Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 2006 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Ávarp á landsþingi slysavarnaráðs

Ágætu fundarmenn.

Þá er komið að sjöunda landsþingi slysavarnaráðs, en ráðið var stofnað með lögum frá Alþingi árið 1995. Tilgangur með stofnun þess var einfaldur og skýr; að stuðla að fækkun slysa. Slysavarnaráð heyrði upphaflega beint undir heilbrigðisráðherra en landlæknisembættið fór með daglega framkvæmdastjórn ráðsins. Með stofnun Lýðheilsustöðvar árið 2003 var slysavarnaráð gert að sérfræðiráði Lýðheilsustöðvar.

Ég er ánægð með að slysavarnir aldraða skuli vera umfjöllunarefni landsþingsins nú. Málefni aldraðra eru stór málaflokkur sem þarf að taka mið af öllum þáttum í daglegri tilveru eldri borgara ef vel á að vera. Slysavarnir skipta þar miklu máli sem og önnur forvarnarstarfsemi þar sem áhersla er lögð á að viðhalda heilbrigði og líkamlegri færni og getu sem lengst. Þetta tvennt tengist mjög náið.

Við munum í dag heyra fagfólk fjalla um tölfræði slysa meðal aldraðra, greiningar á slysum, orsökum þeirra og afleiðingum. Markvissar forvarnir byggjast einmitt á nákvæmri þekkingu á þessum atriðum. Árið 2002 hófst formleg skráning í Slysaskrá Íslands með það að markmiði að samræma skráningu slysa, veita yfirlit yfir fjölda, orsakir þeirra og afleiðingar, auk þess að skapa möguleika á ítarlegum rannsóknum. Gagnsemi slysaskrárinnar hefur þegar sannað sig og gert sýnilegar upplýsingar sem eru mikils virði við skipulagningu slysavarna.

Í fyrra kom út skýrsla landlæknisembættisins Slys á öldruðum. Byggt var á upplýsingum úr slysaskránni um slys á fólki 65 ára og eldra sem leitað hafði til slysadeildar Landspítalans árið 2003. Niðurstöðurnar voru skýrar: Tíðni slysa eykst með hækkandi aldri og hún eykst meira hjá konum en körlum. Flest slys á öldruðum verða á eða við heimili þeirra, eða 66% - og fall er algengasta orsök áverka. Úttektin leiddi í ljós að hjá þriðjungi hópsins voru afleiðingarnar einhvers konar beinbrot. Í sjö prósentum tilvika var um að ræða mjaðmar- eða hryggbrot. Um 18 prósent hópsins sem leitaði til slysadeildarinnar þurfti á innlögn að halda. Alls voru 1835 manns 65 ára og eldri í hópnum sem úttektin náði til sem þýðir að um 330 þeirra hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur tekið saman upplýsingar um byltur aldraðra og ábendingar um forvarnir byggðar á gagnreyndum úrræðum. Þar kemur m.a. fram að á hverju ári verði um 30 prósent fólks eldra en 65 ára fyrir byltum og 50% þeirra sem eru yfir áttrætt. Hjá 20-30 prósentum þessa hóps eru afleiðingarnar það alvarlegar að þær draga úr hreyfigetu, skerða sjálfsbjargarmöguleika fólks og auka hættu á ótímabærum dauða.

Til að forvarnir skili sem mestum árangri þarf að greina helstu áhættuþætti. Rannsóknir hafa þegar leitt margt í ljós sem hægt er að styðjast við. Það liggur fyrir að aldraður sem hefur lent í byltu er allt að þrisvar sinnum líklegri en aðrir til að detta aftur innan árs. Áhættan eykst með hækkandi aldri. Kynferði skiptir máli, því rannsóknir sýna að meðal aldraðra eykst hættan á byltum meira með hækkandi aldri hjá konum en körlum og jafnframt eru þær mun líklegri til að beinbrotna en karlarnir. Aldraðir sem búa einir eru í áhættuhópi því afleiðingar af byltum eru að jafnaði verri meðal þeirra en hjá þeim sem búa með öðrum. Af fleiri áhættuþáttum má nefna lyfjanotkun, tiltekna sjúkdóma, andlegt ástand, næringarástand, fótavandamál, slæma sjón og hættur í umhverfinu, s.s. lélega lýsingu, hálku og óhentugan skófatnað.

Niðurstöður rannsókna bera allar að sama brunni og sýna að byltur hjá öldruðum og afleiðingar þeirra eru stórfellt heilsufarslegt vandamál sem krefst raunhæfra aðgerða. Forvarnirnar þurfa jafnt að beinast að hópnum öldruðum sem heild en einnig þarf að beina aðgerðum sérstaklega að áhættuhópum og einstaklingum innan áhættuhópa miðað við þarfir hvers og eins. Slysin eru tíðust á og við heimili aldraðra og forvarnir þurfa að taka mið af því.

Ekki er hægt að fjalla um þessi efni án þess að geta sérstaklega félagsins Beinverndar, landssamtaka áhugafólks um beinþynningu og þess mikilvæga starfs sem unnið hefur verið á vegum þess. Meðal markmiða félagsins er að vekja athygli stjórnvalda og almennings á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli og standa fyrir fræðslu meðal almennings og heilbrigðisstétta sem byggist á bestu þekkingu á hverjum tíma um beinþynningu og varnir gegn henni.

Á öldrunarsviði Landspítala - háskólasjúkrahúsi er starfrækt byltu- og beinverndarmóttaka þar sem þjónusta er veitt þeim sem orðið hafa fyrir byltum eða telja að þeir séu í slíkri hættu. Landlæknir hefur gefið út klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð beinþynningar og einnig um forvarnir og meðferð mjaðmabrota hjá öldruðum þar sem meðal annars fjallað um byltuforvarnir. Gagnreyndar rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að sé farið vandlega yfir mál þeirra sem hljóta byltur má draga úr sjúkrahúsinnlögnum, fötlun og umfram allt bæta lífsgæði. Þessu til viðbótar má benda á að byltur innan sjúkrahúsa eru mikilvægt vandamál og til að bregðast við því hafa nú verið gerðar þverfaglegar klíniskar leiðbeiningar á Landspítalanum sem verða innleiddar á næstu mánuðum.

Pálmi V. Jónsson, öldrunarlæknir hefur sagt að eina þekkta yngingarmeðalið sem til er sé líkamsrækt. Líkamsrækt fellur undir fyrsta stigs forvarnir sem eru að mestu á ábyrgð einstaklingsins sjálfs, en hlutverk heilbrigðisþjónustunnar er að upplýsa og hvetja fólk til dáða. Heilbrigðisráðuneytið, Lýðheilsustöð og Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland undirbúa nú tilraunaverkefni sem kallast ,,Hreyfing fyrir alla." Markmiðið er að fjölga skipulögðum tilboðum um markvissa hreyfingu fyrir fullorðið og eldra fólk og skapa tækifæri til að sinna þeim sem skortir hvatningu og stuðning til að hreyfa sig en hafa ekki getu eða áhuga á að nýta sér þá þjónustu sem þegar er í boði. Ég bind vonir við þetta verkefni og vona að eldri borgarar muni hafa af því gagn og ánægju.

Ég tel að hjá heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaganna séu miklir möguleikar til að sinna forvörnum meðal aldraðra, meðal annars til að draga úr byltum og afleiðingum þeirra. Heilsueflandi heimsóknir til aldraðra eru þjónusta sem ég hvet til að verði skipulögð um allt land en þannig gefst kostur á að kynnast aðstæðum fólks og meta þarfir einstaklinga fyrir þjónustu og stuðning. Ég hef ákveðið að fela heilsugæslunni að efla öldrunarþjónustu út frá sínum starfsvettvangi, m.a. með heilsueflandi heimsóknum og reglubundnum heimsóknum heimilislækna til aldraðra sem njóta heimahjúkrunar.

Í fyrrnefndri úttekt landlæknisembættisins á slysum aldraðra segir: ,,Slys eru ekki náttúrulögmál. Með forvarnarstarfi er unnt að draga úr slysum. Aðgerðir sem fækka slysum eru án efa ein hagkvæmasta og fljótvirkasta fjárfesting sem nokkurt þjóðfélag getur lagt í." Ég vil taka undir þessi orð og vona að með samstilltum kröftum allra sem að þessum málum koma og geta komið, takist að draga úr slysatíðni einstaklingum og samfélaginu öllu til hagsbóta.

Ég lýsi sjöunda landsþing slysavarnaráðs sett.

 

(Talað orð gildi)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum