Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2006 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ármótagrein í Morgunblaðið 2006

VIÐ ÁRAMÓT

Í nýrri bók Árna Þórarinssonar og Páls Kristins Pálssonar, Farþeganum,er vikið að því er spekingar í heimi stjórnmála og fjölmiðla fjalla um áramótin og "reyna að horfa um öxl og fram á við án þess að fara úr andlega hálsliðnum." Engum er hollt að fara úr lið, hvað þá hálslið, en allir hafa gott af því að meta hvað áunnist hefur og setja sér ný markmið. Íslenska þjóðin má sem heild vel una við þann árangur sem hún náði á árinu 2006 og allt bendir til þess að komandi ár verði einnig hagfellt. Efnahagslegur styrkur þjóðarinnar heldur áfram að aukast þótt vissulega hafi ekki öllum vandamálum verið rutt úr vegi. Árið 2007 bíður okkar með nýjum viðfangsefnum, jafnt í einkalífi hvers og eins sem í lífi þjóðarinnar. Úrslit þingkosninga í maí munu ráða miklu um framhaldið.

*****

Þau tíðindi urðu snemma sumars að Halldór Ásgrímsson þáverandi forsætisráðherra ákvað að draga sig út úr stjórnmálum og nýtt ráðuneyti undir minni forystu var myndað. Halldór helgaði sig stjórnmálum í meira en 30 ár og átti drjúgan þátt í þeim miklu breytingum sem urðu á íslensku þjóðfélagi á því tímabili. Hann tekur nú um áramótin við starfi aðalframkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Að því starfi er hann sérstaklega vel kominn eftir langan feril í hinu opinbera norræna samstarfi. Honum og Sigurjónu, konu hans, fylgja hlýjar kveðjur er þau halda nú á nýjan vettvang.

*****

Bæjar- og sveitarstjórnarkosningar fóru fram í maí sl. og voru úrslit víða athyglisverð. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er markverðast að hann náði á ný forystu í borgarstjórn Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hefur farið afar vel af stað í störfum sínum og býr að mikilli reynslu í borgarmálum og áralangri forystu meðal sveitarstjórnarmanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig töluverðu fylgi þegar litið er til landsins alls og fékk víða hreinan meirihluta. Öflugir forystumenn eru komnir fram víða í sveitarstjórnum sem sumir eiga eflaust eftir að hasla sér völl í landsmálum undir merkjum Sjálfstæðisflokksins síðar meir. Prófkjör flokksins nú í haust bera með sér að veruleg endurnýjun verður í þingliði sjálfstæðismanna í vor og ekki er ólíklegt að 8 - 10 nýir þingmenn taki sæti í þingflokknum.

*****

Nú hillir undir lok framkvæmda á Kárahnjúkasvæðinu og er gert ráð fyrir að virkjunin mikla hefji raforkuframleiðslu á næsta vori þegar álverið við Reyðarfjörð verður einnig tilbúið. Hönnuðir og framkvæmdaaðilar hafa unnið þrekvirki og leyst marga þraut við gerð þessara flóknu mannvirkja. Er vissulega ánægjulegt hve íslenskir verkfræðingar, jarðfræðingar, verktakar og fleiri hafa gott vald á þeirri tækni og þekkingu sem nauðsynleg er við risaframkvæmdir af þessu tagi. Þessar framkvæmdir hafa haft mikil og jákvæð áhrif á mannlíf og atvinnuástand á Austurlandi og mun svo verða um langa framtíð. Þær ýttu einnig undir hagvöxt í landinu öllu en neikvæð áhrif á vinnumarkað urðu minni en ætlað var vegna þess hve margir erlendir starfsmenn komu tímabundið til landsins til starfa við þessar framkvæmdir. Útflutningur frá álverinu mun skjótt vega upp á móti þeim neikvæðu áhrifum á viðskiptajöfnuð sem innflutningur vegna framkvæmdanna hefur haft síðustu ár.

Þótt ákvarðanaferlið í tengslum við álverið á Reyðarfirði og virkjunina við Kárahnjúka hafi allt verið lögum samkvæmt hafa deilur um þetta mál verið miklar. Þýðingarlaust er að halda þeim áfram nú - mannvirkin eru risin - en mikilvægt að draga af þeim lærdóm fyrir framtíðina. Ekki eru líkur á að önnur stórvirkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun rísi hér á landi næstu árin og kannski aldrei. Á hinn bóginn væri glapræði að segja þar með skilið við þá stefnu að nýta orkulindir þjóðarinnar til að bæta lífskjörin í landinu. Við blasir til dæmis að skynsamlegt er að nýta kraftinn í Þjórsá og virkja neðri hluta árinnar sem og þá orku sem víða er að finna í iðrum jarðar. Spennandi möguleikar eru framundan á því sviði með svokölluðum djúpborunum, þótt tilraunir með slíkar boranir muni taka allmörg ár. Við þurfum að finna hinn gullna meðalveg milli þess að nýta auðlindirnar landsmönnum til hagsbóta og hins að gera þeim kleift að njóta náttúru landsins og þeirra gæða sem í óspilltu umhverfi felast. Slíkt er að sjálfsögðu hægt ef allir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til málamiðlunar.

*****

Í marsmánuði urðu þau tíðindi að Bandaríkjastjórn tilkynnti Íslendingum að hún hygðist hverfa með herlið sitt héðan fyrir lok september en myndi þó standa í einu og öllu við skuldbindingar sínar um að verja landið samkvæmt samningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Í honum er ekki kveðið á um að hér á landi skuli vera tiltekinn búnaður eða herlið. Þessi ákvörðun olli vonbrigðum en var þó ekki óvænt að öllu leyti. Allt frá lokum kalda stríðsins upp úr 1990 hafa Bandaríkjamenn skipulega dregið úr viðbúnaði hér á landi og varnirnar verið lagaðar að gjörbreyttu ástandi og ógnarmati í okkar heimshluta.

Við þessar breyttu aðstæður voru tveir kostir fyrir hendi. Annar var að treysta samstarfið við Bandaríkjamenn í sessi á nýjum forsendum og byggja ofan á gamla varnarsamninginn, ef svo mætti segja. Hinn var að segja alveg skilið við Bandaríkin, rifta samningnum frá 1951, og freista þess að tryggja varnir landsins með einhverjum allt öðrum hætti.

Það var mat mitt sem þáverandi utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar að engir raunhæfir kostir aðrir en áframhaldandi samstarf við Bandaríkin væru fyrir hendi. Þvert á móti gæti uppsögn varnarsamningsins haft margvíslega óvissu og hættur í för með sér fyrir öryggi þjóðarinnar, sem ríkisstjórninni ber skylda til að tryggja. Fyrri leiðin varð því fyrir valinu. Ég tel að vel hafi tekist til um hið nýja samkomulag Íslands og Bandaríkjanna, sem undirritað var í Washington í október, þar sem enn var ítrekað og staðfest að Bandaríkin ábyrgjast varnir Íslands þótt þeir hafi hér ekki lengur fasta viðveru. Kemur sú afdráttarlausa skuldbinding til viðbótar því öryggisneti sem felst í aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Ekki er vafi á því að margar aðildarþjóðir bandalagsins vildu vera í okkar sporum og hafa samning á borð við þennan við voldugasta ríki heims.

Í framhaldinu hefur verið unnið að því að treysta samstarf okkar við nágrannaþjóðirnar á Norður-Atlantshafi, ekki síst í leitar- og björgunarmálum, en einnig um önnur atriði sem lúta að því að tryggja öryggi og eftirlit á friðartímum. Eru slíkar viðræður þegar hafnar við Norðmenn og Dani og fyrirhugaðar við Breta og Kanadamenn. Samhliða þessu hefur verið ákveðið að stórefla Landhelgisgæsluna með auknum þyrlukosti, nýju varðskipi og nýrri flugvél.

Brotthvarf varnarliðsins hefur einnig margvísleg bein áhrif hér innan lands. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 26. september sl. er farið yfir mörg atriði sem til úrvinnslu eru. Stærstu tímamótin í þessu sambandi eru þó e.t.v. þau að framvegis verða Íslendingar að gera ráð fyrir að vera sjálfir virkari þátttakendur í eigin öryggismálum og verja til þeirra mun meiri fjármunum en áður. Það er ekki lengur hægt að ætla skattgreiðendum í öðrum löndum að taka á sig allan kostnað af vörnum landsins.

*****

Íslenskt efnahagslíf hefur blómstrað á undanförnum árum. Það er fyrst og fremst að þakka þeirri efnahagsstefnu sem hér hefur verið fylgt allt frá árinu 1991. Rauði þráðurinn í henni hefur verið að auka frjálsræði til athafna í okkar efnahags- og atvinnulífi og treysta með því undirstöður hagvaxtar og betri lífskjara. Hluti þeirrar stefnu var að tryggja aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sem kostaði mjög hörð pólitísk átök. Senn eru liðin 15 ár frá því þetta mál var til meðferðar á Alþingi og tímabært fyrir háskólafólk að rifja upp og rannsaka deilurnar um það. Ætla má að ýmsir spádómar sem þá voru hafðir uppi veki furðu í dag sem og sú breyting á afstöðu sem síðan hefur orðið hjá einstaka mönnum og flokkum.

Stundum er því haldið fram að þessi stefna hafi leitt til meiri ójöfnuðar sem fari sífellt vaxandi. Það er rétt að ýmsir athafnamenn hafa efnast mjög, einkum á alþjóðlegum viðskiptum án þess að taka þann hagnað frá öðrum landsmönnum. Sé hins vegar einvörðungu litið á atvinnutekjur og þróun þeirra skoðuð frá árinu 1993 kemur í ljós að tekjujöfnuður hefur lítið breyst. Það þýðir að aukning atvinnutekna á þessu tímabili hefur skilað sér nokkurn veginn jafnt til allra tekjuhópa. Það er ánægjulegt þótt fyrirfram sé ekki við því að búast að slík hlutföll séu óbreytanleg yfir lengra tímabil.

Áherslubreytingar í hagstjórn hafa gert okkur kleift að njóta þeirra tækifæra sem aukið frjálsræði í milliríkjaviðskiptum, alþjóðavæðingin og ekki síst hugbúnaðar- og fjarskiptabyltingin hefur skapað. Íslendingar eru orðnir virkir þátttakendur í hinu opna alþjóðlega hagkerfi. Íslenskir fjárfestar nýta sér viðskiptatækifæri í öðrum löndum og erlendir aðilar gera slíkt hið sama hér á landi. Eðlilegur fylgifiskur þessarar þróunar er að erlendir fjárfestar, matsfyrirtæki og lánastofnanir fylgjast grannt með þróun mála hér á landi.

Ég starfaði sem ungur hagfræðingur við erlendar lántökur í Seðlabanka Íslands á árunum í kringum 1980. Efnahagsástandið var annað þá sem og það regluverk sem gilti um erlendu lánamálin. Erlent lánsfé var gjarnan notað beint til að fjármagna halla á ríkissjóði svo dapurlegt sem það nú var. Þá þótti afar langsótt að stóru lánshæfismatsfyrirtækin, Standard and Poor's (S&P) og Moody's, myndu leggja mat á lánshæfi íslenska ríkisins, hvað þá að slíkt mat gæti orðið einhvers staðar í námunda við einkunn stærri og auðugri ríkja. Í dag þykir ekki bara eðlilegt að þessi fyrirtæki og fleiri gefi íslenskum aðilum einkunnir heldur finnst okkur sjálfsagt að ríkissjóður Íslands sé í efstu þrepum gæðamatsins.

Ríkissjóður hefur frá árinu 2002 verið í efsta flokki hjá Moody's með einkunnina AAA. Hjá S&P hefur matið alltaf verið lægra. Árið 2005 hækkaði fyrirtækið matið úr A+ í AA- án þess að það vekti sérstök viðbrögð í fjölmiðlum hér eða á mörkuðum. Fyrir fáum dögum lækkaði S&P mat sitt aftur í A+ og lýsti vissum áhyggjum með horfur í efnahagsmálum, sérstaklega vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á fjárlagafrumvarpinu í meðförum Alþingis. Moody's, sem byggir á sömu upplýsingum og hefur á að skipa starfsfólki með meiri reynslu hér á landi, hélt sig aftur á móti við AAA, meðal annars með vísan til þess hve staða ríkisfjármála væri firnasterk hér á landi og skuldir ríkissjóðs litlar.

Matsfyrirtækin eru sjálfstæð og óháð ríkisstjórnum og fyrirtækjum. Þess vegna njóta þau trausts og matseinkunnir þeirra eru vegvísar og greiða fyrir lánsviðskiptum um allan heim. Ekki tjáir að deila við þau um slíkar einkunnir þótt eðli málsins samkvæmt geti verið mismunandi skoðanir á þeim ályktunum sem fyrirtækin draga af fyrirliggjandi upplýsingum.

*****

Það hefur verið eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja gott atvinnuástand og betri lífskjör. Óhætt er að segja að það hafi tekist vel, því kaupmáttur heimilanna hefur aukist um u.þ.b. 60% á rúmum áratug og atvinnuleysi mælist vart. Hagstjórn hér á landi er hins vegar ekki alltaf dans á rósum þótt mikið hafi áunnist með skipulagsbreytingum. Þannig hefur verðbólga t.d. verið nokkuð umfram markmið Seðlabankans undanfarin misseri. Vegna stærðargráðu stóriðjuframkvæmda var fyrirséð að þrýstingur á verðlag myndi aukast tímabundið sem og viðskiptahalli. Af hálfu stjórnvalda var brugðist við fyrirfram með stórauknu aðhaldi í ríkisfjármálum, m.a. frestun framkvæmda. Einnig var fyrirsjáanlegt að Seðlabankinn þyrfti að hækka vexti.

Viðbrögð bankanna við þeim breytingum sem gerðar voru á fyrirkomulagi íbúðalána árið 2004 voru hins vegar meiri en búist var við þar sem þeir opnuðu ekki aðeins fyrir ný íbúðalán á stórbættum kjörum heldur einnig almenn neyslulán. Þetta setti strik í reikninginn í hagstjórninni. Neikvæð og stundum ómálefnaleg greining nokkurra erlendra aðila á fyrri hluta þessa árs skapaði auk þess óróa á gjaldeyrismarkaði sem leiddi til lækkunar á gengi krónunnar með tilheyrandi áhrifum á verðlag.

Nú bendir flest til þess að við séum að komast yfir þennan hjalla. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var gripið til aðhaldsaðgerða fyrr á árinu, m.a. var nýjum framkvæmdum ríkisins frestað um nokkurra mánaða skeið. Jafnframt var gripið til aðgerða í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði og framlengingu kjarasamninga út árið 2007. Alþingi samþykkti nauðsynlegar lagabreytingar í því sambandi nú í desember og voru skattleysismörk m.a. hækkuð og barnabætur lögfestar til 18 ára aldurs.

Þessar aðgerðir hafa haft jákvæð áhrif og er nú smám saman að draga úr innlendri eftirspurn. Umsvif á fasteignamarkaði hafa minnkað og fasteignaverð er orðið stöðugra. Þá eru neysluútgjöld heimilanna sömuleiðis að minnka eins og sést m.a. af minni bílainnflutningi. Verðhækkanir undanfarna þrjá mánuði eru litlar sem engar og almennt talið að verðbólgan, miðað við hefðbundinn mælikvarða, verði í samræmi við markmið Seðlabankans fyrir mitt ár 2007. Viðskiptahalli mun jafnframt minnka umtalsvert og hagvöxtur verða tiltölulega hægur 2007 en taka aftur við sér 2008.

Undanfarinn áratug hefur afkoma ríkissjóðs gjörbreyst og snúist úr halla í góðan afgang. Gríðarmikill afgangur varð á ríkissjóði 2005, 54 milljarðar án tekna af sölu Símans, og horfur á tugmilljarða afgangi 2006. Fjárlög árins 2007 gera ráð fyrir 9 milljarða afgangi. Þessi staða hefur gefið færi á að greiða niður skuldir ríkissjóðs í stórum stíl. Árið 1995 námu hreinar skuldir ríkissjóðs meira en þriðjungi af landsframleiðslu en í lok árs 2006 eru þær nánast horfnar og allt stefnir í að hrein eignastaða verði orðin jákvæð þegar á næsta ári. Þetta eru ánægjuleg tíðindi enda sparast gífurlegur vaxtakostnaður og mun gæfulegra að nota aukið svigrúm í ríkisfjármálum til þess að lækka skatta eða auka framlög til annarra brýnna þarfa eins og mennta-, samgöngu- og velferðarmála.

 

*****

Það er í fullu samræmi við þessa stöðu að Alþingi lögfesti nýverið tillögur ríkisstjórnarinnar um að lækka stórlega skattlagningu á matvæli. Þessar aðgerðir koma til framkvæmda 1. mars nk. Þær fela m.a. í sér lækkun virðisaukaskatts á matvæli um helming, niðurfellingu vörugjalda og mikla lækkun tolla af erlendum búvörum. Þessar aðgerðir munu leiða til verulegrar lækkunar matvælaverðs, bæði í verslunum og á veitingahúsum. Samhliða þessu lækkar einnig virðisaukaskattur af bókum, blöðum og tímaritum, hljómdiskum, húshitunarkostnaði, gistingu o.fl. Í heild leiðir þetta til verulegrar lækkunar á neysluverðsvísitölu og enn frekari aukningar á kaupmætti heimilanna.

Um áramótin lækkar tekjuskattur manna um eitt prósentustig auk þess sem persónuafsláttur hækkar myndarlega þannig að skattleysismörk einhleypings verða ríflega 90 þúsund krónur á mánuði, en þau voru 79 þúsund 2006. Ákveðið var eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins að auka persónuafslátt meira en áður var ráðgert og lækka tekjuskatt þess í stað um eitt prósentustig í stað tveggja. Viðbótarlækkun tekjuskatts um eitt prósentustig bíður því næsta kjörtímabils og vonandi verður svigrúm til að gera enn betur.

Þessar aðgerðir í skattamálum eru lokaáfangi þeirra skattalækkana sem ríkisstjórnin gaf fyrirheit um í stjórnarsáttmála sínum árið 2003 og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar það ár. Hefur tekjuskattur nú lækkað um þrjú prósentustig frá árinu 2005, sérstakur tekjuskattur (stundum ranglega nefndur hátekjuskattur) verið felldur niður, virðisaukaskattur á helstu nauðsynjum lækkaður verið um helming, eignarskattur einstaklinga og fyrirtækja verið felldur niður og erfðafjárskattur stórlækkaður. Í heild sinni eru þetta stórtækustu lækkanir á sköttum sem hrint hefur verið í framkvæmd hér á landi. Þar með er þó ekki hægt að fullyrða að tekjur ríkissjóðs lækki að sama skapi. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti fyrirtækja hafa t.d. stóraukist eftir að skatthlutfallið var lækkað úr 30% í 18% árið 2001.

Það hefur verið athyglisvert í þessu máli að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar, sem tapað hefur öllum trúverðugleika. Hún hefur fullyrt bæði að skattalækkanir séu efnahagslegt glapræði vegna þess að þær séu þensluhvetjandi og einnig að skattbyrði hafi aukist mikið þrátt fyrir þessar lækkanir, sem hlýtur að draga úr þenslu.

Það er gamalt og ómerkilegt bragð í stjórnmálum að bera saman ósambærilega hluti og kasta þannig ryki í augu fólks. Rétti samanburðurinn, þegar rætt er um skattalækkanir, er hve mikið menn greiða eftir breytingar á skattkerfinu miðað við það sem verið hefði að óbreyttu kerfi. Þá sést hvað menn hefðu greitt að óbreyttu og hvað menn greiða í hinu nýja kerfi, hvort tveggja að teknu tilliti til breytinga á tekjum. Slíkur samanburður leiðir í ljós að skattalækkanir undanfarinna ára hafa svo sannarlega ratað til venjulegs vinnandi fólks eins og þeim var ætlað.

*****

Mikilvægt samkomulag náðist í sumar við fulltrúa Landssambands eldri borgara um leiðir til að bæta kjör þeirra. Það birtist í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra og ríkisstjórnarinnar þar sem er meðal annars kveðið á um verulega hækkun lífeyrisgreiðslna ellilífeyrisþega, einföldun bótakerfisins með sameiningu bótaflokka, upptöku frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega auk þess sem dregið verður úr skerðingu bóta vegna annarra tekna bótaþega og maka þeirra. Þá verða framlög stóraukin til uppbyggingar hjúkrunarheimila og heimaþjónustu og áhersla lögð á að auka framboð þjónustu- og öryggisíbúða. Alþingi afgreiddi tillögur í þessum efnum fyrir jólin og mun stór hluti þessara breytinga koma til framkvæmda nú um áramótin. Verða þá þegar verulegar úrbætur hjá stórum hópi fólks.

Lífeyrisgreiðslur til öryrkja munu hækka til samræmis við greiðslur ellilífeyris. Málefni öryrkja hafa einnig verið til sérstakrar athugunar að undanförnu þar sem verið er að skoða leiðir til að efla starfs- og endurhæfingarúrræði til að gera öryrkjum kleift að nýta starfsgetu sína sem mest. Liður í þeirri athugun er að endurskoða gildandi örorkumat þannig að það taki meira mið af starfsgetu hvers og eins. Jafnframt er stefnt að því að gera kerfið einfaldara og skilvirkara og tryggja betri yfirsýn yfir þau úrræði sem eru í boði hverju sinni.

Þær ráðstafanir sem ákveðnar hafa verið í þessum efnum munu kosta ríkissjóð um 12 milljarða króna á ári.

*****

Atorka og einbeittur vilji til að ná sífellt lengra hefur einkennt Íslendinga um langan aldur. Ungt fólk hefur löngum sótt háskólamenntun til grannlandanna báðum megin hafsins, bæði grunnmenntun en ekki síst rannsókna- og vísindamenntun. Enginn vafi leikur á mikilvægi þessa í þróun íslensks þjóðfélags á öldinni sem leið.

Í nýlegri úttekt sérfræðinga OECD á æðri menntun í aðildarlöndunum er á það bent að Íslendingar hafi verið á undan öðrum þjóðum til að senda nema til háskólanáms erlendis og þess vegna sé alþjóðavæðingin þeim ekki framandi. Skýrsluhöfundar staðfesta að sú stefna sem mótuð var með lögum um háskóla 1997 hafi borið árangur og leitt til öflugrar háskólastarfsemi. Farið er lofsamlegum orðum um námslánakerfið á Íslandi og hvernig það hefur stuðlað að jafnrétti til náms. Íslenska háskólakerfið er talið vera afar sveigjanlegt og áhersla stjórnvalda á samkeppni milli háskóla hafi leitt til þess að Ísland er nú í fjórða sæti innan OECD hvað varðar sókn í háskólamenntun.

Íslendingar geta verið stoltir af þessari umsögn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu í málefnum mennta og vísinda undanfarið 16 ár. Á þeim tíma hefur háskóla- og rannsóknastarfi fleygt fram og á undanförnum 10 árum hafa útgjöld til þessa málaflokks nær tvöfaldast að raungildi. Alþjóðlegt samstarf um rannsóknir og þróun hefur vaxið hröðum skrefum og Íslendingar eru orðnir virkir þátttakendur í hnattvæðingu á þessum sviðum og fullgildir veitendur í einstökum þáttum vísinda, tækni og fræða en voru aðallega þiggjendur áður fyrr.

*****

Ísland er land tækifæranna í þessum efnum sem mörgum öðrum. Vísinda- og athafnamanna bíða mörg ónýtt tækifæri og sama er að segja um aðra landsmenn. Ég vona að við berum gæfu til að nýta tækifærin allri þjóðinni til framdráttar. Í kosningum í vor greiðum við atkvæði um hvert framhaldið verður í landsstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn býður fram áframhaldandi forystu sína. Ég hlakka til drengilegrar kosningabaráttu og er þess albúinn að axla mína ábyrgð áfram.

Ég flyt lesendum Morgunblaðsins sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gæfu og velgengni á komandi ári.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum