Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. maí 2007 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Misnotkun í velferðakerfinu?

“Ógnar misnotkun velferðarkerfinu?”

Hótel Nordica, 22. maí 2007

Ávarp Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á alþjóðlegri ráðstefnu um bóta- og tryggingasvik

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á að þakka Tryggingastofnun ríkisins fyrir að standa fyrir þessari alþjóðlegu ráðstefnu um bóta- og tryggingasvik, sem er undir yfirskriftinni “Ógnar misnotkun velferðarkerfinu?”.

Til vores nordiske venner fra Danmark, Finland, Norge og Sverige, velkommen til denne internationale konference i Island.

And distinguished guests from other countries than the Nordic countries, welcome to Iceland and welcome to this international conference.

Meginefni ráðstefnunnar er spurningin hvort misnotkun á almannatryggingakerfinu hafi þau áhrif að hún grafi undan velferðarkerfinu. Með misnotkun er átt við að einstaklingar fái bætur úr almannatryggingakerfinu án þess að eiga rétt á þeim og hafi fengið þær með saknæmum hætti. Einnig er með misnotkun átt við að heilbrigðisstarfsmenn fái greiðslur úr almannatryggingakerfinu án þess að eiga rétt á því samkvæmt samningum eða öðrum heimildum.

Ég tel að mikill fengur sé í því að fá fyrirlesara frá tryggingastofnunum í öðrum ríkjum og alþjóðastofnunum þar sem þeir lýsa reynslu af aðgerðum til að koma í veg fyrir svik í almannatryggingakerfum.

Erfitt er að fullyrða nokkuð um bótasvik og misferli hér á landi og ber ætíð að fara varlega í þessu sambandi. Til þess að sanna bótasvik og misferli þarf mikla rannsóknarvinnu. Við slíka rannsóknarvinnu verður að gæta að því að ganga ekki of langt og að hún bitni ekki á þeim sem síst skyldi. Nokkuð hefur verið rætt um hver eigi að hafa eftirlit með bóta- og tryggingasvikum og hvort það samræmist velferðarstofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins að hafa slíkt hlutverk. Umræðan er náskyld umræðu um hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins.

Önnur ríki hafa verið að styrkja eftirlit með greiðslum úr almannatryggingakerfum og hefur það einnig verið gert hér á landi. Hefur ákvæðum í lögum um almannatryggingar verið breytt nokkrum sinnum til að auka heimildir Tryggingastofnunar ríkisins til að hafa eftirlit með reikningsgerð á hendur stofnuninni og eftirlit með bótagreiðslum.

Sem dæmi um slíkar auknar heimildir eru lög frá árinu 2001 þar sem læknum og tannlæknum Tryggingastofnunar ríkisins var heimilað að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis vegna þeirra laga var fjallað mjög ítarlega um eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar ríkisins og tek ég undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Tryggingastofnun ríkisins ber ríka eftirlitsskyldu með því að verk sem hún greiðir fyrir séu unnin. Til að sinna þessu eftirliti er stofnuninni nauðsynlegt að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á.

Í öðru lagi má nefna lög frá árinu 2002 þar sem Tryggingastofnun ríkisins fékk heimildir til að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur einstaklinga hjá skattyfirvöldum, lífeyrissjóðum og Vinnumálastofnun. Þar var Tryggingastofnun ríkisins einnig falið að framkvæma árlega uppgjör á bótagreiðslum. Með lögunum var verið að koma til móts við athugasemdir Ríkisendurskoðanda og að koma í veg fyrir of- eða vangreiðslur bóta.

Í þriðja lagi má nefna nýsamþykkt lög frá árinu 2006 þar sem sett voru ákvæði um eftirlit með bótagreiðslum innan bótagreiðsluársins. Með slíku eftirliti getur Tryggingastofnun ríkisins brugðist fyrr við röngum upplýsingum um tekjur og leiðrétt bótagreiðslur. Efling eftirlits af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins er brýn nauðsyn þar sem með því móti getur stofnunin betur sinnt því grundvallarhlutverki sínu að greiða réttar bætur á réttum tíma.

Að lokum má benda á nýsamþykkt lög um embætti landlæknis en þar er gert ráð fyrir að ráðherra geti svipt heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi ef hann brýtur alvarlega gegn starfsskyldum sínum, svo sem með því að gefa út röng og villandi vottorð, með því að veita umsagnir að órannsökuðu máli eða með því að gefa út ranga og villandi reikninga. Snertir þetta að sjálfsögðu almannatryggingar og Tryggingastofnun ríkisins.

Ég tel að efla megi ákvæði laga um viðurlög við bótasvikum og misferli heilbrigðisstarfsmanna. Það grefur undan velferðarkerfinu ef ekki er unnt að beita þá viðurlögum sem staðnir eru að bótasvikum eða misferli. Þó verður að hafa í huga hlutverk velferðarstofnunar eins og Tryggingastofnunar ríkisins og undirbúa lagabreytingar vandlega.

Ég vil í þessu sambandi taka fram að Tryggingastofnun ríkisins hefur á tímabilinu 2005 til 2007 fengið 125 milljónir króna á fjárlögum til að efla eftirlit með greiðslum stofnunarinnar, þar af eru 106 milljónir króna varanleg hækkun á rekstargrunni. Fjármagn þetta var m.a. ætlað til að efla eftirlit með lyfjagreiðslum, greiðslum samkvæmt samningum við sjúkraþjálfara og tekjutengdum bótum. Einnig var það ætlað til að efla tölvukerfi, greiningarstarf og vinnuferla Tryggingastofnunar ríkisins.

Góðir ráðstefnugestir.

Ég sé á dagskránni að efninu verða gerð góð skil og vænti ég þess að hægt sé að nýta efni ráðstefnunnar við frekari þróun mála hér á landi.

Talað orð gildir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum