Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ársfundur Vinnumálastofnunar 2011

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársufundi Vinnumálastofnunar
16. nóvember 2011

Góðir gestir.

Mikið vatn er til sjávar runnið frá því að forveri minn, þá í sæti félagsmálaráðherra, sagði á ársfundi Vinnumálastofnunar árið 2009 að skera þyrfti upp herör gegn atvinnuleysi og efna til þjóðarátaks gegn langtímaatvinnuleysi. Atvinnuleysi var á þessum tíma um 7,6% miðað við 1,9% á sama tíma árið á undan en þess má geta að nú er það um 6,8% að meðaltali sem þýðir að um 10.900 manns eru án atvinnu. 

Við glímum enn við mikið atvinnuleysi og munum gera áfram um sinn. Langtímaatvinnuleysi er því miður orðinn bitur raunveruleiki hjá hópi fólks. Í liðnum mánuði höfðu um 6.670 einstaklingar verið án atvinnu lengur en í sex mánuði og þeir sem verið höfðu án atvinnu lengur en í heilt ár voru um 4.500.

Atvinnuleysi er eins og jafnan meira meðal ungs fólks en fullorðinna. Alls voru 1.884 ungmenni án atvinnu í lok október sem er um 16% af heildafjölda atvinnulausra.

Ég þarf ekki að fjölyrða um tölulegar staðreyndir atvinnuástandsins á þessum fundi. Stjórnendur og annað starfsfólk Vinnumálastofnunar þekkir þessar upplýsingar betur en allir aðrir og það sem meira er um vert, aðstæður fólksins að baki tölunum.

Stundum er sagt að engum sé bót í annars böli og það má til sanns vegar færa. Það verður þó ekki hjá því litið að atvinnuleysi í löndum Evrópu er víðast meira en hér, efnahagsástandið í heiminum er erfitt og fyrir það þurfum við öll að gjalda.

Þrátt fyrir alla erfiðleika tel ég að við getum verð stolt af því hvernig við höfum tekist á við erfitt ástand, ekki síst til að mæta aðstæðum atvinnuleitenda og það hefur raunverulega tekist að hrinda í framkvæmd því þjóðarátaki sem forveri minn boðaði haustið 2009. Starfsfólk Vinnumálastofnunar hefur borið hitann og þungann af skipulagi og framkvæmd þeirra fjölmörgu verkefna sem byggð hafa verið upp til að skapa atvinnulausu fólki raunhæf og verðug verkefni til þess að nýta krafta sína, viðhalda virkni og byggja sig upp með aukinni reynslu og þekkingu þegar betur fer að ára. Fjölbreytt vinnumarkaðsúrræði og átaksverkefni fyrir atvinnuleitendur hafa skipt sköpum fyrir fjölda fólks.

Átakið ungt fólk til athafna sem hófst í ársbyrjun 2010 er gott dæmi um flott verkefni sem hefur gert fjölda ungra atvinnuleitenda kleift að vera virkur með þátttöku í námi, starfsþjálfun, ýmsum störfum, þar með töldum sjálfboðaliðastörfum og atvinnutengdri endurhæfingu. Úttekt Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á verkefninu sýnir að það hefur tekist afar vel og er gott og raunhæft svar við atvinnuleysi meðal ungs fólks.

Átakið ÞOR – þekking og reynsla sem hófst um mitt síðasta ár beinist að aldurshópnum 29–70 ára og er markmiðið að virkja þann hóp einstaklinga sem hafa verið án atvinnu í þrjá mánuði eða lengur. Við framkvæmd verkefnisins hefur verið leitað samstarfs við fjölda fræðsluaðila, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka um virkniúrræði auk þess sem Vinnumálastofnunin hefur leitað til símenntunardeilda háskólanna um möguleika þess að nýta krafta þeirra í þágu atvinnuleitenda.

Verkefnið Nám er vinnandi vegur tel ég vera algjört tímamótaverkefni. Rúmlega 1.100 atvinnuleitendur hófu nám í haust á grundvelli átaksins og rúmlega 1.000 ungmenni yngri en 25 ára skráðu sig í framhaldsskóla í tengslum við það. Að samningnum standa stjórnvöld, framhaldsskólar og háskólar og gildir hann fyrir árin 2011–2014. Áætluð útgjöld ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu tímabili nema tæpum 7 milljörðum króna.

Í farvatninu er mikilvægt samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga um sérstök atvinnutorg þar sem markmiðið er að ná til ungs fólks sem er hvorki í vinnu né námi. Hefur velferðarvaktin meðal annars bent á að þessi hópur sé sérstaklega berskjaldaður gagnvart afleiðingum kreppunnar. Í upphafi er áætlað að atvinnutorgum verði komið á fót í Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ og á Suðurnesjum og er áætlað að verkefnið nái til rúmlega 400 einstaklinga í þessum sveitarfélögum. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka samstarf og samfellu í þjónustu Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við ungt fólk án atvinnu án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Enn fremur er verið að vinna að nýju átaki um hvernig fjölga megi starfsþjálfunarúrræðum og þá einkum fyrir langtímaatvinnulausa því reynslan hefur kennt okkur að starfstengd vinnumarkaðsúrræði skila atvinnuleitendum best að markmiðum sínum um að fá aftur starf við hæfi. Vænti ég þess að þetta átak líti dagsins ljóss þegar í upphafi næsta árs.

Verkefnin sem ég hef nefnt hér hafa öll krafist samstarfs fjölmargra aðila og það er augljóst að margir hafa viljað leggjast á árarnar. Samstarf hefur verið þvert á ráðuneyti, milli stjórnsýslustiga, sveitarfélögin hafa verið virk, stéttarfélög, atvinnurekendur, félagasamtök, og skólar, einkaskólar og opinberir skólar, framhaldsskólar og háskólar. Þetta kalla ég þjóðarátak.

Samstarf ólíkra samstarfsaðila hefur yfirleitt gengið mjög vel og leitt af sér ýmis konar þróunarstarf sem við munum búa að í framtíðinni. 

 

Góðir fundarmenn.

Í tengslum við gerð kjarasamninga í vor var gefin út yfirlýsing stjórnvalda þar sem þau skuldbundu sig til að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Þar var jafnframt kveðið á um að ráðist yrði í sérstakt tilraunaverkefni þar sem stéttarfélögin yrðu helstu veitendur þjónustunnar með það að markmiði að bæta þjónustu við atvinnuleitendur hvað varðar vinnumiðlun og vinnumarkaðsúrræði.

Það eru einkum Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sem hafa sótt þetta fast og telja sig geta gert betur en hið opinbera fær áorkað með sínu skipulagi og starfi. Ég ætla ekki að leggja dóm á það hér að óreyndu. Þátttaka þeirra í starfi sem miðar að aukinni þjónustu við atvinnuleitendur tel ég þó að sé af hinu góða en er þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi undir öllum kringumstæðum að annast framkvæmd atvinnuleysistrygginga og alla stjórnsýslu málaflokksins og utanumhald. Eins og ég hef áður sagt tel ég að Vinnumálastofnun og allt starfsfólk hér hafi staðið sig geysilega vel við ótrúlega erfiðar aðstæður þegar atvinnuleysið rauk hér upp haustið 2008 og hefur síðan verið viðvarandi. Það er mikilvægt að hafa hugfast að vinnumarkaðsmál eru mikilvægur þáttur velferðarkerfisins þar sem stjórnvöldum ber að hafa skýra sýn og stefnu og vera fær um að hrinda henni í framkvæmd.

Í tengslum við kjarasamningana í vor voru atvinnuleitendum tryggðar hækkanir samsvarandi hækkunum á almennum vinnumarkaði. Grunnatvinnuleysisbætur voru hækkaðar um 12.000 krónur og í júní var greidd 50.000 króna eingreiðsla til atvinnuleitenda sem voru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tilteknu tímabili. Aðrir fengu hlutfallslega uppbót. Loks var ákveðið að tryggja atvinnuleitendum desemberuppbót, 30% af grunnatvinnuleysisbótum, auk 15.000 króna álags í samræmi við álag á desemberuppbót launafólks á almennum vinnumarkaði. Desemberuppbótin í næsta mánuði verður því 63.457 krónur.

Ég hef ekki enn minnst á hvað gert verður varðandi bráðabirgðaákvæði um hlutabætur og lengingu bótatímabils samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur en gildistími þessara ákvæða rennur út um áramótin.

Vinnuhópur þar sem í eiga sæti meðal annars fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa verið að skoða þessi atriði og má vænta niðurstöðu á næstu dögum. Enn fremur liggja fyrir drög að tillögum hópsins að eins konar aðgerðapakka sem ætlað er að tryggja aukna virkni atvinnuleitenda og um leið auka líkur þeirra á að fá störf við hæfi. Þar er ekki hvað síst lögð áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu við þá atvinnuleitendur sem lengst hafa verið án atvinnu, lengri tími í starfstengd úrræði og tímabundnir ferðastyrkir.

 

Gott fólk.

Ég veit að mikið mæðir á ykkur, verkefnin eru óþrjótandi, þau eru vandasöm og örugglega eru störf ykkar ekki alltaf þökkuð sem skyldi. Ég geri mér grein fyrir að þau verkefni sem ég taldi hér upp áðan hefðu sem dæmi ekki verið unnin hefði ekki komið til jákvæðni ykkar og dugnaður við að bregðast við svo koma mætti verkefnum í framkvæmd og þá oftar en ekki með skömmum fyrirvara. Ég vil því nota tækifærið og koma þakklæti mínu á framfæri við ykkur sem hér eruð samankomin. Vinnumálastofnun er öflug og vel rekin velferðarstofnun sem mikilvægt er að hlúa vel að þannig að hún geti veitt þá mikilvægu þjónustu í samfélaginu sem henni er ætluð.

Merkisáfangi varð í lífi stofnunarinnar í vor þegar starfsstöðvar og starfsfólk stofnunarinnar á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust undir einu þaki hér í Kringlunni. Það er augljóst að hér fer vel um starfsfólk og þá sem hingað leita og það er að sjálfsögðu mikilvægt. Án efa hefur sameining starfseminnar á einum stað margvíslega kosti sem eflir og bætir stofnunina sem heild og þar með starfsemina sjálfa.

Ég óska þess að ársfundurinn verði góður og fróðlegur og að hér gefist gott tóm til að líta yfir farinn veg og einnig að horfa til framtíðar.

- - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum