Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Svanni, lánatryggingasjóður kvenna tekur til starfa

Stofnun Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðhera á fundi í sjóminjasafninu Víkinni
23. september 2011.


Góðir gestir.

Þá er komið að því. Nýr lánasjóður kvenna tekur formlega til starfa og hefur hlotið hið viðeigandi nafn Svanni sem er úr skáldamáli og merkir kona.

Sjóðurinn er reistur á grunni gamla lánatryggingasjóðs kvenna sem starfræktur var á árunum 1998-2003. Markmiðið er hið sama og áður, að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar.

Svanni er í eigu velferðarráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og var samningur um stofnun hans undirritaður hér í Víkinni í fyrr á þessu ári.

Um leið og það er ánægjulegt að lýsa yfir formlega að sjóðurinn taki nú til starfa verð ég líka að segja að það er miður að hans skuli vera þörf. Sýnt hefur verið fram á að konur sitja ekki við sama borð og karlar varðandi aðgang að fjármagni, hvorki lánsfé né styrkjum. Byggðastofnun gerði rannsókn sem sýndi að 80% styrkja renna til karla, konur fá 20% og fleiri rannsóknir leiða í ljós svipaðar niðurstöður.

Það hefur líka sýnt sig að konur eru síður reiðubúnar að veðsetja eigur sínar en karlar og að það hefur oft staðið verkefnum þeirra fyrir þrifum. Þetta segi ég ekki konum til hnjóðs. Ég met meira varfærni í fjármálum en hina rómuðu áhættusækni sem helst hefur verið kennd körlum og við aldeilis fengið að súpa seyðið af á síðustu árum. Þar hefðu betur verið gengið fram af meiri forsjá en kappi.

En þá að hlutverki Svanna og markmiðum sem eru;

  • að styðja við bakið á konum sem eiga og reka smærri fyrirtæki
  • að stuðla að auknum hlut kvenna sem eigendur og stjórnendur fyrirtækja
  • að auka aðgengi kvenna að fjármagni til fyrirtækjareksturs
  • að fjölga störfum og stuðla að nýnæmi í atvinnulífi
  • að veita ráðgjöf og stuðnin við þær konur sem fá lán og gefa þeim kost á handleiðslu og stuðningi.

Veittar verða lánatryggingar til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir og hér á eftir verður undirritaður samstarfssamningur við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu.

Eignir sjóðsins nema rúmum 70 milljónum króna og er í áætlunum gert ráð fyrir að samtals verði unnt að veita ábyrgðir fyrir um 170 milljónum króna.

Hægt verður að sækja um lánatryggingu vegna stofnkostnaðar, markaðskostnaðar, vöruþróunar og nýrra leiða í framleiðslu eða framsetningu vöru eða þjónustu.

Ábyrgð skal ekki vera undir 1 milljón króna og ekki fara yfir 10 milljónir króna sem þýðir að lánsfjárhæð getur verið á bilinu 2 milljónir til 20 milljóna.

Eingöngu verkefni/fyrirtæki sem eru í eigu konu/kvenna geta sótt um tryggingu og gerð er sú krafa að í verkefninu felist nýnæmi eða nýsköpun af einhverju marki. Einnig er gerð krafa um að verkefnið leiði til aukinnar atvinnusköpunar kvenna.

Mikilvægur þáttur í verkefni endurvakins Lánatryggingasjóðs kvenna er ráðgjöf og handleiðsla lántakenda. Þegar trygging er afgreidd fer af stað ferli þar sem viðkomandi fær ráðgjöf sem sniðin er að þörfum hvers og eins. Leitað hefur verið eftir samvinnu við atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni og Nýsköpunarmiðstöð Íslands varðandi ráðgjafar- og handleiðsluþáttinn og munu lánþegar geta leitað þangað.

Umsóknir eru rafrænar á heimasíðu verkefnisins www.svanni.is en þar verður einnig að finna ýmsar upplýsingar og fréttir sem snúa að konum og atvinnurekstri.

Gerður hefur verið samningur  við Vinnumálastofnun um umsýslu Lánatryggingasjóðs og er verkefnið vistað hjá starfsmanni stofnunarinnar á Sauðárkróki.

Það er von eigenda sjóðsins að hann muni efla konur til dáða og auka fjölbreytni í atvinnulífi og skapa fleiri störf.

Góðir gestir. Ég óska okkur öllum hér til hamingju með daginn og vona að Svanni verði sá áburður til að efla vöxt í atvinnulífi kvenna sem að er stefnt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum