Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. ágúst 2006 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ávarp forsætisráðherra Geirs H. Haarde að Hólum 13. ágúst 2006

Undirskirft að Hólum í Hjaltadal
Undirskirft að Hólum í Hjaltadal

Góðir hátíðargestir!

Við erum hér stödd á einum merkasta sögustað Norðurlands, Hólum í Hjaltadal, til að minnast 900 ára afmælis biskupsstóls og skólahalds að Hólum. Hér sat biskup Norðlendinga í tæpar sjö aldir, frá 1106 og þar til að biskupsstólinnn var lagður niður árið 1801. Allan þann tíma voru Hólar andlegur og veraldlegur höfuðstaður Norðurlands.

Á síðustu áratugum hefur markvisst verið unnið að enduruppbyggingu Hólastaðar sem þó er hvergi lokið. Ég vil geta þess hér að mér hafa verið kynntar metnaðarfullar hugmyndir framámanna í atvinnulífi, m.a. hér í Skagafirði, um byggingu menningar-, fræðslu- og ferðamannamiðstöðvar á Hólum í samstarfi atvinnulífsins og ríkisins. Þær hugmyndir eru nú til athugunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og tekst vonandi að finna þeim verðugan farveg áður en mjög langt um líður.

Þrír merkir biskupar hér á Hólum voru öðrum fremur brautryðjendur á sviði menntunar og menningar. Jón Ögmundsson stofnaði fyrsta lærða skólann á Norðurlandi, Jón Arason flutti til landsins fyrstu prentsmiðjuna og Guðbrands Þorlákssonar mun lengst verða minnst fyrir þau afrek sem hann vann í bókaútáfu og annarri menningarstarfsemi. Þar ber hæst útgáfu biblíunnar, Guðbrandsbiblíu, en Guðbrandur lét prenta og gaf út á Hólum fjölmörg önnur guðsorðarit sem áttu ríkan þátt í að festa lútherskan sið í sessi hér á landi.

Þau rit sem prentuð voru hér á landi frá upphafi prentlistar á Hólum til loka 18. aldar eru mörg hver afar fátíð. Enn fátíðara og reyndar einsdæmi er að einn einstaklingur skuli hafa náð að safna flestum þessara bóka í eitt safn. Þannig háttar til að sr. Ragnar Fjalar Lárusson, síðast prófastur og prestur við Hallgrímskirkju í Reykjavík, sem lést á síðasta ári, kom á sinni starfsævi saman einu heildstæðasta safni gamalla guðsorðabóka sem nokkru sinni hefur verið til í eigu einstaklings á Íslandi fyrr og síðar. Í safni hans eru m.a. Þorláksbiblía frá árinu 1644 sem hefur löngum verið talin fágætust hinna þriggja Hólabiblía og afar verðmæt. Einnig er þar að finna Steinsbiblíu frá árinu 1728 með afar skrautlegum ramma á titilsíðu. Í safni sr. Ragnars Fjalars eru einnig allar prentanir Passíusálma Hallgríms Péturssonar fram til 1998, 86 að tölu.

Þá eru í safninu nokkrar erlendar biblíuútgáfur frá fyrstu öldum prentlistar. Má þar nefna fyrstu útgáfuna á sænsku, Biblíu Gustafs Vasa frá 1541 og fyrstu útgáfuna á dönsku Biblíu Kristjáns III frá 1550. Vegna sérstakra tengsla Arngríms Jónssonar lærða við Hólastað má einnig nefna að hið þekkta rit hans, Crymogaea, „Hrímland”, í frumútgáfu frá 1609 er í safni sr. Ragnars.

Hið mikla bókasafn sr. Ragnars Fjalars hefur ótvírætt menningarlegt gildi fyrir Íslendinga og mikilvægt er að tryggja varðveislu þess í sem mestri heild. Það var einlægur áhugi sr. Ragnars að kjarninn úr bókasafni hans færi að Hólum til varanlegrar varðveislu. Hann hafði þá trú að með góðu skipulagi og nútíma tækni væri hægt að koma menningargildi bókanna á framfæri við almenning.

Ríkisstjórnin ákvað 9. ágúst sl. að kaupa þetta merka ritasafn og færa Hóladómkirkju að gjöf. Samningur um kaupin var undirritaður sama dag af forsætisráðherra f.h. íslenska ríkisins og frú Herdísi Helgadóttur ekkju sr. Ragnars Fjalars. Um er að ræða safn 486 guðfræðirita og ýmissa annarra merkra rita og bóka og mér er tjáð að 280 þeirra hafi verið prentaðar í Hólaprentsmiðju við upphaf prentlistar á Íslandi.

Í tilefni þess að 900 ár eru liðin frá stofnun biskupsstóls og skólahalds að Hólum er Hóladómkirkju í dag, með sérstöku gjafabréfi, fært þetta safn til ævarandi eignar og varðveislu. Gjafþegi mun tryggja geymslu og varðveislu þess í framtíðinni eins og best verður á kosið og eins það að safnið verði almenningi til sýnis eins og kostur er og aðgengilegt fræðimönnum til rannsóknar.

Þessu til staðfestu hef ég f.h. íslenska ríkisins og Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup Hólastiftis f.h. gjafþega ritað undir sérstakt skjal fyrr á þessum morgni.

Það er einlæg von mín og ríkisstjórnarinnar að bókasafn þetta verði staðnum til vegsauka og rannsóknarstarfsemi hér til framdráttar. Þannig verði áfram haldið á lofti merki þeirra frumkvöðla sem hófu Hólastað til vegs og virðingar á öldum áður. Jafnframt er minningu sr. Ragnars Fjalars og hans merka starfi við söfnun og varðveislu fornra bóka vottuð virðing.

Ég vil biðja vígslubiskup Hólastiftis, Jón Aðalstein Baldvinsson, að taka við þessari gjöf með því að taka á móti bókinni Eintal sálar sem þýdd var af Arngrími Jónssyni hinum lærða árið 1593 og prentuð í tíð Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum árið 1599.

Um þessa bók segir sr. Ragnar Fjalar: „Hér sjáið þið bók eins og hún kom út úr prentsmiðjunni og bókbandinu á Hólum, öll slegin kopar, með skildi og spennur, eins og fegurst var. Ég held að einhver biskup hafi átt þessa bók. Þetta er merkileg bók, þetta er hugvekjubók, og fullvíst má telja að séra Hallgrímur Pétursson notar þessa bók þegar hann er að yrkja Passíusálmana og hann fær hugmyndir úr efni hennar og einnig af myndunum sem prýða hana.”

Að svo búnu opna ég dyr Auðunarstofu og þar með sýninguna Hólaprentið heima, þar sem til sýnis eru nokkrar fágætar bækur úr fyrrnefndu safni sr. Ragnars Fjalars.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum