Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Tóbaksvarnaþing Læknafélags Íslands 2011

Ávarp velferðarráðherra á þingi Læknafélags Íslands um tóbaksvarnir 2011.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, flutti ávarpið fyrir hans hönd.

Góðir gestir.

Velferðarráðherra bað mig fyrir góðar kveðjur til ykkar allra en hann gat því miður ekki verið hér í dag og því stend ég hér og mæli fyrir munn hans.

Ráðherra vill þakka læknafélaginu sérstaklega fyrir að standa fyrir þessu þingi. Sambærilegt þing árið 2009 vakti mikla athygli og umræður sem ótvírætt hafa ýtt undir frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að stemma stigu við notkun tóbaks, hvaða nafni sem það nefnist.

Við höfum margt að vinna takist okkur áfram að draga úr tóbaksnotkun landsmanna. Um skaðsemina þarf ekki að fjölyrða. Sameinuðu þjóðirnar héldu fyrr í þessum mánuði fund með fulltrúum æðstu stjórnvalda aðildarríkjanna þar sem til umfjöllunar voru svokallaðir ósmitnæmir sjúkdómar eða langvinnir sjúkdómar. Vaxandi athygli beinist að langvinnum sjúkdómum sem vaxandi heilsufarsvanda enda er nú fjallað um þá sem faraldur vegna þess hve mjög þeir eru í sókn og herja á þjóðir heims eins og faraldur.

Reykingar og önnur tóbaksnotkun á ríkan þátt í mikilli og ört vaxandi útbreiðslu langvinnra sjúkdóma um allan heim, á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, lungna- og öndunarfærasjúkdóma og krabbamein. Um þetta er fjallað í yfirlýsingu sem samþykkt var á fundi Sameinuðu þjóðanna sem ég nefndi áðan og er rík ástæða til að halda á lofti sem áminningu, aðvörun og leiðbeiningum til þjóða heims um að berjast gegn þessu risavaxna vandamáli.

Hér á landi hefur náðst mjög góður árangur í tóbaksvörnum, einkum við að draga úr reykingum. Árið 2004 reyktu tæp 20% Íslendinga á aldrinum 18–69 ára en hlutfallið var komið niður í 14,2% árið 2010.

Árið 2004 fullgilti Ísland rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir. Nú hefur verið ákveðið að ráðast í gerð opinberrar stefnu í tóbaksvörnum hér á landi, líkt og mörg önnur lönd sem Ísland ber sig saman við hafa gert og er undirbúningur þegar hafinn í velferðarráðuneytinu.

Velferðarráðherra mun á komandi þingi leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir þar sem áformað er að setja enn frekari skorður við notkun og markaðssetningu tóbaks.

Á síðasta þingi lagði velferðarráðherra fram frumvarp til laga um afnám undanþágu á innflutningi, framleiðslu og sölu á skrotóbaki, auk þess sem lagt var til bann við því að flytja inn, framleiða og selja allt bragð- og lyktarblandað reyklaust tóbak. Alþingi lauk ekki umfjöllun um frumvarpið en það verður lagt fram aftur á komandi þingi.

Velferðarráðherra setti nýverið ákvæði í reglugerð sem kveður á um notkun ljósmynda í lit sem vara við skaðsemi tóbaks, til viðbótar þeim viðvörunum sem þegar eru fyrir hendi. Lagabreytingu þurfti til þess að tryggja þessu ákvæði stoð í lögum og var slíkt ákvæði lögfest með breytingu á lögum um tóbaksvarnir árið 2009.

Nýjar vörur á þessu sviði bætast sífellt við. Svokallaðar rafsígarettur hafa nú stungið upp kolli á markaði hérlendis. Slíkar sígarettur eru víða seldar erlendis og þá með eða án nikótíns. Velferðarráðuneytið, Lyfjastofnun og embætti landlæknis eru um þessar mundir að skoða frekar þessar vörur.

Margt í þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í eða eru í undirbúningi samræmast tillögum sem fram koma í þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir sem lögð var fyrir Alþingi 30. maí síðastliðinn, daginn fyrir tóbakslausa daginn. Tillagan var ekki afgreidd frá Alþingi en engu að síður hefur hún haft sín áhrif eins og öll umræða þar sem byggt er á vandaðri vinnu og faglegum upplýsingum.

Eitt af því sem skiptir miklu er að beina forvörnum og aðgerðum á markvissan hátt að ungmennum. Nýleg rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga sýnir að byrji fólk ekki að reykja fyrir tvítugt eru yfirgnæfandi líkur á því að það byrji aldrei, miðað við reynslu 18–79 ára Íslendinga. Þetta skiptir miklu máli.

Það hefur sýnt sig að með fjölbreyttum tóbaksvörnum og markvissum aðgerðum næst árangur. Fræðsla og áróður duga ekki ein sér, heldur þarf líka að setja sem mestar skorður við notkun tóbaks og markaðssetningu þess og eins að veita fólki hjálp til þess að venja sig af tóbaki. Síðast en ekki síst hefur verðlagning mikil áhrif og sömuleiðis aðgengi að tóbaki og sýnileiki þess.

Stjórnvöld hafa beitt aðgerðum á öllum þeim sviðum sem ég nefndi og munu halda ótrauð áfram á þeirri braut. Það er allra hagur.

Ég þakka læknafélaginu fyrir að efna til þessa þings og sömuleiðis öllum þeim sem hér koma fram og leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn tóbaksnotkun og skaðlegum afleiðingum þeirra fyrir einstaklinga og samfélag.  

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum