Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra á ársfundi ASÍ, 21. október 2010

Forseti ASÍ, fundarstjórar og góðir ársfundar fulltrúar! 

Sjaldan hefur þjóðin staðið frammi fyrir jafn mörgum, stórum og erfiðum verkefnum og þessi misserin. Það reynir verulega á meginstoðir samfélagsins. Staðan er óneitanlega viðkvæm. Stjórnvöld þurfa að taka erfiðar ákvarðanir sem ekki verður vikist undan og sátt þarf að nást um endurreisn samfélagsins.

Það virðist ætla fljótt að fenna yfir þá staðreynd að fyrir einungis tveimur árum lækkuðu tekjur ríkissjóðs allverulega á sama tíma og vaxtagreiðslur jukust stórlega. Ráðstöfunarfé ríkissjóðs minnkaði þar með um 40% þegar um 200 milljarðar króna týndust eftir ofþenslu, offjárfestingu og lánafyllerí áranna á undan. Bankarnir voru hreinlega rændir innan frá. Ég ætla að leyfa mér að nota hér svo stór orð því fyrir mér var þetta ekkert annað en rán. Áætlaður halli fjárlaga á þessu ári er um 75 milljarðar króna. Þess vegna verðum við að ræða samtímis aðlögun tekna og útgjalda, með niðurskurði ríkisútgjalda, aukningu tekna og eflingu atvinnulífs.

Meginverkefni okkar er að endurreisa samfélagið, koma á skipulagi sem við erum sátt við. Verkefnið er þegar hafið og ljóst er að það muni standa yfir í nokkurn tíma enda skiptist það í mörg smærri verkefni. Mörgum finnst það ganga hægt fyrir sig en verkefnin er einfaldlega risavaxin og í mörg horn að líta.

Eitt þessara verkefna er óhjákvæmilegar aðhalds- og sparnaðaraðgerðir stjórnvalda sem eru af mörgum illa séðar – skiljanlega – því þær leiða til skertra lífsgæða og minni þjónustu en áður. Er það ekki síst erfitt eftir tímabil er við sem þjóð lifðum einfaldlega umfram efni og sóuðum verðmætum. Fólk hefur minna handa á milli og lífsbarátta margra er hörð, ekki síst þeirra sem glíma við verulega tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis eða launalækkana og bera þungar skuldabyrðar.

En aðhaldsaðgerðir stjórnvalda eru nauðsynlegar. Okkur er lífsnauðsynlegt að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sem fyrst, þ.e. að aðlaga tekjur og útgjöld, ná jöfnuði. Það er sú leið sem við verðum að fara svo við getum sem fyrst farið að verja fjármunum til að byggja upp varanlega velferð í stað þess að horfa á eftir þeim í vaxtagjaldahítina. Þannig má ef til vill segja að verkefnið sé að breyta vöxtum í velferð.

Það er erfitt að hagræða og spara við þessar aðstæður þegar fjármálahrunið hefur leitt til margvíslegra vandamála sem beinlínis kalla á aukin útgjöld. Við eigum hins vegar fárra kosta völ og verðum að forgangsraða verkefnum með það að markmiði að lágmarka skaðann og verja hlut þeirra sem verst eru settir í samfélaginu.

Ég veit að ég þarf ekki að brýna þetta fyrir fulltrúum á ársfundi ASÍ, enda hefur verkalýðshreyfingin lagt sitt af mörkum í þessum slag.

 

Lífeyrisþegar

Þrátt fyrir harðan niðurskurð og almenna kaupmáttarrýrnun hefur tekist með góðri hjálp aðila vinnumarkaðarins að verja kjör lágtekjufólks og lífeyrisþega betur en annarra hópa. Bæði launaþróun og þróun skattbyrði hefur sýnt það. En betur má ef duga skal.

Á árunum 2007–2008 var ráðist í ýmsar aðgerðir til að bæta afkomu lífeyrisþega, einkum þeirra sem minnst höfðu, og þegar hrunið varð var markvisst reynt að verja stöðu þeirra. Lágmarksframfærslutrygging almannatrygginga sem komið hafði verið á hefur reynst vel og skerðingar á lífeyri frá 1. júlí 2009 hafa einkum bitnað á hærri tekjuhópum lífeyrisþega.

Lífeyrissjóðir hafa að undanförnu margir hverjir skert greiðslur sínar til örorkulífeyrisþega vegna greiðslna sem þeir fá frá almannatryggingum, þar sem sjóðirnir horfa meðal annars til bóta almannatrygginga við samanburð á tekjum örorkulífeyrisþega fyrir og eftir orkutap. Það er ekki hægt að una við þetta og ég hef átt viðræður við lífeyrissjóðina og fjármálaráðuneytið til að ná samkomulagi um að þessum skerðingum verði hætt a.m.k. tímabundið. Þá ætti að gefast andrými til að leysa það vandamál sem lýtur að víxlverkunum almannatrygginga og lífeyrissjóðanna til frambúðar en þeirri vinnu var frestað tímabundið vegna fyrirhugaðra samningaviðræðna við sjóðina.


Atvinnuástand og vinnumarkaðsúrræði

Í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir er atvinnuleysi ef til vill ekki mikið hér á landi en fyrir okkur er það mun meira en við eigum að venjast. Við getum því ekki verið sátt við það ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði enda atvinnuleysi eitt mesta böl sem sérhver þjóð glímir við. Við getum að sjálfsögðu ekki lifað í þeirri blekkingu og talið okkur trú um að við náum sama snúningi á vinnumarkaði og var hér á árunum fyrir hrunið. Við viljum engu síður eiga virkan og arðbæran vinnumarkað sem byggist á trúverðugleika. Við þurfum því markvisst að vinna að því að fjölga störfum á innlendum vinnumarkaði fyrir þær vinnufúsu hendur sem nú sitja aðgerðarlausar. Hin margumtöluðu hjól atvinnulífsins þurfa að snúast hraðar og þar þurfa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins að snúa bökum saman og finna málum farsælan farveg.

Við getum státað okkur af því að hafa náð árangri í þessari baráttu en atvinnuleysi lækkaði úr 9,3% í febrúar og mars á þessu ári í 7,1% í september síðastliðnum. Við verðum þó því miður að gera ráð fyrir vaxandi atvinnuleysi á næstu mánuðum er vetur konungur gengur í garð. Staða fólks án atvinnu er alltaf mjög erfið og ekki síst þegar það horfist í augu við langtímaatvinnuleysi.

Vinnumálastofnun, í samvinnu við fjölmarga aðila, hefur lyft grettistaki í málefnum atvinnuleitenda og á liðnum mánuðum boðið þúsundum atvinnuleitenda náms- og atvinnutengd vinnumarkaðsúrræði. Í sumar voru sköpuð á annað þúsund skammtímastörf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur í samstarfi Vinnumálastofnunar, ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins og síðsumars hófst sérstakt átak gegn áhrifum langtímaatvinnuleysis undir nafninu ÞOR, sem stendur fyrir þekkingu og reynslu.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið setti það markmið í lok síðasta árs að aldrei skyldu líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur missir atvinnu þar til honum væri boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verkefnum. Markmiðið náðist fyrr en að var stefnt að því er varðar unga atvinnuleitendur og raunar gott betur en það. Jafnframt stendur yfir vinna hjá Vinnumálastofnun við að ná til langtímaatvinnulausra og hefur stofnunin þegar náð til allra sem hafa verið tíu mánuði eða lengur án atvinnu.

Aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi og berjast gegn langtímaatvinnuleysi og neikvæðum afleiðingum þess verða áfram algjört forgangsmál.

Það veldur mér áhyggjum að ekki skuli allir sem eru án atvinnu eiga jafna möguleika til þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum. Atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur eiga greiðan aðgang að fjölbreyttum úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Svo er hins vegar ekki þá sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta og fá framfærslu sína greidda af sveitarfélögunum. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að greiða leið allra að vinnumarkaðsúrræðum sem þurfa á þeim að halda, geta nýtt sér þau og eru í virkri atvinnuleit, óháð því hvar viðkomandi fær greidda framfærslu. Þetta hef ég rætt við forstjóra Vinnumálastofnunar og aðila vinnumarkaðarins sem taka undir sjónarmið mín. Hagur þessa fólks og heildarhagur samfélagsins fer saman. Við eigum að fjárfesta í fólki og þeim fjármunum er ótvírætt vel varið sem koma í veg fyrir að hópur fólks verði afskiptur og óvinnufær til frambúðar. Ég vil því taka þetta má föstum tökum í samstarfi við ykkur sem hér sitjið, atvinnurekendur, Vinnumálastofnun og sveitarfélögin.

Suðurnesin

Það er óhjákvæmilegt að staldra sérstaklega við erfitt ástand atvinnumála á Suðurnesjum og aðgerðum til að bregðast við því. Atvinnuleysi hefur verið þar yfir landsmeðaltali allt frá árinu 2002 og stefnir í að það verði um 5% yfir landsmeðaltali á þessu ári. Atvinnuleysi þar er hlutfallslega mest hjá ungu fólki og langtímaatvinnuleysi töluvert.

Vinnumálastofnun hefur átt í margþættu samstarfi við ýmsa aðila um virkni atvinnuleitenda á svæðinu en stór hluti þeirra hefur þegar tekið þátt í einhvers konar virkum vinnumarkaðsaðgerðum.

Staðan á Suðurnesjum er mér mikið áhyggjuefni. Ekki aðeins er atvinnuleysi þar mest á landinu öllu heldur eru nauðungarsölur þar hlutfallslega flestar á landinu, eða um tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu. Velferðarvaktin fundaði nýlega í Reykjanesbæ með þeim aðilum sem best þekkja stöðuna. Við þurfum að standa vaktina og skoða alla möguleika til sértækra aðgerða sem að gagni geta komið og Umboðsmaður skuldara mun vera með fulltrúa á svæðinu.

Staða karla og kvenna á vinnumarkaði

Þegar atvinnuleysið lagðist yfir af miklum þunga í kjölfar efnahagshrunsins bitnaði það verr á körlum en konum, enda varð strax algjört hrun í byggingariðnaði og annarri mannvirkjagerð en þar höfðu karlar verið fleiri við störf. Atvinnuleysi er enn meira meðal karla en kvenna, en verulega hefur dregið saman með kynjunum. Það er mikilvægt að fylgjast með þróun þessara mála en skoða verður allar ákvarðanir um aðgerðir með hliðsjón af fyrirsjáanlegum áhrifum á bæði kynin. 

Framundan er kvennafrídagurinn. Stendur til að minnast þess að 35 ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum 1975. Þrátt fyrir allan þennan tíma erum við enn að horfast í augu við kynbundinn launamun sem því miður er staðreynd á íslenskum vinnumarkaði. Mér er það óskiljanlegt hversu erfiðlega gengur að eyða þessum þráláta mun, þrátt fyrir áralanga baráttu í því efni. Markmiðið er skýrt og við verðum því að beita öllum ráðum til að ná því. Við megum ekki sofna á verðinum, heldur halda baráttunni áfram. Vonandi getum við orðið vitni að því að þessi dagur verði gerður að hátíðisdegi kynjajafnréttis frekar en að vera um ókomna tíð baráttudagur fyrir réttindum sem ættu að vera sjálfsögð.

Starfsendurhæfing

Störf við hæfi hvers og eins er besta velferðarmeðalið sem við þekkjum. Þetta er augljóst þegar störfin skortir. Við þurfum því að taka höndum saman og gefa sem flestum tækifæri til að verða virkir á vinnumarkaði. Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar þarf að koma í veg fyrir ótímabæra skerðingu starfsorku í vinnuumhverfinu og laga það betur að þörfum starfsmanna og hins vegar að efla og endurheimta starfshæfni fólks með skerta starfsgetu.

Öryrkjum hefur fjölgað jafnt og þétt hér á landi um margra ára skeið. Nú ber svo við að verulega hefur dregið úr nýgengi örorku seinni hluta þessa árs, þvert á spár um þróun þessara mála. Þetta er athyglisverð þróun en kannski of snemmt að draga of miklar ályktanir af henni strax. Ég vek engu að síður athygli á þessu og velti því fyrir mér hvort skýringin liggi ekki að einhverju leyti í aukinni áherslu á hæfingu og starfsendurhæfingu og fjölgun úrræða á þeim vettvangi. Starfsendurhæfingin er verkefni sem þarf að ná sátt um.

Endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar

Eins og þið þekkið eflaust flest stendur nú yfir heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Verkinu er ekki lokið, enda málið vandasamt og mörg atriði til skoðunar. Eitt tel ég þó nokkuð ljóst en það er að réttur innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði lengdur tímabundið úr þremur árum í fjögur. Áætlaður kostnaðarauki atvinnuleysistryggingakerfisins vegna þessa er um einn milljarður króna á næsta ári. Í tengslum við þessa fyrirhuguðu breytingu vil ég jafnframt ræða við sveitarfélögin um mögulega hækkun framfærsluviðmiða innan félagsþjónustu sveitarfélaga enda að ákveðnu leyti er verið að létta byrðar sem annars lentu á þeim. Sá hópur sem þarf alfarið að treysta á félagsþjónustu sveitarfélaganna er í afar erfiðri stöðu.

Ég nefni hér einnig setningu framfærsluviðmiða sem unnið er að eins og kveðið er á um í lögum um umboðsmann skuldara. Það er löngu tímabært að setja slík viðmið þar sem byggt er á raunverulegum gögnum um kostnað fólks vegna framfærslu með hliðsjón af fjölskyldustærð og annarra áhrifaþátta. Það verður vandasamt að innleiða þessi viðmið og ná sátt um notkun þeirra, ekki síst við ríkjandi aðstæður í samfélaginu. Engu að síður sé ég fyrir mér að slík viðmið geti orðið mikilvægt tæki til frambúðar þegar teknar eru ákvarðanir sem varða hag og afkomu einstaklinga og fjölskyldna í landinu.

Skuldir heimilanna

Aðgerðanefnd fimm ráðherra undir forystu forsætisráðherra og með þátttöku stjórnarandstöðu hefur á síðustu vikum unnið að frekari lausnum á skuldavanda heimilanna og aukinni skilvirkni gildandi úrræða. Mikilvægar úrbætur hafa þegar verið kynntar eða verða kynntar á næstunni.

Það veldur mér áhyggjum hvað margir sem eiga í greiðsluerfiðleikum leita sér ekki aðstoðar og hafa ekki nýtt sér þau margvíslegu úrræði sem að gagni gætu komið.

Umboðsmaður skuldara gegnir mikilvægu hlutverki við framkvæmd greiðsluvandaúrræða og hefur milligöngu um samskipti og samninga við lánadrottna. Hann er ráðgjafi og talsmaður skuldara og skal gæta hagsmuna þeirra í hvívetna séu þeir órétti beittir af hálfu fjármálastofnana eða stjórnvalda. Þetta embætti er geysilega mikilvægt og ég set mikið traust á það góða fólk sem þar starfar. Þar er mikil þekking á skuldavanda heimilanna og geta til að takast á við erfið verkefni.

Við höfum margvísleg tæki í höndunum til að takast á við greiðsluvanda einstaklinga og heimila og það veltur á miklu að fólk nýti sér þessi úrræði, en til að svo megi verða þarf að einfalda þau og gera hraðvirkari.

Nýlega var lögfest bráðabirgðaákvæði vegna greiðsluaðlögunar einstaklinga. Með því fá þeir sem sækja um greiðsluaðlögun tímabundinn greiðslufrest strax og umsókn hefur borist umboðsmanni skuldara. Óheimilt verður að ganga að skuldara með greiðslukröfur, ganga að ábyrgðarmönnum, gera fjárnám í eignum hans eða fá þær seldar nauðungarsölu meðan umsókn um greiðsluaðlögun bíður vinnslu hjá umboðsmanni.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp um að skuldir fólks fyrnist tveimur árum eftir gjaldþrot.

Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp um að heimild til frestunar á nauðungarsölum verði framlengd til 31. mars 2011.

Verið er að skoða stöðu ábyrgðarmanna og þeirra sem hafa veitt lánsveð svo tryggja megi að ekki verði gengið að þeim vegna einstaklinga sem fengið hafa samþykkta greiðsluaðlögun.

Tekið hefur verið á vanda fólks sem situr uppi með tvær eignir og hefur ekki getað selt aðra þeirra. Sótt er um úrræðið hjá Umboðsmanni skuldara.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytinga á húsnæðislögum sem heimilar Íbúðalánasjóði að bjóða uppboðsíbúðir til leigu með kauprétti. Þetta eykur verulega húsnæðisöryggi fólks sem er illa statt fjárhagslega. Einnig fær Íbúðalánasjóður heimild til að veita óverðtryggð húsnæðislán og auknar heimildir til að veita lán til endurbóta.

Efnahags- og viðskiptaráðherra mælir bráðlega fyrir lagafrumvarpi um að öll lán einstaklinga tengd gengi erlendra gjaldmiðla verði ólögmæt óháð orðalagi samninga. Höfuðstóll lána lækkar verulega sem getur skipt sköpum þar sem gengistryggð lán hafa valdið heimilum í landinu hvað mestum erfiðleikum. Fasteignalánum verður breytt í verðtryggð krónulán en einstaklingar geta valið hvort þeir vilji breyta láninu í óverðtryggð krónulán eða lögleg erlend lán.

Sérfræðingahópur á vegum stjórnvalda með fulltrúum helstu hagsmunaaðila vinnur nú að útreikningum á ýmsum almennum leiðum sem ræddar hafa verið til lausnar á skuldavanda heimilanna. Niðurstöður ættu að liggja fyrir fljótlega þar sem skýrist hvaða aðgerðir er unnt að ráðast í til viðbótar þeim úrræðum sem þegar eru í boði.

Hvorki má gleyma þeim hópi sem enn stendur í skilum, en hefur þrengt að sér og hefur alltof lítið fé handa á milli, né hinum sem eiga ekki húsnæði, búa í rándýru leiguhúsnæði og reiða sig á húsaleigubætur. Öll úrvinnsla eftir hrunið, hvort sem er hjá einstaklingum eða fyrirtækjum, er flókin og vandasöm, en nauðsynlegt að hraða henni sem allra mest og ná endanlega utan um vandann.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið vinnur að mótun húsnæðisstefnu til framtíðar. Einkum er horft til þess að efla önnur úrræði en séreignaformið, svo sem búseturétt, kaupleigurétt og leigumarkað. Markmiðið er að skapa fólki fjölbreytta valkosti sem tryggja húsnæðisöryggi allra, óháð efnahag.

 

Góðir fundarmenn.

Verkefnin framundan eru óþrjótandi og þau eru mörg afar erfið. En við megum ekki láta okkur fallast hendur. Við verðum að halda áfram, horfa fram á veginn, takast á við vandamálin og sigrast á þeim. Þetta eru tímabundnir erfiðleikar og með hörku og þrautseigju komum við okkur út úr þeim og byggjum upp betra samfélag en áður.

Fjárlagafrumvarpið – heilbrigðisstofnanir o.fl.

Á tímum sem þessum er mikilvægara en nokkru sinni að taka á málum af festu og standa með ákvörðunum sínum. Sundurlyndi og hringlandaháttur hjálpar ekki.

Ég segi þetta ekki síst vegna yfirstandandi umræðu um fjárlagafrumvarpið, því einhverra hluta vegna mætir allur niðurskurður andstöðu, sem og skattahækkanir og gjaldtökur. Þegar horft er til einstakra málaflokka og tiltekinna verkefna eru ávallt einhverjir sem telja að einmitt þar sé ekkert svigrúm, leita verði sparnaðarins annars staðar. Það er auðvelt að skilja þessi sjónarmið en því miður er lítið tillit hægt að taka til þeirra, því aðhalds er þörf á öllum sviðum.

Ég segi þetta meðal annars vegna gagngerrar endurskoðunar sem framundan er á skipulagi og starfsemi heilbrigðisstofnana um allt land. Verulega verður dregið úr starfsemi sjúkrasviða nema á stærstu sjúkrahúsunum þar sem byggðar verða upp sterkari einingar með öflugri sérfræðiþjónustu. Á móti horfum við til þess að efla nærþjónustu á vegum sveitarfélaganna með tilfærslu verkefna eins og ég gat um áðan. Þannig þarf að koma á fót þjónustukjörnum víðs vegar um landið þar sem íbúar sveitarfélaganna geta fengið samþætta velferðarþjónustu, upplýsingar og ráðgjöf á einum stað.

Viðbrögð við þessum áformum hafa verið mjög harkaleg. Ég sagði strax að farið yfir öll þessi sparnaðaráform með heimamönnum á milli fyrstu og annarrar umræðu og staðan endurmetin, og er sú vinna í gangi.


Breytingar á stjórnsýslu

Miklar skipulagsbreytingar eru framundan á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar. Framundan er flutningur á málefnum fólks með fötlun til sveitarfélaganna – nokkuð sem stefnt hefur verið að til fjölda ára en nú sjáum við loks til lands enda þótt mikilvæg atriði séu enn óleyst. Ég er þess fullviss að þessi tilfærsla muni efla sveitarfélögin, styrkja þau í hlutverki sínu á sviði velferðarþjónustu og bæta stöðu fólks með fötlun.

Sameining ráðuneyta er önnur veigamikil breyting sem unnið er að og ég sé margvísleg tækifæri til góðra verka með sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Ég reikna með að í kjölfar þessa muni sigla sameining ýmissa stofnana þessara ráðuneyta og stóraukin samþætting skyldra verkefna. Með þessu móti tel ég að við getum hagrætt verulega, aukið samlegð og síðast en ekki síst bætt þjónustu af hálfu ráðuneytanna og stofnana þeirra við almenning.

Kjaramál

Framundan eru kjarasamningsviðræður aðila vinnumarkaðarins sem óneitanlega fara fram við nokkuð erfiðar aðstæður. Mikilvægt er því að menn séu raunsæir og stilli fram kröfum í samræmi við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu. Ég skil vel að fólk sé orðið langþreytt á ástandinu og vilji fá að sjá kjarabætur. Hér þurfa allir að gæta að heildarhagsmunum samfélagsins, þar á meðal fjölskyldnanna í landinu sem og atvinnulífsins. Þar vonast ég til að sérstök áhersla verði áfram lögð á að tryggja hag láglauna- og millitekjufólks. Einnig þurfum við sameiginlega að standa vörð um barnafjölskyldur sem og hag þeirra sem hafa allar sínar tekjur í gegnum opinber framfærslukerfi.

Ég veit að Alþýðusambandið mun axla sinn hluta af ábyrgðinni og það ætla stjórnvöld að gera einnig.

Atvinnumál

Forsenda þess að við náum jöfnuði í ríkisfjármálum og getum áfram haft hér öfluga velferðarþjónustu er að atvinna aukist og hagvöxtur verði hér að nýju.

Mikilvægt er að hratt og vel takist að hreinsa til í atvinnulífinu, vinna úr skuldum fyrirtækja og endurfjármagna, svo þau geti ráðið til sín fólk og ráðist í fjárfestingar.

Hægt er að hafa mörg orð um vaxtakjör, orku- og umhverfismál, framtíðarsýn og gjaldmiðilsmál, en ræðan er orðin löng og læt ég aðra hér á fundinum um þann þátt.

Ég geri mér grein fyrir því að forsenda þess að við náum okkur upp úr þeim þrengingum sem við búum við er að það takist að ýta úr vegi ýmsum þeim hraðahindrunum sem verið hafa á veginum í endurreisninni, hraðahindranir reistar af ýmsum aðilum samfélagsins. Hver og einn verður að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvernig við getum hraðað málum, komið þeim áfram.

Þjóðin verður að taka skýra afstöðu til þess hvar við viljum vera í alþjóðasamfélaginu og horfast í augu við að íslenska krónan, sem nú er að færa til fjármagn í samfélaginu, mun ekki geta tryggt okkur það atvinnuumhverfi sem við þörfnumst til langs tíma. Heimóttarskapur og misskilinn hroki sem er birtingarmynd minnimáttarkenndar má ekki leiða til þess að við lokum okkur af og látum byrgja okkur sýnina fram á við.

Lokaorð

Stopp – hingað og ekki lengra er yfirskrift ársfundarins hér í dag. Ég segi hingað og ekki lengra í að kenna hvert öðru um. Sameinumst í því að endurreisa okkar ágæta samfélag, – endurreisum það á traustum grunni, þar sem við eyðum í samræmi við tekjur, byggjum upp vel rekið atvinnulíf byggt á rauntekjum, atvinnulíf sem nýtir sameiginlegar auðlindir okkar en gefur um leið góðan arð til samfélagsins og greiðir launafólki mannsæmandi laun.

Gleymum þó aldrei því sem er mikilvægast í lífinu, þ.e. lífinu sjálfu. Hlúum vel hvert að öðru og að þeim sem þurfa aðstoð í gegnum þær þrengingar sem við göngum í gegnum og sköpum grunn fyrir aukna velferð og aukinn jöfnuð, sem er forsenda þess að tryggja velferð fyrir alla.

Megi ársfundurinn verða starfssamur og árangursríkur og skila okkur fram á veginn með skapandi tillögum um lausnir og tillögur um áframhaldandi framlag ASÍ til endurreisnar íslensks samfélags. Við eigum sameiginlegt verk að vinna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum