Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Borgarafundur: Stöðvum einelti! 3. nóvember 2010

Borgarafundur: Stöðvum einelti! Ráðhúsi Reykjavíkur 3. nóvember 2010.
Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra


Góðir borgarar og fundarmenn.

Við viljum stöðva einelti. Það getum við öll verið sammála um og það er efni borgarafundarins hér í dag sem er hluti af átakinu Stöðvum einelti. 

Einelti er óþolandi fyrirbæri í samskiptum fólks, fyrirbæri sem erfitt er að skilja, fer oft leynt og útilokað að sætta sig við. Það er dapurleg staðreynd að einelti viðgengst, jafnt meðal barna og fullorðinna. Einelti er alltaf alvarlegt og það getur haft miklar og slæmar langtímaafleiðingar á þá sem því eru beittir. Það er raunar dauðans alvara.

Í byrjun árs 2009 boðaði þáverandi heilbrigðisráðherra til samráðsfundar með tveimur öðrum ráðuneytum, mennta- og menningarmálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti til að fjalla um einelti í íslensku samfélagi og umfang þessa vandamáls. Samráðið leiddi til þess að settur var á laggirnar óformlegur starfshópur sem falið var að kortleggja umfang vandans, greina hann og koma með tillögur að lausnum. Verkefnið var afmarkað við einelti í skólum landsins og á vinnustöðum.

Í júní 2010 skilaði hópurinn greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem var afrakstur mikillar vinnu, samráðs og viðræðna við fjölmarga aðila, einstaklinga og fulltrúa félagasamtaka sem hafa látið sig þessi mál varða.

Í greinargerðinni eru settar fram 30 skýrar tillögur um samræmdar aðgerðir til að sporna við einelti í samfélaginu. Að hluta eru þetta almennar aðgerðir, hluti þeirra varðar úrlausnir í skólastarfi og hluti þeirra snýr að vinnustöðum. Skilgreint er með hverri tillögu hver eða hverjir skuli bera ábyrgð á framkvæmd hennar og sett eru tímamörk eftir því sem það á við. Miklu skiptir um framgang þessarar vinnu að þegar greinargerðin lá fyrir samþykkti ríkisstjórnin að veita 9 milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til að styðja við aðgerðirnar og er gert ráð fyrir sambærilegu framlagi á næstu árum. Þá verður skipuð verkefnisstjórn til þriggja ára með fulltrúum ráðuneyta til að fylgja eftir tillögum starfshópsins.  

Ein grundvallarforsenda árangurs í baráttu gegn einelti er að tryggður sé sameiginlegur skilningur fólks á því við hvað er átt við þegar talað er um einelti. Samráðshópurinn sem vann umræddar tillögur skilgreindi í starfi sínu hugtakið einelti á eftirfarandi hátt: 

„Einelti er endurtekin, ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna eða meðal nemenda eða milli nemenda og starfsfólks skóla.“  

Ég legg áherslu á það sem segir í upphafi skilgreiningarnar að um er að ræða endurtekna háttsemi, athöfn eða hegðun en ekki einstök tilvik. Þetta skiptir máli. Öll getum við orðið fyrir því að móðga einhvern eða særa af vangá, í hita leiks eða af tillitsleysi. Aftur á móti skýrist jafnan fljótt í samskiptum fólks hvaða mörk ber að virða og hvar þau liggja. Að fara ítrekað yfir þessi mörk verður ekki skýrt sem óviljaverk heldur liggur þá ásetningur að baki. Slík hegðun má aldrei líðast.

Verkefni okkar er að gera það öllum ljóst að einelti er ofbeldi og ofbeldi er glæpur. Hver sá sem situr hjá, þegir og horfir á eða jafnvel tekur undir með þeim sem beita þessari tegund ofbeldis verður með því móti beinn eða óbeinn þátttakandi í atburðarásinni. Við verðum öll að gera okkur þetta ljóst og axla ábyrgðina sem því fylgir og við þurfum að kenna börnunum okkar þetta svo þau taki sér stöðu gegn einelti - alltaf og undir öllum kringumstæðum. Einelti er vítahringur sem verður ekki rofinn nema með skýrum skilaboðum og beinum aðgerðum.

Ég treysti mér ekki til að skýra hvaða vandamál búa að baki hjá þeim sem leggja aðra í einelti, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Ástæðurnar geta verið margar. Ég tel að sá sem leggur annan í einelti eigi sér enga afsökun fyrir gjörðum sínum, þó sá hinn sami eigi rétt á hjálp og leiðsögn út úr hlutverki sínu. Þá tel ég mikilvægt að við réttlætum aldrei einelti, til dæmis með því að sá sem verður fyrir eineltinu hafi átt það skilið einhverra hluta vegna. Gerandinn finnur ávallt ótal skýringar eða afsakanir en mér finnst mikilvægt að gefa þau skýru skilaboð að við sættum okkur undir engum kringumstæðum við ofbeldi af þessu tagi. 

Mikilvægt er að við áttum okkur á því í hvers konar umhverfi einelti fær þrifist og hvaða leiðir eru færar til þess að fyrirbyggja það. Við höfum mikla þekkingu að byggja á og sú þekking er undirstaða aðgerðanna sem lagðar eru til í greinargerð vinnuhópsins um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum.

Eins og ég sagði áðan er einelti vítahringur sem ekki verður rofinn nema með skýrum skilaboðum og beinum aðgerðum. Aðgerðirnar sem boðaðar hafa verið eru af þessu tagi og ég bind miklar vonir við að með sameiginlegu átaki allra þeirra fjölmörgu aðila sem hafa verið kallaðir til í tengslum við átakið Stöðvum einelti munum við ná árangri.

Skýrt verklag við úrlausn eineltismála er brýn nauðsyn. Það kemur vel fram í greinargerð starfshópsins og endurspeglast í tillögum hans. Sömuleiðis er þar fjallað um stuðning við þolendur eineltis sem einnig verður að vera fyrir hendi.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti erindi á borgarafundi í fundaröðinni Stöðvum einelti sem haldinn var í Sunnulækjarskóla á Selfossi 14. september. Þar sagði hún meðal annars frá endurskoðun reglugerðar um skólareglur og aga sem nú er unnið að. Við endurskoðunina hefur sérstaklega verið tekið á meðferð eineltismála, sett verða ákvæði um forvarnarstarf skóla til að vinna gegn einelti á markvissan hátt og viðeigandi viðbragðsáætlunum. Þá kom fram hjá ráðherra að í fyrirliggjandi drögum er gert ráð fyrir ákvæði um sérstakt fagráð sem hægt verði að vísa til erfiðustu eineltismálunum sem ekki tekst að leysa á vettvangi viðkomandi skóla eða sveitarfélags. Með þessu móti er stefnt að því að koma til móts við kröfur um markvissari umgjörð um meðferð eineltismála í grunnskólum með heildarhagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Ég hef ekki rætt hér um svokallað rafrænt einelti sem hefur aukist til muna síðustu ár og tekur sífellt á sig nýjar myndir samfara tæknibreytingum og ýmsum nýjungum á þessu sviði. Þetta er tiltölulega ný og einstaklega óhugguleg hlið eineltis sem erfitt er að verjast - en afar mikilvægt að við beitum öllum leiðum til að vinna gegn því í samstarfi við kunnáttufólk á sviði þeirrar tækni sem um er að ræða. Þar gegnir SAFT verkefnið mikilvægu hlutverki. Ræturnar að baki rafrænu einelti eru hins vegar þær sömu og annars eineltis og stóra verkefnið er því að breyta hugarfari og gera öllum ljóst að einelti er ekki liðið á þessum vettvangi fremur en öðrum.

Góðir gestir.

Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem hafa staðið að átakinu Stöðvum einelti, ráðuneytunum þremur, skólum, stofnunum og fyrirtækjum sem hafa stutt við þetta mikilvæga verkefni, sem og einstaklingum sem hafa lagt lið með ýmsum hætti.

Verkefnið okkar allra er að taka höndum saman og stöðva einelti, hvar sem það birtist, í hvaða mynd sem það kemur fram. Stöðvum einelti STRAX.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum