Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. nóvember 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Forsætisráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Ræða forsætisráðherra
á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga
10. nóvember 2005

I

Ísland er meðal samkeppnishæfustu ríkja heims. Samkvæmt nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins í Danmörku deila Ísland og Bandaríkin efsta sæti á lista landa yfir besta viðskiptaumhverfið. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart enda í samræmi við álit fjölmargra óháðra erlendra aðila sem fjallað hafa um samkeppnisstöðu þjóða heims. Ísland hefur víða skorað hátt og vakið athygli, nú síðast í öðru sæti á lista Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd sem best er að búa í þar sem ekki er einungis horft til efnahagslegra þátta heldur jafnframt félagslegra.

Það sem skiptir þó mestu máli er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist meira hér á landi á síðustu tíu árum en í flestum löndum, eða um heil 60%. Þar af skýra launahækkanir um tvo þriðju hluta en þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og lækkandi vaxtabyrði afganginn.

Þetta er auðvitað það sem hlýtur að skipta mestu máli þegar menn vega og meta forsendur kjarasamninga. Ekkert skiptir eins miklu máli fyrir velferð heimilanna á Íslandi og atvinnuástandið og ráðstöfunartekjur þeirra. Þetta sjónarmið hefur verið markmið og leiðarljós ríkisstjórnarinnar og það er óumdeilt að þetta markmið hefur náðst. Um það vitna allar hagtölur.

Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins um leiðir til þess að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu. Ég vona og trúi að það náist jákvæð niðurstaða í þessum viðræðum enda er það sameiginleg skoðun allra aðila að þannig verði aukin hagsæld og stöðugleiki best tryggður.

II

Hagvöxtur undanfarinna ára hefur ekki einungis hækkað tekjur og kaupmátt einstaklinga og fyrirtækja heldur hafa tekjur hins opinbera jafnframt aukist verulega. Þannig hafa skatttekjur sveitarfélaga hækkað um ríflega 64% að raunvirði frá árinu 1997. Afkoma sveitarfélaga hefur á þessum árum verið ásættanleg þegar á heildina er litið en því má samt ekki gleyma að rekstrargrundvöllur, tekjuöflunarmöguleikar og fjárhagsleg staða þeirra er ákaflega mismunandi. Þróun tekjustofna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúum fjölgar ört er verulega frábrugðin því sem verið hefur í ýmsum sveitarfélögum á landsbyggðinni þar sem íbúum hefur fækkað og erfiðleikar hafa verið í atvinnulífi. Möguleikar þessara sveitarfélaga til að auka tekjur og hagræða í rekstri eru takmarkaðir þar sem kröfur íbúa um þjónustu minnka ekki þótt íbúum og störfum fækki.

Í ljósi mikils aðstöðumunar sveitarfélaga varð það ein meginniðurstaða tekjustofnaviðræðna ríkis og sveitarfélaga, sem lauk í mars á þessu ári, að leggja til aðgerðir sem taka á vanda þeirra sveitarfélaga sem búa við erfiðar ytri aðstæður. Þetta verður gert með sérstöku 700 m.kr. aukaframlagi ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga næstu þrjú árin og auknum rekstrar- og söluframlögum varasjóðs húsnæðismála til sveitarfélaga vegna félagslegra íbúða. Endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðsins skiptir því sköpum þegar litið er til afkomumöguleika sveitarfélaga um landið allt.

III

Umræða um tekjustofna sveitarfélaga og tilfærslur á skattstofnum er ekki ný af nálinni og erfitt að kasta tölu á þær nefndir sem hafa fjallað um þetta efni á síðustu árum. Skýringin á fjölda tekjustofnanefnda er hins vegar einföld. Hún stafar einfaldlega af því að þessi mál eru flókin og engin töfraformúla í augsýn sem leysir þau.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að sveitarfélögum verði tryggðir tekjustofnar til að fjármagna tilfærslu verkefna. Alltaf eru til staðar óvissuatriði við slíkar kerfisbreytingar. Aðalatriðið er að það ríki traust á milli ríkis og sveitarfélaga og að menn beri gæfu til að leysa þau vandamál sem upp kunna að koma.

IV

En þetta snýst ekki bara um tilfærslu tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta snýst ekki síður um það að sveitarfélögin séu í stakk búin til að taka að sér aukin verkefni. Þar með erum við komin að kjarna málsins, sameiningu sveitarfélaga. Það gefur auga leið að því stærri og öflugri sem sveitarfélögin eru þeim mun auðveldara er fyrir þau að taka við viðbótarverkefnum frá ríkinu. Ég ber mikla virðingu fyrir viljanum til að stjórna eigin málum en hlýt að vekja athygli á því að stærri einingar eru einfaldlega betur í stakk búnar til að taka við hinum margvíslegu verkefnum sem nútímaþjóðfélag þarf að sinna.

En hvernig verða þessi sjónarmið samræmd? Samkvæmt lögum hvíla á öllum sveitarfélögum sömu skyldur til að veita íbúum þjónustu. Skiptir þá engu máli hvort sveitarfélagið telur 100 eða 100 þúsund íbúa. Gildandi lagaákvæði um 50 íbúa lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga er í engu samræmi við verkefni þeirra í dag. Sveitarfélagamörk, sem í mörgum tilvikum eiga rætur að rekja aftur á þjóðveldisöld, hafa ekki fylgt þeim miklu breytingum sem orðið hafa í samgöngu- og atvinnumálum um allt land. Hugsanlega hefur löggjafarvaldið verið of viljugt til að færa sveitarfélögunum aukin verkefni án þess að gera þá kröfu á móti að þau væru til þess bær að axla nýjar skyldur.

Auk þess eru enn of mörg grá svæði í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur að vera markmiðið að stjórnsýsla hins opinbera og ábyrgð á málaflokkum sé einföld og skýr þannig að íbúarnir viti hvert þeir eigi að leita úrlausn sinna mála. Einnig hljótum við að vilja tryggja sjálfsforræði sveitarfélaga og stjórn þeirra yfir eigin verkefnum á sem einfaldastan og bestan hátt. Til að ná þessum markmiðum þurfum við að ræða opinskátt um málefni ríkis og sveitarfélaga í heild sinni og leita sameiginlegra lausna. Hvor aðili um sig þarf að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og reiðubúinn að gefa eftir og taka við nýjum verkefnum og skyldum ef slíkt er skynsamlegt út frá hagsmunum borgaranna.

V

Nýverið stóð ríkisstjórnin, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, að átaki um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Eins og þið þekkið öll var verkefninu skipt í þrjá aðskilda þætti.

Í fyrsta lagi lagði verkefnisstjórn fram tillögur í apríl 2004 sem meðal annars fela í sér að sveitarfélögin taki að sér nánast alla nærþjónustu á sviði velferðarmála.

Í öðru lagi skilaði tekjustofnanefnd tillögum sem ég hef áður vikið að sem þessa dagana er verið að hrinda í framkvæmd með lagabreytingum.

Í þriðja lagi lagði sameiningarnefnd fram tillögur um verulega fækkun sveitarfélaga með sameiningu þeirra. Kosið var um þær tillögur þann 8. október sl. og var aðeins ein tillagan samþykkt í öllum sveitarfélögum sem tillagan varðaði. Rétt er samt að halda því til haga að í aðdraganda átaksins voru samþykktar nokkrar sameiningar sveitarfélaga og stefnir í allnokkra fækkun á kjörtímabilinu, eða úr 104 í 89. Það er engu að síður ljóst að það markmið sem að var stefnt, að ná fram grundvallarbreytingu á sveitarfélagaskipan í landinu, hefur ekki náðst. Áfram verður mikill fjöldi sveitarfélaga með mjög fáa íbúa þótt einungis lítið brot landsmanna búi þar.

Þessi niðurstaða vekur margar spurningar um hvert skuli stefna í málefnum sveitarfélaga. Ekki verður annað sagt en að vilji íbúanna hafi komið skýrt fram í sameiningarkosningunum 8. október þótt kosningaþátttaka hafi valdið vonbrigðum. Á sama hátt verður ekki annað sagt en að ríkisvaldið hafi lagt sitt af mörkum til að styðja við þetta verkefni. Í sameiginlegri viljayfirlýsingu fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og formanns stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 17. september 2004 var heitið allt að 2,4 milljarða króna stuðningi við sameiningu sveitarfélaga. Niðurstöður kosninganna bæði nú og árið 1993 gefa skýrt til kynna að almenn hvatning til sameiningar í frjálsum kosningum hefur ekki skilað miklum árangri.

VI

Bæði ríki og sveitarfélög hafa gengið út frá því að stækkun og efling sveitarfélaga væri forsenda þess að sveitarfélögin gætu tekið að sér aukin verkefni. Þótt í gildi séu nokkrir þjónustusamningar á sviði velferðarmála sem gerðir voru á grundvelli verkefnisins um reynslusveitarfélög hefur það sýnt sig að æskilegast er að ábyrgð á framkvæmd þjónustu og fjármögnun hennar sé á sömu hendi. Almenn yfirfærsla verkefna á grundvelli þjónustusamninga er því ekki góður kostur. Á meðan stærðarmunur sveitarfélaga er jafn gríðarlegur og hann er í dag er vandséð að aðrar leiðir séu færar, nema þá mögulega að t.d. stærstu sveitarfélögum í hverjum landshluta verði falið að þjónusta hin minni og fái til þess tekjustofna. Slíkt fyrirkomulag þekkist erlendis en það á sér ekki fordæmi hér á landi. Það eins og annað þarf að ræða í framhaldinu.

Ég tel afar mikilvægt að ríki og sveitarfélög fari sem fyrst vandlega yfir þá kosti sem nú eru í stöðunni. Það má ekki valda óvissu um framtíðarfyrirkomulag á þeirri þjónustu sem sveitarfélögin hafa sýnt mestan áhuga á að fá til sín með því að draga lengi ákvörðun um það hvort af flutningi geti orðið. Slík óvissa getur staðið stefnumótun innan þeirra málaflokka fyrir þrifum auk þess sem það er ósanngjarnt gagnvart notendum þjónustunnar og því góða starfsfólki sem þar vinnur að fá þessi mál ekki á hreint sem fyrst.

VII

Ég tel einnig mikilvægt að huga að áframhaldandi flutningi ýmissa þjónustuverkefna frá ríki til sveitarfélaga og stuðla þannig að bættri þjónustu við íbúa hvers sveitarfélags. Við þurfum sífellt að spyrja okkur hvernig hægt er að bæta þjónustu við íbúana. Það á að vera leiðarljós allra breytinga á þessu sviði. Hér vil ég sérstaklega nefna málefni fatlaðra, heilsugæslu, heimahjúkrun, öldrunarþjónustu og minni sjúkrahús auk svæðismiðlunar og atvinnuráðgjafar. Ég tel að sveitarfélögin séu betur í stakk búin en ríkið að sinna þessari þjónustu, þau eru í nánari tenglum við sitt heimafólk og finna betur hvaða þörfum er brýnast að sinna og hvernig þjónustunni verður best fyrir komið. Að sjálfsögðu verður þó ekki af slíkum verkefnaflutningi nema sveitarfélögin lýsi sig tilbúin til að taka við auknum verkefnum og að fundin verði leið til að færa þeim tekjustofna til að standa straum af kostnaði.

VIII

Ég vil sérstaklega nefna tvö mál sem þarf að leiða til lykta.

Í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að koma málefnum aldraðra í örugga höfn sem fyrst. Þar hafa vissulega verið stigin stór og markverð skref á undanförnum árum sem hafa stórbætt kjör aldraðra. Um það er ekki deilt. Ég tel nú tímabært að stíga næstu skref. Þar eru húsnæðismálin brýnust. Hér er verk að vinna á milli ríkis og sveitarfélaga. Að mínu mati þarf nýja hugsun varðandi uppbyggingu öldrunarþjónustu. Við þurfum að leggja megináherslu á uppbyggingu sérbýla fyrir aldraða og hverfa frá sambýlum. Ég vil beita mér fyrir öflugri samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði með það að markmiði að færa þennan mikilvæga málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Þetta er dæmigert verkefni þar sem nálægðin við íbúana, þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar, skiptir miklu máli.

Í öðru lagi vil ég nefna þá samvinnu sem tekist hefur á milli ríkis og sveitarfélaga á sviði menningarmála, umhverfismála og ferðatengdrar þjónustu. Hér nægir að nefna uppbyggingu vegna tónlistarhúss í Reykjavík, menningarhúsa á nokkrum stöðum á landinu og sérstakra samninga um einstök verkefni víða um land. Samninga sem tengjast sögu og náttúru einstakra staða og svæða. Þar má nefna landafundi, fornsögur, þjóðtrú, eldgos, jökla, víkinga, atvinnusögu, bókmenntir og margt fleira. Það þarf að halda áfram á þessari braut og gera enn betur. Um leið og við ræktum menningu okkar og sögu með þessum hætti aukum við fjölbreytni fyrir þá sem ferðast um landið. Möguleikarnir eru óteljandi. Allt snýst þetta um að vera samkeppnisfær. Ekki milli einstakra byggðarlaga hér innanlands heldur miklu fremur milli Íslands sem ákjósanlegs valkosts í ferðaþjónustu og annarra landa.

IX

Það gengur okkur margt í haginn og þegar vel gengur er rétt að nýta tækifærið til að horfa til framtíðar. Við þurfum að spyrja okkur áleitinna spurninga – hvað erum við að gera vel og á hvaða sviðum getum við bætt okkur? Hvernig getum við breytt okkar vinnubrögðum svo við getum lagt grunninn að enn betra samfélagi á komandi árum? Samstarf og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga getur skipt sköpum um hvernig til tekst í þessum efnum.

Eitt af stefnumálum í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að vinna að því að stjórnkerfið endurspegli breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Lögð hefur verið áhersla á að nýta kosti upplýsingasamfélagsins og rafrænnar stjórnsýslu til að tryggja jafnt aðgengi borgaranna að nauðsynlegum upplýsingum og þjónustu. Margt hefur áunnist í þeim efnum og í mörgum tilvikum hafa sveitarfélögin sýnt frumkvæði. Það var því vel til fundið að Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að veita framsæknum sveitarfélögum viðurkenningu fyrir heildstæðar umbætur í stjórnsýslu og einnig fyrir framsækni á ákveðnum sviðum, líkt og gert var á ráðstefnu sem sambandið stóð fyrir sl. vor. Það vekur jákvæð viðbrögð og hvetur sveitarstjórnarmenn og starfslið sveitarfélaga til dáða.

X

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að fram fari endurskoðun á skipulagi Stjórnarráðs Íslands og stofnunum ríkisins með það að markmiði að einfalda stjórnsýsluna. Einnig hefur ríkisstjórnin samþykkt að fela ráðuneytum að fara yfir löggjöf á sínu sviði til að skapa „Einfaldara Ísland“. Við erum vel menntuð, vel upplýst en jafnframt fámenn þjóð sem býður upp á þjónustu sambærilega við það sem best gerist í mun fjölmennari samfélögum. Til að tryggja sem besta nýtingu fjármuna hins opinbera er mikilvægt að leita leiða til að ná fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni í yfirstjórn og stjórnsýslu. Fjármunir hins opinbera eru skattpeningar sem við, íbúar þessa lands, greiðum til ákveðinna verkefna og þjónustu samfélaginu öllu til heilla. Það er skylda stjórnvalda að tryggja að þessir fjármunir nýtist sem best.

Verkefnið „Einfaldara Ísland“ snýst um landið í heild sinni, ekki aðeins stjórnsýslu ríkisins. Við viljum eiga góða samvinnu við sveitarfélögin um þetta verkefni og fá fulltrúa þeirra að því með beinum hætti. Forsætisráðuneytið hefur því óskað eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndina sem heldur utan um þetta mál.

Stjórnsýslan er of flókin í dag og of umfangsmikil og ekki alltaf auðvelt fyrir íbúana að átta sig á hvert þeir eiga að leita með sín mál. Ég vil þess vegna nefna annað verkefni, en þó nátengt „Einfaldara Íslandi“, sem verið er að leggja af stað með á vegum forsætisráðuneytisins sem gengur undir nafninu „Rafræn þjónustuveita“. Það felst í því að setja upp og starfrækja yfirgripsmikinn vef, Ísland.is, sem næði utan um þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Þessi vefur yrði ekki aðeins uppspretta upplýsinga heldur yrði hægt að sækja á hann alla gagnvirka þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða fyrirtækjum og einstaklingum. Verkefnisstjórn forsætisráðuneytisins um rafræna stjórnsýslu hefur verið falið að skipuleggja verkið og leita samráðs við sveitarfélög og fleiri aðila um framkvæmd þess.

XI

Ágætu sveitarstjórnarmenn

Verkefni okkar stjórnmálamanna er að leita allra leiða til að nýta þau tækifæri sem bjóðast til að Ísland verði áfram í hópi framsæknustu ríkja í heimi. Til þess að það megi takast þurfa ríki og sveitarfélög að vinna saman að úrlausn mála, sýna ábyrgð í stjórn fjármuna og leita leiða til að einfalda stjórnsýsluna og efla þjónustu við íbúana.

Ég tel að formleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á reglulegum samráðsfundum, m.a. um efnahagsmál, fyrirhugaðar lagabreytingar, kjaramál hins opinbera og önnur atriði sem snerta samskipti þessara tveggja stjórnsýslustiga, séu mikilvæg fyrir gott samstarf milli aðila. Nú liggja fyrir drög að nýjum samstarfssáttmála sem aðilar eru sammála um og verður undirritaður á næstunni. Að stofni til er nýi sáttmálinn að flestu leyti í samræmi við eldri sáttmála, sem byggir á norrænni fyrirmynd, en umfjöllun um einstaka þætti samstarfsins er mun ítarlegri. Megináhersla er lögð á að efla efnahagslegt samráð og auka formfestu í samskiptum. Reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnir nauðsyn slíks samstarfs.

Sigurður Nordal skrifaði fyrir rúmum 60 árum: „Á síðustu áratugum hafa gengið yfir svo hraðfara breytingar, að ein kynslóð reyndi meiri umskipti í högum og háttum en þrjátíu kynslóðir áður.“

Ég er ekki frá því að á þeim tíma sem síðan er liðinn hafi breytingarnar verið sambærilegar eða jafnvel enn meiri. Það er eðlilegt að við séum sein að laga okkur að breyttum heimi og tímum við þessar aðstæður. Verk okkar stjórnmálamanna bera þess merki. Hvorki ríkið né sveitarfélögin hafa náð að breyta stjórnsýslunni í takt við tímann. Við eigum að auka umsvif og vald sveitarfélaganna, minnka vald ríkisins. Um það hljótum við að geta verið sammála.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum