Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. október 2005 HeilbrigðisráðuneytiðJón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra 2001-2006

Hátíðardagskrá í tilefni alþjóðageðheilbrigðisdagsins

Ávarp Jóns Kristjánssonar,

heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Gleðilega hátíð góðir gestir.

 

Það er ánægjulegt að vera hér við hátíðardagskrá í tilefni alþjóðageðheilbrigðisdagsins. Það er gleðilegt að sjá hve margir búa yfir krafti og vilja til að láta gott af sér leiða. Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að kynnast öllum þeim fjölda fólks sem hefur hugsjónir og kjarkinn og eljuna sem þarf til að láta þær rætast.

Sem heilbrigðisráðherra hefi ég fengið tækifæri til að kynnast mörgum eldhugum sem starfa að geðheilbrigðismálum. Þeir hafa margir komið á minn fund og kynnt mér hugmyndir að nýjum verkefnum til að stuðla að bættri geðheilsu almennings og betra lífi þeirra sem þjást af geðsjúkdómum.

Því miður hef ég oft þurft að vera í hlutverki úrtölumannsins sem stendur með báða fætur ofaní svörð, bendir á vandkvæði og heldur fast um pyngjuna. Þetta er jafnan hlutskipti ráðherra sem þurfa að vera hæfilega jarðbundnir og ráðdeildarsamir. En þegar hugmyndir eru góðar og verkefni vel undirbúin verður ráðherra líka að vera opinn fyrir nýjungum og reiðubúinn að veita þeim brautargengi. Og sem betur fer hef ég átt þess kost og séð ýmis þjóðþrifamál verða að veruleika.

Það er öflugur hópur fólks sem setið hefur í undirbúningshópi alþjóðageðheilbrigðisdagsins. Þetta eru fulltrúar frá Hugarafli, Klúbbnum Geysi, Geðhjálp, Geðverndarfélagi Íslands og athvörfum Rauða kross Íslands: Vin og Læk, auk fulltrúa frá Landlæknisembættinu og Geðræktarverkefninu hjá Lýðheilsustöð.

Geðheilbrigðisdeginum eru enda gerð afar góð skil með fjölbreyttri dagskrá þar sem haldið er á lofti boðskap Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem minnir þjóðir heims á að tengsl milli andlegrar og líkamlegrar heilsu séu órjúfanleg og að því þurfi að huga á öllum æviskeiðum. Í þessu felst að við erum því aðeins heilbrigð að við búum við góða andlega og líkamlega heilsu. Þetta tvennt verður ekki aðskilið og því þarf að leggja rækt við hvoru tveggja.

,,Heilsuefling hefst hjá þér” var heiti samstarfsverkefnis landlæknisembættisins og heilbrigðisráðuneytisins sem hófst árið 1993 með það að markmiði að efla heilsu og vellíðan landsmanna. Ég er einstaklega hrifinn af þessu slagorði sem mér finnst í senn jákvæð hvatning og áminning til okkar allra um að fyrst og fremst berum við sjálf ábyrgð á eigin heilsu.

Við getum viðhaldið góðri heilsu eða bætt heilsu okkar með heilbrigðu og skynsamlegu líferni. Grunnur heilbrigðis okkar veltur á því að við umgöngumst líkama okkar og sál af virðingu, ábyrgð og væntumþykju. Auðvitað getur út af brugðið og vissulega höfum við ekki allt í hendi okkar. Þá eigum við gott heilbrigðiskerfi þangað sem við getum sótt leiðbeiningar, stuðning, lækningu og endurhæfingu. En fyrst og  fremst þurfum við að taka ábyrgð á eigin lífi og heilsu og varðveita heilbrigða sál í hraustum líkama.

Góðar stundir.

----------------------

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum