Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp velferðarráðherra á ráðstefnu um heilsueflandi skóla

Ávarp velferðarráðherra á ráðstefnu embættis landlæknis um heilsueflandi skóla

Grand hótel 2. september 2011

Ágætu ráðstefnugestir, góðir félagar

Síðastliðinn vetur fékk ég í heimsókn í Alþingishúsið hóp gamalla nemenda minna sem var að kynna sér starfsemi og hlutverk Alþingis. Kennararnir spurðu krakkana hvort þau vissu hvað ég gerði í dag. Einn svaraði strax játandi og sagði; hann er „vellíðunarráðherra“.  Mér fannst svarið gott og kannski mjög lýsandi fyrir hlutverk velferðarráðuneytis, þ.e. að vinna að því að öllum líði vel í okkar landi.

Árið 1993 hófst samstarfsverkefni milli landlæknisembættisins og heilbrigðisráðuneytisins undir yfirskriftinni Heilsuefling hefst hjá þér. Markmiðið var að efla heilsu og vellíðan landsmanna. Byggt var á íslensku heilbrigðisáætluninni og tekið mið af markmiðum Alþjóðaheilbrigðismála­stofnunarinnar í þessum efnum.

Undir hatti þessa verkefnis var sett af stað þróunarverkefnið Heilsuefling í skólum sem hófst árið 1994 á vegum embættisins og tók til skóla á öllum skólastigum. Verkefnið byggðist á hugmyndafræði heilsuskóla í Evrópu. Þetta verkefni fékk svo aukinn byr undir vængi þegar samstarf milli landlæknisembættisins, heilbrigðisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins hófst árið 1999 um heilsueflandi skóla.

Fjórir skólar tóku þátt hér á landi og var afrakstur þess viðmið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem fram komu markmið heilsueflingar í skólum. Þessi   hugmyndafræði  hefur verið í  sífelldri þróun hérlendis  og hefur  Lýðheilsustöð, sem  nú hefur sameinast  landlæknisembættinu,  unnið  mikið  starf  á þessu  sviði.  Þetta  þekkja eflaust margir hér inni,  bæði í gegnum verkefnið  Allt hefur áhrif og  svo  Heilsueflandi  grunnskóla  og Heilsueflandi  framhaldsskóla sem þessi  ráðstefna snýst um. Það er ánægjulegt hversu  vel  skólasamfélagið  hefur tekið þessari  hugmyndafræði  en  mér skilst að nú séu 31 af 32 framhaldsskólum   þátttakendur og  28 grunnskólar og margir þar á leiðinni.  Þá má minnast á öflugt starf félags heilsuleikskóla, en margir leikskólar eru reknir sem slíkir.

Slagorðið Heilsuefling hefst hjá þér hlýtur að hitta flesta fyrir og vekja til umhugsunar um eigin ábyrgð á heilsu sinni og vellíðan. Við getum hvenær sem er á ævinni hafið heilsueflingu með því að breyta venjum okkar og taka upp betri siði en við höfum ástundað í gegnum tíðina. Það er hins vegar auðveldara að beygja líkamann en viljann, sérstaklega þegar við erum farin að festast í viðjum vanans eins og gerist með aldrinum.

Við getum á öllum aldri tekið ákvörðun um að ráðast gegn aukakílóunum, hætta að reykja, hætta að drekka, byrja að hreyfa okkur reglulega og huga að geðheilsunni svo eitthvað sé nefnt. Allt getur þetta hins vegar kostað mikið átak og erfiði, - hatramma glímu milli viljans og vanans þar sem oft er tvísýnt um úrslitin.

Best er að tileinka sér heilbrigða lífshætti frá fyrstu tíð og gera þá sjálfsagða í daglegu lífi. Þannig má sleppa við erfiðar rimmur gegn vondum vana síðar meir.

Á þessu byggist hugmyndin um heilsueflandi skóla. Að sjálfsögðu gegna foreldrar alltaf meginhlutverki í uppeldi og mótun barna sinna sem nánasta fyrirmynd þeirra. Skólinn getur hins vegar verið mikilvægur stuðningur og viðbót í þessum efnum með því að sinna þessum þáttum á markvissan hátt og viðvarandi í öllu skólastarfi.

Hugtakið heilsuefling snýst um miklu víðara svið en forvarnir og heilbrigðisþjónustu. Heilsuefling snýst ekki um tímabundin átaksverkefni heldur felst hún í því að því að efla möguleika og getu einstaklinga til þess að taka þær ákvarðanir sem leiða til heilbrigðis og vellíðunar. Til þess þarf stuðning og hvatningu í samfélaginu, alls staðar sem því verður við komið og mikilvægt er að móta umhverfi og aðstæður með möguleika fólks til heilsueflingar að leiðarljósi. Skipulagsmál má nefna sem einn þátt af mörgum sem geta ýtt undir heilsueflingu eða unnið gegn henni, allt eftir því hvernig á málum er haldið.

Breiður hópur fagstétta gegnir hér lykilhlutverki, jafnt í skólakerfinu, félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu. Þverfaglegt samstarf er ein af forsendum árangurs og stjórnvöld bera jafnframt mikla ábyrgð með því að sinna stefnumótun og taka ákvarðanir sem styðja við heilsueflingu. En jafnframt verðum við ávallt að hafa í huga mikilvægi góðs samstarfs við unga fólkið, nemendurna, sem verið er að móta og kenna heilbrigðan lífsstíl.  Á má aldrei gleymast að starfsfólk skóla, ekki hvað síst kennarar, eru fyrirmyndir barnanna og þarf skólinn í heild, ALLIR, að taka þátt.  Það er löngu kunnugt að hreyfinga og heilbrigt líferni hjálpar til að skila betri árangri í lífi og starfi.

Ég ætla ekki að fjölyrða ávinninginn, jafnt fyrir samfélagið og einstaklingana, sem felst í almennri ástundun heilsueflingar fólks á öllum aldri. Því fyrr á lífsleiðinni sem við tileinkum okkur hana, því betra. Einmitt þess vegna er heilsuefling í skólum verkefni sem við eigum að leggja við mikla rækt og flétta inn í allt skólastarf á öllum skólastigum.

Það eru mörg áhugaverð efni til umfjöllunar hér framundan og án efa verður þetta fróðlegur og skemmtilegur dagur hjá ykkur öllum. 

Megiði eiga skemmtilegan og árangursríkan dag, þar sem skipst er á reynslu og skoðunum, miðlað og aflað þekkingar og leitað upplýsinga.  Megi ráðstefnan þjóna þeim tilgangi að verða ykkur sjálfum, börnum okkar og unglingum og raunar samfélaginu öllu til heilla.

Gleymum aldrei að heilsueflandi skóli, byggir ekki hvað síst á góðu umhverfi, sem býður upp á góðan starfsanda, veitir öruggi, byggir á sjálfstæði og frumkvæði,  jákvæðni, vinsemd og virðingu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum