Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra á morgunverðafundi á vegum landlæknisembættisins

Ágætu gestir.

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá tækifæri til að hitta ykkur öll og ávarpa á þessum morgunverðarfundi sem haldinn er í tilefni af árlegum degi án tóbaks. Öll deilum við áhuga og vilja til að leggja okkar af mörkum til að stemma stigu við tóbaksnotkun í hvaða mynd sem hún er.

Eins og ykkur er sjálfsagt flestum kunnugt um ákvað Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin árið 1987 að 31. maí ár hvert skyldi helgaður baráttunni gegn reykingum og hefur reyklausi dagurinn verið haldinn ár hvert hér á landi síðan þá, líkt og svo víða annars staðar. Það er skemmtilegt að rifja upp að Íslendingar voru fyrri til og héldu fyrsta reyklausa daginn 23. janúar árið 1979 og öðru sinni árið 1982. En árið 2006 var heiti dagsins á Íslandi breytt og kallast nú tóbakslausi dagurinn eða dagur án tóbaks sem samræmist enska heitinu World No Tobacco Day. Neysla reyklauss tóbaks hefur vaxið undanfarin ár og því nauðsynlegt að beina spjótum að allri tóbaksnotkun.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur þjóðir heims til þess að nýta 31. maí til að vekja athygli á skaðsemi tóbaksnotkunar. Að þessu sinni beinir stofnunin sjónum að rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir (FCTC) sem tók gildi árið 2005. Þar er áréttað að allt fólk eigi rétt á sem bestri heilsu og í honum eru gefnar ráðleggingar um samvinnu á sviði tóbaksvarna. Ísland undirritaði samninginn 16. júní 2003 og var hann síðan fullgiltur 14. júní 2004. Yfir 170 ríki eiga aðild að samningnum.

Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er áætlað að á þessu ári muni yfir fimm milljónir manna deyja af völdum reykinga; vegna hjartaáfalls, heilablóðfalls, krabbameins, lungnasjúkdóma eða annarra sjúkdóma. Að auki er áætlað að rúmlega 600.000 manns muni deyja af völdum óbeinna reykinga, um fjórðungurinn börn. Á 20. öldinni varð tóbakið 100 milljónum manna að bana, á þeirri 21. gæti það valdið dauða eins milljarðs manna takist ekki að snúa þróuninni við. Þetta eru ógnvænlegar tölur.

Ef við víkjum aftur að rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þá fjallar hann um skyldur ríkjanna sem eiga aðild að samningnum sem felast meðal annars í eftirfarandi:

  • Hindra að hagsmunir tóbaksiðnaðarins hafi áhrif á stefnumótun í lýðheilsumálum.
  • Haga verðlagningu og sköttum þannig að dragi úr eftirspurn eftir tóbaki.
  • Hlífa fólki við tóbaksreyk annarra.
  • Samræma reglur um leyfileg efni í tóbaksvörum.
  • Samræma reglur um upplýsingagjöf á tóbaksvörum.
  • Samræma pakkningar og merkingar á tóbaksvörum.
  • Vara fólk við hættum sem fylgja tóbaki.
  • Bjóða fólki aðstoð við að binda enda á tóbaksfíkn sína.

Það er ljóst að á umliðnum árum hefur Ísland leitast við að framfylgja samningnum eins og frekast er kostur til að vernda þjóðina og komandi kynslóðir fyrir alvarlegum afleiðingum tóbaksnotkunar og óbeinum reykingum á heilsu, samfélag, umhverfi og efnahagslíf.

Við vitum einnig að á Íslandi hefur orðið mikill árangur af tóbaksvarnastarfi sem lýsir sér best í því að nú mælast daglegar reykingar fullorðinna með því lægsta sem gerist í Evrópu. Í fyrra reyktu um 14,2% Íslendinga á aldrinum 15–89 ára daglega á móti tæpum 30% árið 1991. Við höfum því náð því markmiði sem sett var fram í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem Alþingi samþykkti árið 2001 en þar var miðað við 15%. Það markmið var svo endurskoðað árið 2007 í ljósi góðs árangurs og markið sett við 12%.

Margt hefur stuðlað að þessum árangri, svo sem öflugt forvarnastarf og þrengdar skorður við reykingum með lagasetningu. Viðhorf fólks til reykinga hefur breyst og eru flestir sammála um skaðsemi tóbaksnotkunar og nauðsyn þess að sporna við því að ungt fólk hefji neyslu tóbaks og verði háð neyslu þess.

Það er hins vegar mikið áhyggjuefni hvað neysla munntóbaks, einkum meðal ungra karlmanna, hefur aukist mikið hér á landi síðustu ár. Kannanir sýna að um fimmti hver piltur á aldrinum 16–23 ára segist nota tóbak í vör. Þessi neysla er augljóslega mjög ávanabindandi því flestir þeirra segjast taka í vörina daglega.

Í þessu ljósi meðal annars lagði ég nýverið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, með síðari breytingum (skrotóbak), en markmið þess er einmitt að draga úr neyslu á reyklausu tóbaki og því heilsutjóni sem slík neysla veldur.

Það er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir og hvetja alla til samvinnu gegn þessari óheillaþróun. Ungt fólk byrjar neyslu tóbaks meðal annars fyrir tilstuðlan hópþrýstings og fyrirmynda. Landlæknisembættið ásamt fleiri hagsmunaaðilum mun í sumar efna til vitundarvakningar í baráttunni gegn munntóbaksneyslu og er sjónum einkum beint að þeirri ábyrgð sem fyrirmyndir hafa gagnvart börnum og unglingum.

En þrátt fyrir mikla vinnu og árangur á sviði tóbaksvarna hérlendis eru reykingar enn alvarlegur og kostnaðarsamur heilbrigðisvandi hér á landi eins og víða erlendis. Bandaríski landlæknirinn hefur sagt að ... sú meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar sem hefur í för með sér mesta kostnaðarlega ávinninginn sé að styðja fólk við að hætta að reykja ... („Smoking cessation is one of the most cost-effective of all health care treatments“ US Surgeon General).

Hér á landi er talið að um 300 einstaklingar látist á ári hverju vegna helstu tóbakstengdu sjúkdómanna, þ.e. hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma og krabbameina. Þá eru ekki taldir ýmsir aðrir sjúkdómar sem tengjast tóbaksnotkun. Jafnframt hefur komið fram að mörg hundruð ungmenni ánetjast tóbaksnotkun árlega og má stór hluti þeirra reikna með að látast fyrir aldur fram vegna tóbakstengdra sjúkdóma takist þeim ekki að hætta. Það er því enn mikið verk að vinna.

Jafnframt er ljóst að ný viðfangsefni koma fram og aðstæður breytast svo það má alls ekki sofna á verðinum og sífellt þarf að gera betur. Í þessu skyni er fróðlegt að líta til annarra landa sem sum hver hafa á umliðnum árum hert baráttuna verulega gegn tóbaksnotkun, til dæmis í Finnlandi þar sem að sala á tóbaki til barna undir 18 ára aldri getur varðað margra mánaða fangelsisvist samkvæmt nýjum lögum þar.

Ég hef því tekið þá ákvörðun að ráðist verði í heildræna opinbera stefnumótun á sviði tóbaksvarna og verða fyrstu skrefin væntanlega stigin á næstu mánuðum. Fræðin segja okkur að þeir þættir sem helst hafi áhrif á notkun tóbaks séu meðal annars verð, aðgengi, lög og reglur, fræðsla og forvarnir. Heildræn nálgun á við hér eins og í öðru forvarnastarfi. Að slíkri vinnu þurfa því að koma fjölmargir aðilar auk ráðuneytisins og nefni ég sem dæmi ýmis félagasamtök, fagfélög og sérfræðinga, stofnanir, sveitarfélög og önnur ráðuneyti. Ekki má gleyma hlutverki Alþingis sem fer með löggjafarvaldið því líklegt er að í einhverjum tilvikum þurfi að breyta lögum. Ég vonast til að þeir sem ráðuneytið leitar til í þessari vinnu bregðist vel við en eflaust eru margir hér inni í þeim hópi.

Að lokum vil ég þakka landlæknisembættinu fyrir að standa fyrir þessum morgunverðarfundi. Ég er sannfærður um að við Íslendingar getum gert enn betur á sviði tóbaksvarna og mun leggja mitt af mörkum til að svo verði.

Megið þið eiga góðan fund.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum