Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. desember 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Hin forna framtíð - setningarávarp forsætisráðherra

Ávarp forsætisráðherra : Hin forna framtíð
Þjóðminjasafninu 1. desember 2006

Heiðraða samkoma

Það er mér sönn ánægja að setja þessa merku ráðstefnu; Hin forna framtíð, sem einmitt er styrkt af Kristnihátíðarsjóði, en lokaúthlutun úr honum fór fram fyrr í dag. Þar kenndi að sjálfsögðu margra grasa eins og gert hefur þau fimm ár sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum. Óhætt er að segja að Þjóðminjasafnið hafi notið góðs af Kristnihátíðarsjóði enda hafa mörg verkefni orðið að veruleika með úthlutunum úr honum. Hlutverk sjóðsins er enda skilgreint þannig að hann eigi að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar – og kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar. Þessi lýsing á vel við um hlutverk Þjóðminjasafnsins.

Verkefni sem hlotið hafa framgang fyrir tilstilli sjóðsins eru afar athyglisverð og efni þeirra varpar margvíslegu ljósi á trúararf þjóðarinnar. Yfirlitsrit um verkefni styrkt af Kristnihátíðarsjóði sem gefið er út í tilefni þessarar ráðstefnu gefur þetta glöggt til kynna. Þá er ekki síður fjölbreytileiki í þeim áhugaverðu erindum sem flutt verða á þessari ráðstefnu í dag og á morgun. Það fer vel á því að fyrstu erindin fjalli um þá miklu andans menn Hallgrím Pétursson og Matthías Jochumsson. Fáir kirkjunnar þjónar hafa notið jafnmikillar hylli þjóðarinnar og þeir. Ekki síður verður forvitnilegt að skoða söngarf þjóðarinnar og rannsóknirnar á biskupsstólunum en fundir og niðurstöður þar vekja ætíð athygli þjóðarinnar allrar.

Fornleifarannsóknir eru langtímaverkefni og munu endast komandi kynslóðum. Það er langur vegur frá að þeim rannsóknum á sögustöðum þjóðarinnar sem nutu framlags úr Kristnihátíðarsjóði sé lokið. Í flestum tilvikum má frekar segja að þær séu rétt að hefjast.

Þjóðminjasafnið hefur veigamiklu hlutverki að gegna á þessu sviði á komandi árum. Stjórnvöld hafa viljað veg þess sem mestan eins og glæsilegar endurbætur á safninu sjálfu sýna glöggt. En það má alltaf bæta við. Það er því vel við hæfi að nota þetta tækifæri og skýra frá því að við ætlum að gera enn betur.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að á fjárlögum áranna 2006 – 2008 verði samtals 60 milljónum króna varið til forvörslu og undirbúnings sýninga á niðurstöðum fornleifarannsókna sem styrktar hafa verið úr Kristnihátíðarsjóði. Fyrir þetta fé mun Þjóðminjasafnið meðal annars kosta þrjú ársverk forvarðar, endurskipulagningu og aðstoð í geymslum, útgáfu á niðurstöðum og loks að halda veglega sýningu og ráðstefnu árið 2008 sem ég veit að áhugamenn um sögu, menningu og fornleifarannsóknir bíða spenntir eftir.

Þegar síðasta úthlutun úr Kristnihátíðarsjóði hefur nú átt sér stað er eðlilegt að meta framhaldið. Þær rannsóknir sem hófust fyrir tilstuðlan sjóðsins er langt frá því lokið. Við þurfum að meta það á næstunni hvernig staðið verður að eðlilegu framhaldi 2007 og síðar.

Á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins 1963 skrifaði Kristján Eldjárn:

“Ef til vill hefur safnið aldrei kunnað að gera nógu fullar kröfur á hendur hinu opinbera. Ef til vill væri hagur þessi hærri, ef það hefði verið harðara í sókninni. En það er ófremdarástand í menningarstofnun, ef hún þarf sífellt að vera í sóknarstöðu gegn yfirboðurum sínum í ríkisstjórn og á Alþingi. Gagnkvæmt traust og vinsamleg samvinna er reyndar hið eina, sem viðunandi getur kallast í samskiptum stofnunar og stjórnvalda. Þjóðminjasafnið leyfir sér að vona að stjórnvöld landsins muni hér eftir sem að undanförnu veita því af þeim málum, sem það kann að vilja koma fram.”

Ég vænti þess að okkur auðnist að rækta dýrmætan arf fyrrum fátækrar þjóðar í þessum vitra og hæverska anda. Þótt fortíð okkar sé á margan hátt full af svartasta skammdegi, hefur tekist með öflugu safnastarfi og rannsóknum að fylla hana af baráttu, lífi, djúpum hugsjónum og birtu. Það er ekki síst þetta starf sem gerir okkur að þjóð og því má aldrei líta á hið liðna sem grafir dauðra manna.

Það er því von mín og ríkisstjórnarinnar allrar, að við eigum eftir að sjá starfið hér í Þjóðminjasafninu blómstra í allri framtíð.

Um leið og ég segi ráðstefnuna „Hin forna framtíð“ setta, vil ég færa stjórn Kristnihátíðarsjóðs, verkefnisstjórnum og öllum þeim sem komið hafa að undirbúningi ráðstefnunnar þakkir fyrir gott og metnaðarfullt starf.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum