Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. apríl 2007 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ræða forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 17. apríl 2007

Forsætisráðherra hélt ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífins
Forsætisráðherra hélt ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífins

Fundarstjóri. Ágætu fundarmenn.

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag. Það er ekki á hverjum degi sem stjórnmálamenn eru beðnir um að skyggnast heil 43 ár fram í tímann eins og hér er gert. Miklu algengara er að maður sé krafinn sagna um atburði líðandi stundar eða fortíðarinnar. Það er líka áhugavert að skoða niðurstöður þeirrar könnunar sem hér liggur fyrir og nánar verður kynnt og rædd hér á eftir. Það er mikilvægt að horfa til þess sem framtíðin kann að bera í skauti sér fyrir okkur sem þjóð. Það er jú framtíðin sem skiptir máli. Um hana hljóta okkar mikilvægustu verk að snúast, jafnt okkar stjórnmálamanna sem annarra. Að búa svo í haginn fyrir afkomendur okkar að þeir búi við enn betri kjör en við gerum í dag.

Hvernig verður hér umhorfs eftir 43 ár? Um leið og ég fjalla um ýmis þau atriði sem hér koma til álita langar mig til þess að horfa til baka um nákvæmlega sama árafjölda og skoða hver staðan var hjá okkur á árinu 1964 og huga að því hvað hefur breyst frá þeim tíma.

Lítum fyrst á mannfjöldann. Árið 1964 voru Íslendingar tæplega 190 þúsund talsins. Um síðustu mánaðamót vorum við tæplega 310 þúsund. Þetta jafngildir tæplega 3 þúsund manna meðalfjölgun á ári allan þennan tíma sem er mun meiri fjölgun en víðast hvar í okkar helstu nágrannalöndum. Ef þróunin á næstu 43 árum yrði eins hröð og hún var á síðustu 43 árum stefndi hér í rúmlega 500 þúsund manna samfélag árið 2050. Hins vegar virðast flestir búast við mun minni fjölgun og að íbúafjöldinn verði nær 400 þúsund. Sú tala er líka í samræmi við fólksfjöldaspá ykkar samtaka sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hér liggur frammi.

Niðurstöður úr tveimur öðrum spurningum könnunarinnar varpa nokkru ljósi á þessar fólksfjöldaspár. Annar vegar er gert ráð fyrir að fæðingum fækki nokkuð frá því sem nú er, úr 2 börnum á hverja konu í 1,8 börn. Á móti vegur að meðalævin er talin munu halda áfram að lengjast, úr 81 ári nú í 85 ár árið 2050. Árið 1964 er aftur fróðlegt til samanburðar en þá fæddi hver kona tæplega 4 börn og meðalævin var rúm 73 ár.

Nú er það svo að fólksfjölgun verður að teljast af hinu góða bæði í sjálfu sér og eins og ekki síður þegar horft er til þeirra þjóðfélagslegu breytinga sem almennt er spáð á næstu áratugum, hér á landi sem annars staðar, um að öldruðum muni fjölga hlutfallslega meira en fólki á vinnualdri. Þessar breytingar munu, að öðru óbreyttu, leiða til þess að sífellt færri einstaklingar á vinnualdri standa undir þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem slíkri þróun fylgir með auknum lífeyrisgreiðslum, sjúkrakostnaði o.fl. sem eru fylgifiskar efri áranna.

Eins og yfirskrift þessa fundar gefur til kynna er staðan hjá okkur talin verða sú árið 2050 að hlutföllin verði tveir á móti einum, þ.e. tveir einstaklingar á vinnualdri á móti einum einstaklingi á ellilífeyrisaldri. Í dag eru hlutföllin einn á móti fimm. Árið 1964 var hlutfallið reyndar ekki svo ýkja frábrugðið því sem það er í dag, eða einn á móti sex, sem skýrist aðallega af því að á þeim tíma var fólk á vinnualdri hlutfallslega færra en í dag. Íslenska þjóðin er tiltölulega ung miðað við flestar, aðrar þjóðir sem þýðir að þær framtíðarhorfur sem við okkur blasa með fjölgun ellilífeyrisþega koma nokkrum áratugum síðar hjá okkur en hjá öðrum þjóðum.

En hvaða þýðingu hefur þessi framtíðarþróun fyrir okkar þjóðfélag? Verðum við í vondum málum eins og stundum er sagt? Ég vil ekki fallast á það og tel að við höfum allar forsendur og burði til að mæta þeim áskorunum sem í þessu felast. Við höfum nú þegar tekið mikilvæg skref í þessa átt með ýmsum skipulagsbreytingum á undanförnum árum og áratugum.

Fyrir það fyrsta búum við svo vel - þökk sé framsýni ykkar samtaka og verkalýðshreyfingarinnar - að hafa byggt upp afar öflugt og sjálfbært lífeyrissjóðakerfi. Þetta kerfi hefur byggst upp á síðustu þremur-fjórum áratugum við hliðina á almannatryggingakerfinu og vægi þess í lífeyrisgreiðslum landsmanna hefur sífellt farið vaxandi. Sú þróun mun halda áfram og þeir sem fara á ellilífeyri árið 2050 hafa væntanlega greitt alla sína starfsævi í lífeyrissjóð og þannig byggt upp umtalsverð réttindi til lífeyrisgreiðslna.

Það er til marks um styrk íslenska lífeyrissjóðakerfisins að samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna nema samkvæmt síðustu tölum meira en 130% af landsframleiðslu. Olíusjóðurinn sem Norðmenn hafa byggt upp með tekjum af olíuvinnslu sinni til að mæta auknum útgjöldum vegna fjölgunar ellilífeyrisþega á næstu áratugum bliknar í þessum samanburði.

Í öðru lagi vil ég nefna lögfestingu á frjálsa lífeyrissparnaðinum sem ég beitti mér fyrir sem fjármálaráðherra á árinu 1998. Þessari sparnaðarleið hefur verið afar vel tekið, af jafnt yngra sem eldra fólki, enda býður hún upp á sambærilega skattalega ívilnun og gildir um almenna lífeyrissjóðakerfið þar sem iðgjöld eru undanþegin tekjuskatti. Þótt það séu vissulega aðrir sparnaðarkostir í boði hefur það sýnt sig að fólk vill hafa þessa hluti á hreinu og geta gengið að þessum sparnaði vísum þegar þar að kemur. Síðustu tölur sem ég hef séð sýna að það eru hátt í eitt hundrað þúsund einstaklingar sem notfæra sér þessa sparnaðarleið og heildarfjárhæðin sem liggur í viðkomandi sjóðum nemur um 190 milljörðum króna. Þessi sparnaður á því eftir að verða veruleg búbót fyrir ellilífeyrisþega framtíðarinnar.

Ég vil nefna þriðja atriðið til sögunnar sem er það að uppsveiflan og velgengnin í íslensku efnahagslífi að undanförnu, sem meðal annars birtist í miklum hagvexti og gríðarlegri uppbyggingu íslenskra fyrirtækja, innan lands og utan, hefur skapað miklar tekjur og stuðlað að stórauknum kaupmætti heimilanna. Þetta þýðir að heimilin hafa nú meira fé á milli handanna en nokkru sinni fyrr og því fé hefur meðal annars verið beint í ýmis sparnaðarform eins og kaup á verðbréfum og hlutabréfum. Enda hefur almenn hlutabréfaeign hér á landi margfaldast á undanförnum árum sem aftur hefur skilað eigendunum miklum fjármagnstekjum. Ég er sannfærður um að þessi þáttur muni verða sífellt mikilvægari tekjustofn hjá ellilífeyrisþegum á næstu árum og áratugum. Hann vegur nú þegar nokkuð þungt og er farinn að nálgast þriðjung af heildartekjum ellilífeyrisþega og á vafalaust eftir að vaxa hratt á komandi árum.

Öll þessi atriði munu styrkja fjárhagslega stöðu aldraðra á komandi árum og um leið draga úr þörf fyrir meiri háttar útgjaldaaukningu úr opinberum sjóðum. Ég tel þess vegna að ef okkur auðnast að halda áfram á þeirri framfarabraut sem við höfum svo sannarlega verið á undanfarinn einn og hálfan áratug að við munum ekki standa frammi fyrir sambærilegum vandamálum vegna hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra og okkar nágrannaþjóðir.

En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum að láta þetta gerast. Undirstaða allra framfara er aukin verðmætasköpun í efnahagslífinu, öðru nafni hagvöxtur. Á síðustu 43 árum og fram til þessa dags hefur verðmætasköpun landsins, sjálf þjóðarkakan, nær fimmfaldast að raungildi. Á þessu ári er talið að heildarandvirði landsframleiðslunnar muni nema um 1.200 milljörðum króna en fyrir 43 árum nam landsframleiðslan 250 milljörðum króna á sambærilegu verðlagi. Ef við deilum þessu niður á hvern íbúa jafngildir þetta því að hlutdeild hvers íbúa í þjóðarkökunni hefur þrefaldast að raungildi. Þessi þróun endurspeglar einnig sambærilega aukningu kaupmáttar heimilanna. Þetta er ekki svo lítið sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að á þessu tímabili hefur þjóðin gengið í gegnum amk. þrjú erfið samdráttarskeið.

Viðfangsefni númer eitt er því að tryggja áframhaldandi hagvöxt hér á landi um ókomna framtíð. Þetta verkefni er þeim brýnna þar sem við horfum fram á að þjóðinni muni halda áfram að fjölga, gagnstætt því sem ýmsar aðrar þjóðir horfast í augu við.

Hvernig tryggjum við aukinn hagvöxt? Jú, ég tel að það gerum við meðal annars með því að halda áfram á þeirri braut að hlúa vel að atvinnulífinu í landinu með því að gera góð rekstrarskilyrði enn betri, með lægri sköttum, lágri verðbólgu, auknu frjálsræði í viðskiptum og heilbrigðu efnahagsumhverfi almennt. En það þarf meira að koma til, nefnilega vel menntað og hæft starfsfólk. Það er ekki síður mikilvægt að búa vel að einstaklingunum, fjölskyldunum og heimilunum í landinu. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut að lækka skatta einstaklinga og tryggja öllum sem best lífskjör og trygga atvinnu. Þetta eru mikilvægar forsendur fyrir auknum hagvexti í landinu.

Aukinn hagvöxtur kallar líka á aukin afköst og fjölgun starfsmanna. Það er því einnig mikilvægt að allar vinnufærar hendur verði nýttar eins vel og hægt er. Það kallar á áframhaldandi sveigjanleika á vinnumarkaði. Og það kalla líka á aukna atvinnuþátttöku eldri starfsmanna og öryrkja eftir því sem kostur er. Af hálfu ríkisstjórnarinnar höfum við á undanförnum árum beitt okkur fyrir aðgerðum sem stefna í þessa átt og munu verða til þess að gera aukna atvinnuþátttöku eldri starfsmanna og öryrkja mögulega. Ég geri mér vonir um að enn frekari skref í þessa átt verði ákveðin á Alþingi næsta haust.

Það er einmitt með þessi langtímasjónarmið í huga sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa lagt mikla áherslu á gildi menntunar og eflingu rannsókna og nýsköpunar enda eru þessir þættir mikilvægt drifafl hagvaxtar. Sömu sjónarmið réðu því að Vísinda- og tækniráð var stofnað árið 2003 en þar koma saman fulltrúar stjórnvalda, aðilar vinnumarkaðarins og háskóla- og vísindasamfélagsins til stefnumótunar í málefnum rannsókna og þróunar. Það er til marks um mikilvægi þessa málaflokks að í ráðinu sitja fjórir ráðherrar undir stjórn forsætisráðherra.

Í nýlegri stefnumörkun ráðsins er lögð áhersla á að byggja upp mennta- og vísindastofnanir í fremstu röð sem starfi í nánum tengslum við atvinnulífið. Þessi áhersla hefur meðal annars skilað sér í því að framlag ríkisins til háskólastarfsemi og vísindarannsókna hefur nær tvöfaldast að raungildi á síðustu tíu árum. Þá hafa íslenskir háskólanemar aldrei verið fleiri, framlög til háskólamála hafa aldrei verið hærri og námsframboðið hefur aldrei verið fjölbreyttara. Ennfremur má nefna að í nýlegum samningi til næstu fimm ára sem menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu fyrir skömmu er gert ráð fyrir þreföldun fjárveitinga ríkisins til rannsókna við Háskóla Íslands.

Ísland hefur á síðustu árum staðið sig nokkuð vel í alþjóðlegum samanburði. Þetta má meðal annars þakka þeim umskiptum sem orðið hafa frá því sem áður var að hlutfallslega litlum fjármunum var varið til vísindarannsókna og umhverfi til nýsköpunar var óhagstætt fyrir aðrar greinar en sjávarútveg. Miklum fjármunum hefur verið varið til fjárfestinga í fjarskipta- og upplýsingatækni og óhætt að segja að við Íslendingar búum nú við býsna hagstæð skilyrði að þessu leyti.

Þá er ánægjulegt að verulegur vöxtur hefur orðið í ýmsum hátæknigreinum þar sem byggt er á nýrri þekkingu og innlendum rannsóknum og þróunarstarfi, m.a. á sviði matvælatækni, upplýsingatækni, heilbrigðistækni og líftækni. Fyrirtæki í þessum greinum hafa látið að sér kveða á alþjóðlegum markaði og sum hver orðið leiðandi á sínu sviði. Þetta er órækur vitnisburður um að fjárfesting í menntun, vísindarannsóknum og tækniþróun skilar sýnilegum árangri sem birtist meðal annars í umtalsverðum og vaxandi útflutningstekjum þessara fyrirtækja og þjónustu sem byggð er á háþróaðri þekkingu og rannsóknum. Það má heldur ekki gleyma því að hefðbundnir atvinnuvegir byggja einnig á nýrri þekkingu sem fæst með rannsóknum og þróunarstarfi og aðgangi að menntuðu fólki sem getur tryggt endurnýjun á þekkingarinnviðum fyrirtækja og stofnana.

Það er staðreynd að Ísland er þegar í dag orðið hátækniþjóðfélag hvort sem litið er á hina svokölluðu hefðbundnu atvinnuvegi eða nýjar greinar. Alls staðar hefur ný tækni rutt sér til rúms sem hefur um leið skilað aukinni verðmætasköpun í þjóðarbúið og bætt lífskjör okkar sem þjóðar. Á síðustu áratugum hefur íslenskt samfélag breyst úr tiltölulega einhæfu framleiðsluhagkerfi yfir í háþróað og nútímalegt tækni- og þjónustuhagkerfi. Þessi þróun mun halda áfram og ég tel að á næstu 43 árum munum við sjá enn meiri breytingar á íslensku þjóðfélagi hvað þetta varðar en við höfum upplifað síðustu 43 árin.

Góðir fundarmenn.

Ég tel mikilvægt að byggja áfram til framtíðar á þeim grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum í þessum efnum. Könnunin sem hér liggur fyrir gefur mikilvægar vísbendingar um þær væntingar sem gerðar eru til framtíðarinnar. Ég tel hins vegar að við eigum að setja okkur markmið sem skila enn meiri árangri en kemur fram í könnuninni, meðal annars um hlutfall háskólamenntaðra Íslendinga. Við höfum náð miklum árangri síðustu tíu ár og náð að hækka hlutfallið úr 21% í 31%. Ég tel að við eigum að setja okkur það markmið að vera fremur á bilinu 50-60% en 40-50% eins og niðurstaða könnunarinnar sýnir. Við eigum líka að setja okkur það metnaðarfulla og sjálfsagða markmið að hlutfallslega jafnmargar konur verði í forystustörfum í atvinnulífinu og karlar og það miklu fyrr en árið 2050.

Það sem mestu máli skiptir er að við hrekjumst ekki af þeirri leið sem við höfum verið á að undanförnu og forðumst ævintýramennsku í efnahagsmálum. Við þurfum að halda áfram að þróa og bæta okkar samfélag án þess að missa sjónar af því grundvallaratriði að til þess að svo megi verða þarf hagkerfið að halda áfram að vaxa og verðmætin að halda áfram að aukast. Stöðnun er versti óvinur framtíðarinnar. Vonandi berum við gæfu til þess að hafna þeirri leið.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum