skattkerfisbreytingum á þann veg að þær kæmu fyrst atvinnulífinu til góða sem síðan skiluðu sér til launafólks í formi hærri launa, aukinnar atvinnu og lægri skatta. Þetta hefur allt gengið eftir. Launin hafa hækkað meira hér á landi en í okkar helstu viðskiptalöndum. Atvinnuleysi hefur snarminnkað. Lægri skattar á atvinnulífið hafa skilað sér í auknum hagnaði fyrirtækja og þar af leiðandi meiri skatttekjum sem aftur hefur skapað svigrúm til að lækka skatta á einstaklinga.

Ég er fullkomlega meðvitaður um að skattkerfið hjá okkur er ekki fullkomið. Það eru enn ýmsir hortittir við lýði svo sem stimpilgjöldin og ýmis vörugjöld sem eru leifar frá fyrri tímum. Eins þarf að vinna í því að lækka tekjuskatta einstaklinga meira.

Hér þarf þó að gæta þess að raska ekki stöðugleikanum og að skerða ekki velferðarþjónustuna. Það er algjört grundvallaratriði fyrir áframhaldandi velmegun í landinu að hér ríki efnahagslegur stöðugleiki. Þetta er og hefur verið hrygglengjan í efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnarflokka síðustu tíu árin.

Núverandi efnahagsstefna hefur skilað miklum og áþreifanlegum árangri fyrir íslenskt efnahagslíf og ég vænti þess að okkur beri gæfu til að halda áfram á sömu braut. Við getum ekki gert allt í einu og áfram þarf að forgangsraða. Við þurfum að gæta vel að alþjóðlegri skattasamkeppni og vera tilbúin að bregðast við þeim breytingum sem kunna að verða á því sviði á næstunni. Það á jafnt við um útrás íslenskra fyrirtækja og innkomu erlendra fyrirtækja á íslenskan markað.

Einn þáttur til að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er að lágmarka umfang opinbers eftirlits, einfalda það og tryggja samræmda framkvæmd eins og framast er unnt. Að þessu er unnið í helstu samkeppnislöndum okkar og brýnt er að við séum þar engir eftirbátar. Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir ári síðan voru kynntar tillögur samtakanna í þessa veru og eru þær í veigamestum atriðum í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég tek heils hugar undir mikilvægi þess að samræma veitingu skyldra leyfa og færa hana á færri hendur. Jafnframt er brýnt að koma í veg fyrir að eftirlit sé ólíkt milli eftirlitsumdæma. Frá því að lög um opinberar eftirlitsreglur tóku gildi árið 1999 hefur núverandi eftirlit verið endurskoðað með framangreind sjónarmið að leiðarljósi. Þannig hafa stjórnvöld með góðum árangri fært eftirlit til sjálfstæðra, faggiltra skoðanastofa. Áfram þarf að vinna í þeim anda.

Enn eitt mikilvægt atriði snýr að lífeyrismálum, ekki síst samspili eftirlauna, örorku- og ellilífeyris. Það er ljóst að staða lífeyrismála hér á landi er ákaflega góð í samanburði við önnur lönd, einkum hvað varðar lífeyrissjóðina sjálfa sem eru almennt byggðir upp sem eiginlegir sjóðir en ekki sem gegnumstreymiskerfi. Staða sjóðanna er mismunandi, ekki síst hvað varðar greiðslu örorkulífeyris. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið lýst yfir vilja til að ræða þessi mál við aðila vinnumarkaðarins án þess þó að í því felist ákveðnar skuldbindingar.

Örorkuþegum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum eins og kemur  fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunnar. Samhliða hafa greiðslur örorkubóta jafnt úr lífeyrissjóðum sem ríkissjóði aukist verulega. Nauðsynlegt er að taka til alvarlegrar skoðunar hvaða úrræði eru tiltæk til að mæta þessari stöðu og hefur embættismönnum heilbrigðis-, félags- og fjármálaráðuneyta verið falið að gera tillögur um framhald málsins. Fyrst og síðast þarf að fara yfir þessi mál í heild sinni og skoða samhengi og samspil eftirlauna, elli- og örorkulífeyris og annarra þátta er máli skipta. Ég get tekið undir margar þær hugmyndir sem fram koma í skýrslu Hagfræðistofnunar. Sérstaklega þarf að skoða hvernig örorkuréttur stofnast sem og mögulega endurhæfingu. Þessi atriði verða væntanlega rædd á fundi okkar fjármálaráðherra með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands síðar í þessum mánuði.


Góðir fundarmenn.

Það er óumdeilt að staða efnahagsmála er góð. Atvinna er mikil og almennt er talið að helstu vandamál okkar tengist kröftugri uppsveiflu, umframeyðslu og spennu. Fjármálamarkaðurinn hefur stóreflst og hlutabréfamarkaðurinn einnig. Allt er þetta af hinu góða.

Mér finnst hins vegar einn ljóður á viðskiptalífinu sem eru þau miklu átök sem virðast vera um yfirráð í fyrirtækjum. Í stað þess að aðaláherslan sé lögð á að bæta fyrirtækin, auka arðsemi þeirra og markaðsvirði berast ítrekað fréttir af átökum um yfirráð. Í hvers þágu eru þessi átök? Eru þau í þágu almennra hagsmuna starfsmanna, eigenda og þjóðfélagsins? Svo má vera stundum. Ef kyrrstaða er, forystuleysi og annað sem réttlætir breytingar kallar það oft á átök. Sú skýring er þó ekki nægileg.

Ég tel að bankarnir blandi sér um of í þessi átök, kaupi yfirráð og selji. Nýir aðilar taka við með miklar skuldir við bankana. Fyrirtæki eru tekin af markaði og hlutabréfamarkaðurinn verður fábreyttari. Það þjónar ekki hagsmunum þjóðfélagsins, starfsmanna og almennings að fyrirtækjum á markaði fækki. Almenningur, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar vilja sjá fjölbreyttari flóru öflugra fyrirtækja sem sækja mátt sinn í almennan hlutabréfamarkað með stjórnendur í forystu sem hafa hagsmuni starfsmanna og hluthafa í fyrirrúmi. Við viljum ekki sjá ódrengileg átök í mikilvægum fyrirtækjum.

Einkavæðing bankanna hefur hleypt miklu lífi í fjármálamarkaðinn og stóraukið umsvif þeirra erlendis. Það er eðlilegt að vaxtaverkir sjáist en mér finnst gengið of langt. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég hafi eitt frekar en annað í huga. Mér finnst vanta meira traust í samfélagið. Sumir kunna að segja “líttu þér nær”, vantar ekki meira traust á stjórnmálin og stjórnmálamennina. Vissulega er það rétt og stjórnmálamenn hafa sýnt vilja til að bæta úr því. Illskeytt átök, vont umtal og gróusögur veikja bæði viðskiptalíf og stjórnmálalíf. Stjórnmálin þurfa að njóta trausts og stjórnvöld þurfa að búa við aðhald. En aðhaldið verður að vera málefnalegt og sanngjarnt. Viðskiptalífið þarf á því sama að halda.

“Gakk þú hægt um gleðinnar dyr” hefur ávallt verið góð regla. Þessi regla er einföld og skýr og það er gott að hafa hana í huga á þessum mesta uppgangstíma sem við höfum lifað í sögu íslensks þjóðfélags.


Góðir fundarmenn.

Ég hef hér tæpt á ýmsum málum sem ég tel mikilvægt að hafa á dagskrá ríkisstjórnarinnar á næstu misserum enda stuðla þau ótvírætt að áframhaldandi uppbyggingu íslenska hagkerfisins og batnandi lífskjörum heimilanna í landinu.

Gangi menn til þessara verka með opnum huga og fullum vilja til að halda áfram á þeirri framfarabraut sem íslenskt efnahags- og atvinnulíf hefur verið á undanfarin ár er ég þess fullviss að við höldum ekki bara sæti okkar í úrvalsdeild heldur takist okkur að komast í sjálfa meistaradeildina. Það er verðugt markmið okkar allra.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum