Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Heilbrigðismál-Frettir

Alþjóðlegur baráttudagur gegn krabbameinum

 Grein Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Birt í Fréttablaðinu 4. febrúar 2012


Beitum öllum tiltækum vopnum í baráttu gegn krabbameinum

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraAlþjóðlegur dagur baráttu gegn krabbameinum er í dag, 4. febrúar, haldinn ár hvert samkvæmt ákvörðun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Sú ákvörðun er ekki að ástæðulausu því krabbamein er eitt algengasta dánarmeinið í veröldinn og hefur verið áætlað að á árunum 2005-2015 felli það um 84 milljónir manna í valinn. 

Sameinuðu þjóðirnar beina sjónum í vaxandi mæli að svokölluðum ósmitnæmum sjúkdómum sem vaxandi heilsufarsvanda vegna þess hve mjög þeir eru í sókn og herja á þjóðir heims eins og faraldur. Reykingar og önnur tóbaksnotkun á ríkan þátt í útbreiðslu þessara sjúkdóma en helstir þeirra eru hjarta- og æðasjúkdómar, lungna- og öndunarfærasjúkdómar og krabbamein. Á fundi Sameinuðu þjóðanna síðastliðið haust var samþykkt yfirlýsing um aðgerðir í baráttunni gegn langvinnum sjúkdómum sem felur í sér mikilvæga áminningu, aðvörun og leiðbeiningar til þjóða heims um að berjast gegn þessu risavaxna vandamáli.

Árangursríkar forvarnir

Við eigum mörg vopn í baráttunni gegn krabbameinum og eigum að beita þeim öllum á markvissan hátt, því sókn er besta vörnin. Forvarnir skipta miklu máli sem sést gleggst á því hvað dregið hefur úr nýgengni lungnakrabbameins og dánartíðni lækkað samhliða hröðu undanhaldi reykinga. Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið hér á landi, bæði hjá konum og körlum en talið er að um 90% lungnakrabbameina megi rekja til reykinga.  

Staðreyndirnar sýna svo ekki verður um villst að lungnakrabbamein hefur sterk tengsl við lífshætti fólks og einfaldasta og skilvirkasta vörnin gegn því er að nota ekki tóbak.

Sortuæxli er annað krabbamein sem hefur sterk tengsl við lífsstíl og sótti mjög á þegar ljósabekkjanotkun varð snar þáttur í lífi margra landsmanna á síðustu áratugum liðinnar aldar. Árið 2004 var ráðist í átakið Hættan er ljós en þá voru sortuæxli algengasta krabbameinið hjá ungum konum og næstalgengast hjá ungum karlmönnum. Fræðsla og aukin vitund fólks um skaðsemi ljósabekkja hefur skilað árangri og eins má geta þess að árið 2010 var lagt bann við notkun þeirra fyrir börn yngri en 18 ára. Nýjustu tölur úr Krabbameinsskrá sýna að verulega hefur dregið úr nýgengi sortuæxlis og er það rakið til minni notkunar ljósabekkja og ábyrgari hegðunar fólks í sólinni.  

Bólusetning gegn leghálskrabbameini

Síðastliðið haust hófust bólusetningar stúlkna gegn HPV veirunni sem getur valdið leghálskrabbameini og verða 12 ára stúlkur framvegis bólusettar árlega. Talið er að með almennri bólusetningu megi koma í veg fyrir um 60-70% leghálskrabbameins og um 40% alvarlega forstigsbreytinga þess. Ávinningurinn er mikill þótt hann komi ekki strax í ljós þar sem leghálskrabbamein myndast um 20-30 árum eftir HPV sýkingu. Því er mikilvægt að konur fylgi áfram þeim tilmælum sem nú eru í gildi um krabbameinsleit og mæti til skoðunar hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands sem konur eru boðaðar í reglulega. Þar fer einnig fram skimun fyrir brjóstakrabbameini sem er ekki síður mikilvægur þáttur þjónustunnar sem Krabbameinsfélagið veitir og konur eru hvattar til að nýta sér. 

Framfarir í krabbameinslækningum

Almennt gildir um krabbamein að því fyrr sem meinið finnst þeim mun betri eru batahorfur fólks. Miklar framfarir hafa orðið í krabbameinslækningum á liðnum árum og áratugum og sífellt vinnast nýir sigrar á því sviði. Hér á landi stöndum við vel að vígi, árangur í krabbameinslækningum er almennt mjög góður í samanburði við aðrar þjóðir, þökk sé traustu heilbrigðiskerfi og framúrskarandi fagfólki sem vinnur störf sín af metnaði og einbeittum vilja til þess að gera sífellt betur. 

Í liðinni viku urðu þau tímamót á Landspítala að þar var framkvæmd í fyrsta skipti hér á landi, aðgerð vegna meðferðar við blöðruhálskirtilskrabbameini með svokallaðri innri geislun. Hingað til hefur þurft að senda sjúklinga til Svíþjóðar í slíka meðferð og það er því afar kærkomið að nú sé hægt að sinna þeim hópi sjúklinga sem í hlut eiga hér heima. 

Alþjóðlegur samanburður

Nýjasta skýrsla OECD um heilbrigðismál, OECD Health at a Glance sýnir að Ísland stendur á flestum sviðum vel í samanburði við þau 34 lönd sem aðild eiga að stofnuninni. Þetta á ekki síst við um forvarnir og meðferð vegna krabbameina þar sem við erum í fremstu röð. Við getum verið stolt af þeim árangri en þurfum áfram að vaka á verðinum og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sporna við útbreiðslu krabbameina með því að sækja fram ótrauð.

 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum