Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytiðJón Kristjánsson, félagsmálaráðherra 2006

Félag fólks með þroskahömlun

Ágætu fundarmenn,

Það er mér bæði ánægja og heiður að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á þessum stórfundi um stefnumál þroskahamlaðra. Dagskráin ber með sér að hér er kröftuglega að verki staðið, fjölmörg áhugaverð erindi um mikilvæg hagsmunamál. Það er ennfremur gert ráð fyrir að stjórnmálamenn fái tækifæri til að tjá sig um þau baráttumál sem fjallað verður um á fundinum. Það er lofsvert, að fólk með þroskahömlun skuli sjálft standa fyrir slíkum fundi. Það hefði sennilega þótt óhugsandi fyrir aðeins 15-20 árum. Þetta er að þakka því fólki með þroskahömlun sem tók það mikilvæga frumkvæði fyrir 13 árum að stofna með sér félag um hagsmunamál sín. Þetta var öflugt og merkt brautryðjendastarf sem sýnir okkur að það eru nýir tímar með nýjum viðhorfum. Fólk sem býr við fötlun verður sífellt virkari þátttakendur í samfélaginu, jafnt í leik sem starfi, og það er að sjálfsögðu afar jákvæð þróun.

En betur má ef duga skal og í þeim efnum vill félagsmálaráðuneytið leggja hönd á plóginn. Á næstu vikum verður kynnt ný stefna ráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fjalla um nokkur atriði í stefnunni sem snúa að högum og stöðu fatlaðs fólks. Um það er sérstakur kafli sem nefnist Staða og áhrif notenda, þ.e.a.s. þeirra sem njóta þjónustu af einhverju tagi vegna fötlunar sinnar samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Ég vil nefna eftirtalin atriði en tek fram að þau eru mun fleiri í stefnunni. Þetta eru markmið um:

  • að skýr ákvæði séu um það í lögum og reglugerðum hvar og hvernig fatlað fólk geti leitað réttar síns ef það telur á sér brotið, t.d. ef það telur sig ekki fá þá þjónustu sem það á rétt á; fólki verði ennfremur gefinn kostur á persónulegum talsmönnum til að gæta hagsmuna sinna ef sérstök þörf krefur,
  • að ákvarðanir sem varða fatlað fólk og aðstandendur þess persónulega séu ekki teknar nema í samráði við það sjálft, t.d. um staðsetningu búsetu, breytingar á sambýlisfólki ef svo ber undir og breytingar á þjónustu; þetta er í raun það sem orðað hefur verið “ekkert um okkur án okkar”.
  • að myndað verði þjónustuteymi sem fjalli um málefni þess er í hlut á þegar um flókna eða viðamikla þjónustu er að ræða; sá sem býr við fötlunina eða aðstandandi hans sé þá hluti af teyminu,
  • að fjölmiðlar séu hvattir til þess að birta efni þannig að fatlað fólk hafi greiðan aðgang að því, t.d. með auðlesnu efni og talgervlum,
  • að fatlað fólk fái hvatningu og aðstoð við að fylgjast með þjóðmálum ef það óskar þess, einnig við að láta í ljós skoðanir sínar, hvort sem er við starfsfólk þjónustustofnana eða opinberlega og við að nýta sér kosningarétt sinn,
  • að fatlað fólk fái hvatningu og aðstoð við þekkja réttindi sín og skyldur, fylgjast með og taka þátt í umræðum um slík mál,
  • að fatlað fólk fái hvatningu og aðstoð við að vera eigin talsmenn í málum sem varða það sjálft; í því sambandi verði haldin námskeið í valdeflingu,
  • að unnið verði að því að leiða í ljós og koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun og annað ofbeldi gagnvart fötluðu fólki,
  • og að ráðuneytið hafi reglulegt samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðstandenda þess um þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni.

Ágætu fundarmenn,

Ég hef hér nefnt nokkur markmið sem er að finna í drögum að nýrri stefnu ráðuneytisins. Ég tel að þau séu til þess fallin að styrkja stöðu og áhrif fatlaðs fólks í samfélaginu bæði gagnvart þeirri þjónustu sem það nýtir sér og þátttöku þess í þjóðlífinu almennt. Það er síðan tilgreint nánar í stefnunni hvernig ætlunin er að ná þessum markmiðum. Þar þurfa allir að leggjast á eitt, stjórnvöld, starfsfólk og ekki síst einstaklingarnir sjálfir. Fatlað fólk kynnir sig og málefni sín best sjálft. Einmitt þess vegna eru hagsmunasamtök á borð við Átak svo mikilvæg.

Ég vil að lokum ítreka ánægju mína með það lofsverða framtak sem þessi fundur er og óska ykkur öllum velfarnaðar.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum