Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Þing heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á þingi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
14. apríl 2011 

Góðir gestir.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraÞað er ánægjulegt að sjá ykkur öll og fá tækifæri til að segja fáein orð við upphaf þings heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Þið kannist auðvitað öll við orðin „Vísindin efla alla dáð“ en kannski færri ykkar við framhaldið... „orkuna styrkja, viljann hvessa, vonina glæða, hugann hressa, farsældum vefja lýð og láð.“ Vísuorðin eru hluti erindis úr þekktu kvæði Jónasar Hallgrímssonar sem stóð um tíma, allt erindið, fyrir ofan dyrnar að hátíðasal háskólans. Mér skilst hins vegar að vegna umferðatafa af völdum seinlæsra gesta salarins hafi það fljólega verið fellt brott, allt nema fyrsta ljóðlínan. Hvað um það, inntakið stendur gott og gilt og kannski verður það ykkur innblástur við umræður um stefnumótun heilbrigðisvísindasviðs hér á eftir.

Traust og gott heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum velferðar hverrar þjóðar. Til að byggja upp og viðhalda slíku kerfi þarf vel menntað starfsfólk í öllum heilbrigðisstéttum sem er hæft til að sinna meginþáttum heilbrigðiskerfisins sem í grundvallaratriðum eru þjónusta við veikt fólk, rannsóknir, kennsla og mikilvægir þættir sem snúa að heilsuvernd og lýðheilsu.

Heilbrigðisvísindi verða æ flóknari viðfangs eftir því sem samfélagið þróast, kröfur þess breytast og tækni og rannsóknum fleygir fram. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er skýrt það markmið að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Þetta markmið felur í sér ákveðinn sveigjanleika en krefst jafnframt stöðugst mats á því hvað er raunhæft og rétt í þessum efnum, hvernig á að forgangsraða við veitingu þjónustunnar og hverjar eiga að vera megináherslurnar í heilbrigðiskerfinu og þróun þess.

Þegar kemur að útgjöldum til heilbrigðismála þurfum við á hverjum tíma að sníða okkur stakk eftir vexti. Í því felast ákveðnar takmarkanir gagnvart þjónustunni og sú staðreynd leggur okkur ríkar skyldur á herðar um að spila sem best úr þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar. Við ákvarðanir sem þessu tengjast skiptir sköpum að hagnýta þá þekkingu sem best er fyrir hendi á sviði heilbrigðisvísinda. Þá á ég ekki aðeins við að hún sé hagnýtt innan heilbrigðiskerfisins við ákvarðanir frá degi til dags heldur vísa ég ekki síður til þess að stjórnvöldum ber að móta stefnu sína í heilbrigðismálum með öflugu samstarfi og samráði við vísinda- og fræðasamfélag háskólanna. Á þetta legg ég áherslu sem velferðarráðherra enda treysti ég á vandaða aðkomu ykkar að umræðum um stefnumótun og lausnir á sviði heilbrigðismála.

Siðferðilegum spurningum fjölgar stöðugt eftir því sem vísindin og tæknin opna okkur nýjar dyr. Margt er mögulegt nú sem fyrir fáum árum eða áratugum var óhugsandi. Siðferðileg álitamál krefjast yfirvegaðrar og faglegrar umræðu og mikilvægt er að við leyfum afstöðu okkar aldrei að ráðast af tilfinningum augnabliksins.

Framfarir í heilbrigðisvísindum verða seint ofmetnar og því verður á öllum tímum að hlúa að rannsóknum og kennslu eins og kostur er. Ég tel líka að við eigum að beina auknum kröftum að forvarnar- og lýðheilsustarfi og treysta þekkingu okkar á því sviði, því við þekkjum svo mörg augljós dæmi um þætti sem varða lýðheilsu og geta haft afgerandi áhrif á hana til góðs eða ills. Ég nefni áhrif reykinga og offitu á heilsufar og vitneskju okkar um hve mikið getur áunnist með því að hafa áhrif á lífshætti fólks og hegðun í þessum efnum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnuin helgaði alþjóðaheilbrigðisdaginn 7. apríl síðastliðinn aðgerðum til að berjast gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þetta er ört vaxandi vandamál sem getur stefnt í hættu virkni lífsnauðsynlegra lyfja fyrir komandi kynslóðir. Þetta er vandamál sem við verðum að taka mjög alvarlega.

Ég nefni hér að nú eru að hefjast reglulegar bólusetningar ungbarna við pneumókokkum samhliða öðrum ungbarnabólusetningum. Þess er vænst að með bólusetningu muni draga stórlega úr alvarlegum afleiðingum sýkinga af þeirra völdum hjá börnum og síðast en ekki síst er þess vænst að árleg sýklalyfjanotkun barna muni minnka um allt að fjórðung. Þá er stefnt að því að hefja innan tíðar bólusetningu gegn leghálskrabbameini með HPV-bólusetning 12 ára stúlkna.

Góðir gestir.
Við lifum á einstökum tímum. Þá er ég ekki aðeins að tala um Íslendinga sem þjóð, því um víða veröld eru margvíslegar sviptingar sem geta haft mikil áhrif á framtíð og lífsskilyrði fólks. Þá er ég einkum að vísa til skiptingar á takmörkuðum gæðum milli þjóða og heimshluta, um ósjálfbæra nýtingu auðlinda, sívaxandi eftirspurn eftir þverrandi orkugjöfum og áhrifa loftslagsbreytinga á umhverfið.

Við mannfólkið höfum mikla aðlögunarhæfileika og ótrúlega getu til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Við getum látið okkur nægja hér að fjalla um breyttar aðstæður á Íslandi í kjölfar þeirrar djúpu kreppu sem við erum að vinna okkur útúr. Hún hefur svo sannarlega haft áhrif á líf okkar og lífsgæði og hún hefur þrengt að getu þjóðarbúsins til þess að standa straum af útgjöldum til mikilvægra málaflokka á öllum sviðum og þar er heilbrigðiskerfið ekki undanskilið.

Þessar aðstæður hafa kallað á ýmsar breytingar en ég er sannfærður um að við munum snúa aðstæðum okkur í hag og verða sterkari en áður þegar upp verður staðið. Ég tel að nýtt velferðarráðuneyti sem stofnað var um áramótin með sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis muni ótvírætt styrkja stöðu velferðarmála í landinu. Lög hafa verið samþykkt um sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar og fyrir dyrum stendur endurskoðun á verkefnum þeirra stofnana sem heyra undir velferðarráðuneytið með bætt skipulag, aukna skilvirkni og betri þjónustu við notendur að leiðarljósi.

Góðir gestir. Það eru stór verkefni framundan á sviði heilbrigðismála. Við þurfum að vera hagsýn, útsjónasöm og framsýn en við þurfum einnig að vera vakandi fyrir aðstæðum dagsins og mögulegum áhrifum þeirra á heilsufar þjóðarinnar til skemmri og lengri tíma. Um allt þetta skulum við eiga samræður og samvinnu, stjórnvöld og vísinda- og fræðasamfélagið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum