Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Viðurkenning Jafnréttisráðs 2010

Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra við afhendingu viðurkenningar Jafnréttisráðs, 10. desember 2010


Góðir gestir.

Í dag, á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, lýkur alþjóðlegu sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem nú er haldið í tuttugasta sinn. Á þessu ári er sjónum beint að ofbeldi gegn konum á átakasvæðum sem því miður eru allt of mörg. Í Kongó, Afghanistan, Írak og á fleiri svæðum sæta konur og börn miklu kynferðisofbeldi sem á eftir að marka líf þeirra um ókomna tíð. Við þekkjum úr sögunni að nauðgunum hefur verið beitt sem stríðsvopni frá örófi alda en sennilega aldrei eins skipulega og í Bosníustríðinu og í Rwanda undir lok síðustu aldar. Nauðganir á átakasvæðum eru nú skilgreindar sem stíðsglæpur og refsað fyrir þær í samræmi við það en erfiðlega gengur að ná í ofbeldisseggina.

Í nýútkominni verðlaunabók Sofi Oksanen „Hreinsun“ segir frá þremur kynslóðum kvenna í sömu fjölskyldu í Eistlandi sem allar eru beittar grimmilegu kynferðisofbeldi. Stígvélaðir fulltrúar valdhafa níðast á konum í átökum heimsstyrjaldarinnar síðari og eftir hana í valdatöku kommúnista. Rússar, Þjóðverjar, Rússar aftur og loks heimamenn eru gerendur. Áhrifin eru geigvænleg á eldri konurnar en við fáum ekki að vita hvernig yngstu kynslóðinni reiðir af eftir að hafa sætt mansali og viðurstyggilegu ofbeldi eftir hrun Sovétríkjanna.  Þetta er bók sem allir eiga að lesa, hún varpar ljósi á afleiðingar kynferðisofbeldis og hún tengist svo sannarlega þema þessa árs.

Það eru aðeins sjö ár síðan íslensk félagasamtök og stofnanir hófu þátttöku í 16 daga átakinu sem endurspeglar vaxandi þunga í ofbeldisumræðunni hér á landi. Ár eftir ár hefur  tekist að vekja athygli á því hve mikil áhrif kynbundið ofbeldi hefur á félagslega stöðu og heilbrigði brotaþola og þeirra barna sem verða vitni að ofbeldi. Í alþjóðaumræðu er lögð sífellt meiri áhersla á að ofbeldi gegn konum og börnum er ekkert annað en mannréttindabrot. Því er vel við hæfi að átakinu ljúki á þessum degi.

Nýleg rannsókn sem gerð var hér á landi í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi leiðir í ljós að um það bil fimmta hver kona býr við ofbeldi í nánu sambandi á ævi sinni. Rannsóknin sýnir að um það bil 1.800 konur sæta ofbeldi í nánum samböndum á ári hverju. Af þessum konum sögðust 26% hafa verið í lífshættu og 4% þeirra voru barnshafandi. Rannsóknin beinir sjónum að því hve þekkingu faghópa er ábótavant hvað varðar kynbundið ofbeldi og mjög víða vantar viðbragðsáætlanir og úrræði til hjálpar brotaþolum. 

Nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi. Hún mun taka mið af niðurstöðum fyrrnefndrar rannsóknar hvað varðar stóraukna fræðslu til fagstétta og almennings, lagabætur og ný eða bætt úrræði.  Tekið verður mið af yfirlýsingu Evrópuráðsins um kynbundið ofbeldi  sem væntanlega verður samþykkt snemma á næsta ári.

Búið er að skipa nefnd til að semja frumvarp til laga um hina svokölluðu austurísku leið sem felur í sér að ofbeldismaður er fjarlægður af heimili í stað þess að konan og börnin leggi á flótta. Þá hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið kostað verkefnið Karlar til ábyrgðar sem felur í sér að ofbeldismönnum er boðið upp á meðferð. Austuríska leiðin, umræður um að hægt verði að skikka menn í meðferð sem og aukin eftirspurn karla eftir meðferðinni kallar á aukinn stuðning hins nýja velferðarráðuneytis. Aftur minni ég á að kynbundið ofbeldi hefur bæði félagsleg og heilsufarsleg áhrif sem ógna lífi og heilsu þeirra sem fyrir því verða og kostar samfélagið mikið fé. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar að beita öllum tiltækum ráðum til að draga sem allra mest úr kynbundnu ofbeldi, efla forvarnir, styðja brotaþola, vernda börn og síðast en ekki síst að beina sjónum að gerendunum – ofbeldismönnunum, þeirra er ábyrgðin.

Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á jafnrétti kynjanna og að kynjasjónarhorni sé beitt við alla ákvarðanatöku og stefnumótun. Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2010-2014 hefur verið lögð fram á Alþingi. Að þessu sinni er áætluninni skipt upp eftir málaflokkum og er að finna í henni alls 38 verkefni sem ýmist eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar eða einstakra ráðuneyta.

Þetta er metnaðarfull áætlun sem vonandi mun fleyta okkur áfram í átt til jafnari tækifæra og jafnari stöðu kynjanna.

 

Góðir gestir.

Afhending jafnréttisviðurkenningar Jafnréttisráðs er árviss viðburður og hún er nú afhent í 18. sinn. Jafnt fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hafa hlotið viðurkenningu í gegnum tíðina, enda er mikilvægt að sem allra flestir láti sig þessi mál varða og leggi af mörkum til baráttunnar. Það er samtakamátturinn sem skilar okkur mestum árangri í þessum efnum sem mörgum öðrum. Saman þurfa að fara orð, athafnir, viðhorf og almennur vilji til breytinga. Það þekkja allir sem vinna að jafnréttismálum og baráttuna þarf því að há á mörgum vígstöðvum samtímis.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, enda bíðum við öll niðurstöðu Jafnréttisráðs um það hver hlýtur viðurkenningu ársins 2011.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum