Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Opnun átaks Krabbameinsfélags Íslands: Mottumars


Opnun átaks Krabbameinsfélags Íslands: Mottumars
Skautahöllinni 28. febrúar 2011 kl. 13:55
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Góðir gestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag við upphaf Mottumars, átaks Krabbameinsfélags Íslands.

Þetta er annað árið í röð sem efnt er til Mottumars og ég tel að við getum verið sammála um að átakið tókst ákaflega vel í fyrra, ekki síst fyrir þá vitundarvakningu sem orðið hefur í samfélaginu fyrir krabbameini hjá körlum.

Átakið vakti svo sannarlega athygli og skilaði árangri sem merkja má meðal annars á því að hlutfall karla eldri en 18 ára sem safnaði yfirvaraskeggi í tengslum við átakið var 35%, eða um 38.000 karlar. Þá lagði stór hluti þjóðarinnar Krabbameinsfélaginu lið með margvíslegum hætti og gerði félaginu þannig kleift að sinna forvörnum, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknum á krabbameinum karla.

Góðir gestir.

Árlega greinast á Íslandi yfir 700 karlar með krabbamein og árlega deyja um 250 karlar af völdum krabbameins, en lífslíkur þeirra eru lakari en hjá íslenskum konum. Karlar virðast bregðast seinna við einkennum en konur og því eru krabbamein hjá körlum oft lengra gengin við greiningu en hjá konum.

Það eru gömul sannindi og ný að því fyrr sem meðferð hefst þeim mun betri eru batahorfurnar. Þess vegna er mikilvægt að karlar þekki helstu einkenni krabbameins og leiti sér aðstoðar verði þeir varir við þau.

Krabbamein er sjúkdómur sem snertir allar fjölskyldur landsins fyrr eða síðar með einhverjum hætti. Nauðsynlegt er að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir sjúkdóminn, greina hann snemma og veita bestu fáanlegu meðferð. Eins er mjög mikilvægt að styðja sjúklinga og aðstandendur þeirra til að takast á við breyttar aðstæður.

Í blaðagrein sem ég skrifaði í tilefni af alþjóðakrabbameinsdeginum 4. febrúar síðastliðinn lagði ég áherslu á að ekkert yrði gefið eftir í baráttunni við þennan vágest. Þar greindi ég frá þeirri ákvörðun minni að ráðast í sérstaka áætlun um aðgerðir og markmið í baráttunni við krabbamein, líkt og margar aðrar þjóðir hafa gert. Ég tel þetta skynsamlegt enda mikið í húfi og hef því ákveðið að ráðast í þetta verkefni, á þessu ári, þegar Krabbameinsfélag Íslands fagnar sextíu ára afmæli sínu.

Góðir gestir.

Ég hvet alla landsmenn til að huga að heilbrigðu lífi, vera vakandi fyrir einkennum krabbameins og hika ekki við að leita læknis ef minnsti grunur vaknar. Við höfum staðið okkur vel í forvörnum, greiningu og meðferð krabbameina og í vísindarannsóknum tengdum krabbameinum. Í þessum málaflokki ætlum við áfram að vera í fremstu röð.

Með Mottumars virðist sem Krabbameinsfélag Íslands sé komið vel á veg með að skapa árlega hefð hér í samfélaginu og hvet ég alla þá sem sprettur grön að vera með í átakinu og vekja þannig athygli á málstaðnum.

Ég vil að lokum óska bæði lögreglu- og slökkviliðsmönnum góðs gengis í leiknum hér á eftir.

Takk fyrir!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum