Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. júní 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2008

Ávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2008

            Góðir Íslendingar!

 

            Ég færi landsmönnum öllum, sem mál mitt heyra, kveðjur og góðar óskir frá Austurvelli á þessum þjóðhátíðardegi. Enn fremur heilsa ég erlendum mönnum sem hér eru staddir, sérstaklega þeim sendimönnum sem eru hingað komnir til að heiðra Ísland, sögu landsins og sjálfstæði þess.

 

            Fögnuður og eftirvænting einkennir 17. júní, þjóðhátíðardag Íslendinga. Það á jafnt við um eldri sem yngri. Þess vegna leggur fjöldi manna leið sína í miðborg Reykjavíkur á þessum degi til að halda hátíð og gleðjast, sýna sig og sjá aðra. Mest fer fyrir Jóni Sigurðssyni í mannfjöldanum sem hefur safnast hér saman fyrir framan Alþingishúsið. Hann gnæfir upp úr, styttan af honum stendur hátt, og fer vel á því.           

 

            Það er athyglisvert hvað minning Jóns Sigurðssonar er björt og lifir lengi með þjóðinni. Þótt hann hafi legið í gröf sinni hér skammt undan, í kirkjugarðinum við Suðurgötu, í tæp 130 ár er sífellt til hans vitnað í þjóðmálabaráttunni. Fyrir skömmu spurði forseti Alþingis í ræðu í Jónshúsi í Kaupmannahöfn hver mundi vera afstaða Jóns Sigurðssonar til aðildar að Evrópusambandinu. Hvað sem líður svörum við þeirri spurningu er þetta til vitnis um hve lifandi minning Jóns Sigurðssonar er í huga og hjarta okkar Íslendinga.

 

Það vekur undrun hvað virðingin og aðdáunin á Jóni Sigurðssyni var óskipt um hans daga; jafnvel ærslafullir stúdentar í Kaupmannahöfn, sem létu margt flakka í sendibréfum heim til Íslands, skrifa tæpast nokkurt styggðaryrði um Jón, jafnvel þótt meiningarmunur hafi verið um stefnuna í einstökum málum. Svo óumdeildur var hann, svo mikill miðpunktur samtímans, og heimili hans eins og hirð Íslendinga.

 

            Við getum sannarlega verið stolt af Jóni Sigurðssyni, bæði manninum sjálfum, stjórnmálamanninum og fræðimanninum, svo og verkum hans í okkar þágu.

 

            Fyrr á þessu ári var þess minnst að öld var liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann var líka bæði merkur stjórnmálamaður og fræðimaður. Um árabil stóð hann í sömu sporum og ég hér í dag og ávarpaði þjóðina á 17. júní. Ég leyfi mér að vitna til orða hans frá 1969, á 25 ára afmæli lýðveldis, og gera þau að mínum, en máli sínu beindi Bjarni ekki hvað síst til unga fólksins:

 

            „Menn koma engu góðu til vegar, nema þeir séu sjálfir virkir þjóðfélagsþegnar, geri upp eigin hug, þori að hugsa sjálfstætt, fylgja hugsun sinni eftir og átti sig á því að fátt næst fyrirhafnarlaust. Menn verða í senn að nenna að leggja á sig hugsun og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær umbætur er löngun þeirra stendur til.

 

            Skynsemin er okkur ásköpuð til þess að við beitum henni. Í þeim efnum hefur enginn gefið fegurra fordæmi en Jón Sigurðsson með sinni þrotlausu hugsun um þjóðarhag, rökræðum og útskýringum málefna, ásamt hiklausri framkvæmd lögmætrar ákvörðunar, þegar á reyndi. Ef við fylgjum hans holla fordæmi, gerum við okkar til, að frjálst og fullvalda lýðveldi megi haldast um öll ókomin ár á Íslandi.“

 

           


Góðir landsmenn!

 

            Sú ríkisstjórn sem mynduð var að loknum síðustu alþingiskosningum hefur lokið fyrsta starfsárinu og sínum fyrsta þingvetri. Mörg merk mál hlutu afgreiðslu, grundvallar-lagabálkar á sumum sviðum, eins og t.d. í skólamálum og dómsmálum, en einnig mikilvægar lagabreytingar í félags- og velferðarmálum og um skipulag varnarmála þjóðarinnar. Önnur mál þessarar ríkisstjórnar bíða næsta þings og næstu þinga þar sem hrint verður í framkvæmd því sem stjórnarflokkarnir sömdu um á Þingvöllum í fyrra og skrifað var í stefnuyfirlýsing stjórnarinnar.

 

            Ríkisstjórnin tók við góðu búi, meira að segja óvenjulega góðu búi. En skömmu eftir að hún var mynduð hófust miklar hræringar í efnahagslífi heimsins, sem við sjáum ekki enn fyrir endann á en höfum þó góða von um að séu að ganga yfir. Erlendir fjármálamarkaðir hafa gengið í gegnum meiri sviptingar en um áratugaskeið og lánsfjárkreppa, sem af þeim hefur leitt, hvarvetna sagt til sín. Jafnvel virðulegustu og rótgrónustu fjármálastofnanir veraldar hafa lent í miklum erfiðleikum, tapað gríðarlegum fjármunum og sumar orðið gjaldþrota. Eins og íslenskt efnahagslíf hefur þróast á síðustu árum, orðið opnara, frjálsara og alþjóðlegra, var við því að búast að alþjóðlegar hræringar sem þessar segðu til sín hér sem annars staðar. Það er hinn nýi tími, sem ekki verður snúið frá.

 

            Hluti þess nýja alheimsvanda, sem nú er við að fást, birtist okkur í stórhækkuðu heimsmarkaðsverði á ýmsum nauðsynjum, svo sem eldsneyti og matvælum. Það segir sig sjálft að slíkar breytingar virka sem skattur á þjóðarbú okkar og rýra óhjákvæmilega kjör allra í landinu. Þar við bætist meiri lækkun á gengi krónunnar en búist hafði verið við, m.a. vegna breytts fjárstreymis inn og út úr landinu. Öll verðum við að laga okkur að hinum breyttu utanaðkomandi aðstæðum, jafnt fyrirtæki sem einstaklingar og opinberir aðilar. Gleymum því þó ekki hve þessi þróun leikur margar aðrar þjóðir miklu verr en okkur og verst þær sem síst máttu við nýjum áföllum.

 

Við þessar aðstæður kemur sér vel að hafa búið í haginn á undanförnum árum. Nú skiptir miklu að ríkissjóður er nánast skuldlaus og lífeyrissjóðakerfið firnasterkt, með miklar eignir á bak við sig innan lands og utan. Þótt verðbólgan sé óviðunandi um þessar mundir eru góðar líkur á því að hún gangi niður á tiltölulega skömmum tíma. Það er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir að tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis.

 

Alþingi hefur veitt ríkisstjórninni heimild til sérstakrar lántöku innan lands eða utan á árinu 2008. Erlent lán mundi ekki ganga til að fjármagna rekstur ríkisins eða framkvæmdir á vegum þess heldur til að treysta gjaldeyrisforða þjóðarinnar, varasjóð landsmanna. Sama tilgangi þjónar nýr samningur milli Seðlabanka Norðurlandanna, sem sýnir jafnframt norrænt vinarþel í verki. Þessar aðgerðir treysta varnir og viðbúnað landsins út á við sem er nauðsynlegt þegar vindar blása á móti.

 

            Þegar litið er til þess hvernig staðan er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýnir sig að fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki. Slíkir eiginleikar eru ekki aðeins verðmætir í fari einstaklinga, heldur eiga þeir einnig við um þjóðir og fyrirtæki. Íslenska þjóðin nýtur trausts og það er mikilvægt að fyrirtækin okkar geri það einnig, ekki síst fjármálafyrirtækin. Bankastarfsemi grundvallast á gagnkvæmu trausti.

 

            Við Íslendingar vorum vel undir bakslag búnir, betur en flestar aðrar þjóðir, sérstaklega þær sem framleiða rafmagn og hita húsnæði með jarðefnaeldsneyti. En það er ljóst að nú þarf að spyrna við fæti og fyrir því munum við finna á næstunni. Við verðum nú sem þjóð að bregðast við hinum gríðarlegu hækkunum á innfluttu eldsneyti. Eina leiðin í því efni, sem skilar varanlegum árangri, er að draga úr notkuninni með minni akstri og betri nýtingu, notkun sparneytnari ökutækja, tilflutningi yfir í aðra orkugjafa o.s.frv. Við eigum ýmissa kosta völ í þeim efnum. Nauðsynlegt er að efla fræðslu um svokallaðan vistakstur. Skynsamlegt gæti einnig verið að breyta fyrirkomulagi gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti í þessu skyni en einnig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Farartæki sem knúin eru með óhefðbundnum orkugjöfum njóta þegar skattalegra ívilnana.  Ég hvet almenning til að skoða vandlega allar færar leiðir í þessum efnum.  Þjóðin verður að breyta neyslumynstri sínu og framlag hvers og eins skiptir máli, bæði fyrir viðkomandi einstakling en einnig heildina.

 

Við erum góðu vön, Íslendingar, og svo verður auðvitað áfram. Þó svo að lífskjör versni um stundarsakir verða þau eigi að síður mun betri en fyrir fáum árum og betri en víðast hvar með öðrum þjóðum. Stoðir efnahagsstarfseminnar eru styrkar og þjóðin baráttuglöð. Íslendingar hafa svo sannarlega sýnt það í sögu sinni að þeir geta tekist á við erfiðleika og sigrast á þeim, erfiðleika sem eru miklu meiri en þeir sem við þykjumst sjá að séu framundan á næstu mánuðum. Við getum gengið á vit framtíðarinnar, ekki aðeins með von, heldur einnig vissu um að farsæld bíði okkar. Slík vissa byggist á því hvað þjóðfélag okkar hefur náð miklum þroska og því hvað mikill kraftur býr í þjóðinni.

 

Ég nefndi fyrr í ræðu minni ártalið 1969. Þá tókust Íslendingar á við einhverja erfiðustu kreppu síðustu áratuga vegna aflabrests og verðhruns á erlendum mörkuðum. Erfiðleikarnir þá voru mun meiri en nú. En með samstilltu átaki réð þjóðin við vandann og í hönd fóru blómleg ár. Ég er þess fullviss að svo verði einnig nú.

 

            Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fyrr á þessu ári sýna svo að ekki verður um villst að við Íslendingar stöndum saman að ábyrgri þróun á vinnumarkaði og munum með skynsemi og aðgæslu komast út úr þeim erfiðleikum sem nú steðja að. Nýlegir kjarasamningar ríkisins og BSRB eru enn frekari staðfesting þessa. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að kjarasamningar grundvallist á hóflegum almennum kauphækkunum en jafnframt verulegri hækkun lægstu launa. Slíkt stuðlar í senn að auknum jöfnuði og betra jafnvægi í efnahagsmálum.

 

            Góðir Íslendingar!

 

Í lok maímánaðar vorum við enn á ný minnt á krafta náttúrunnar þegar jörð tók að skjálfa í Ölfusi og víðar á Suðurlandi. Öll höfum við fylgst með því hvernig jarðskjálftarnir hafa leikið land og eignir Sunnlendinga og með hve miklu æðruleysi fólk hefur brugðist við. Ég lýsti því yfir eftir jarðskjálftann 29. maí að ríkisstjórnin myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að koma þeim sem orðið hafa fyrir tjóni til hjálpar. Þegar hefur verið tryggt fjármagn í því skyni og sett bráðabirgðalög til að bæta hag tjónþola. Það er mikil guðsblessun að ekki varð manntjón en ljóst er að margir hafa orðið fyrir eignatjóni og margt sem þarf að endurnýja á heimilum víða. Við leggjum áherslu á að tryggja öryggi þeirra sem búa á skjálftasvæðinu og ætlum að efla rannsóknir svo að veita megi eins miklar varnir og hafa þann viðbúnað, sem kostur er. Við þökkum af alúð starfsmönnum almannavarna og Rauða krossins, lögreglu, björgunarsveitum, heilbrigðisstarfsfólki og öllum sem komið hafa til aðstoðar við þessar aðstæður. Við atburði eins og þessa stöndum við Íslendingar saman sem einn maður. Fyrir því er margföld reynsla. Þann þjóðarhug meitlar Jakob Jóhannesson Smári svo listilega í ljóði sínu 17. júní 1944 með þessum orðum:

 

            Vor þjóð er margþætt, en þó ein,

            og eins manns böl er sérhvers mein,

            en takmark allra og innstu þrá

            með einum rómi túlka má.

 

            Ég óska öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum