Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Opið hús hjá Embætti landlæknis

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Opið hús hjá Embætti landlæknis 2. mars 2012.


Góðir gestir.

Ég býð ykkur öll velkomin hingað um leið og ég þakka landlækni og starfsfólki embættisins fyrir að opna dyr sínar fyrir okkur og kynna þá margvíslegu starfsemi sem hér fer fram.

Þann 30. mars 2011 voru samþykkt á Alþingi lög um landlækni og lýðheilsu og þar sem rann saman í eina stofnun embætti landlæknis og Lýðheilsustöð. Þetta voru miklar breytingar sem kölluðu á mikinn undirbúning og skipulagningu til að tryggja öllum verkefnum viðeigandi umgjörð og sess hjá nýrri stofnun.

Það var að mínu mati einstaklega ánægjulegt og viðeigandi að nýtt og sameinað embætti skyldi fá stað í þessu virðulega og sögufræga húsi hér í hjarta höfuðborgarinnar. Húsið er í sjálfu sér listaverk, enda teiknað af listamanni; Einari Sveinssyni arkitekt. Það er raunar ekki tilviljun að þessi dagur skyldi valinn fyrir opið hús, því það var einmitt 2. mars fyrir 55 árum sem Heilsuverndarstöð Reykjavíkur var vígð og tók til starfa í þessu fallega húsi hér við Barónstíg 47.

Eins og Geir Gunnlaugsson landlæknir bendir á í grein sem birtist í Læknablaðinu í fyrra ber byggingin vitni um meðvitund stjórnvalda á þeim tíma um mikilvægi forvarna og lýðheilsu en Heilsuverndarstöðin var miðstöð heilsuverndar í Reykjavík. Og Geir bendir á að nú gefist sögulegt tækifæri til að efla í þessu húsi starfið sem þeir frumkvöðlar sem að byggingunni stóðu árið 1950 dreymdi um og lögðu grunninn að. Undir þetta tek ég heilshugar.

Eins og þið öll vitið sem þekkið lög um embætti landlæknis og lýðheilsu er hlutverk embættisins einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustu í landinu í víðum skilningi. Meðal helstu verkefna er fræðsla og ráðgjöf gagnvart öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi, forvarnir og heilsueflingarverkefni, lýðheilsustarf, gæðaþróun, eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, eftirlit með lyfjaávísunum og lyfjanotkun, ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu, að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu og enn er sitthvað ótalið.

Nú um mánaðamótin bættist við enn eitt stórverkefnið þegar ákveðið var að fela Embætti landlæknis ábyrgð og yfirumsjón með öllum þáttum sem lúta að uppbyggingu, þróun og eftirliti með sjúkraskrá á landsvísu. Þessi ákvörðun felur einnig í sér að verkefni sem tengjast stjórnun, samhæfingu og framkvæmd rafrænnar sjúkraskrá og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar verða hjá Embætti landlæknis. Þetta er ákvörðun sem ég tók í samræmi við tillögur stýrihóps um upplýsingatækni. Þetta er gríðarstórt verkefni sem skiptir miklu máli að miði hratt og vel, því það er eitt af grundvallaratriðum vel rekins heilbrigðiskerfis að tryggður sé greiður aðgangur að vel og rétt skráðum upplýsingum um starfsemi og þjónustu. Þetta er nauðsynlegt á öllum tímum en við finnum það sérstaklega núna þegar óhjákvæmilegt hefur verið að ráðast í ýmsar skipulagsbreytingar vegna hagræðingar að okkur skortir upplýsingar á ýmsum sviðum til að byggja á við ákvarðanatöku. Ábyrgð á þessu stóra verkefni er með þessu færð frá velferðarráðuneytinu og yfir til Embættis landlæknis.

Samkvæmt lögum er starfræktur lýðheilsusjóður sem hefur það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf í landinu, jafnt innan embættisins sem starfsemi annarra aðila í samfélaginu sem að slíku starfi koma. Reglugerð um sjóðinn var staðfest um síðustu áramót en forveri hans var forvarnasjóður sem var úthlutað úr í síðasta sinn síðastliðið vor. Mig langar að nefna það hér að nýlega var gerð breyting á úthlutun styrkja af safnliðum sem áður var á hendi Alþingis. Ábyrgð á úthlutun þeirra hefur nú verið færð á hendur ráðuneytunum sem er góðra gjalda vert og velferðarráðuneytið er nú að ljúka vinnu vegna úthlutunar samkvæmt breyttum reglum í fyrsta sinn. Aftur á móti sé ég vel fyrir mér að Embætti landlæknis í tengslum við lýðheilsusjóð gæti gegnt mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar og fengið ábyrgð á ráðstöfun þessara fjármuna að hluta til eða öllu leyti. Þetta tel ég að gæti fallið vel að þeirri þekkingu sem hér er þegar fyrir hendi í tengslum við sjóðinn og orðið til þess að efla og styrkja starfsemina.

Góðir gestir.

Það er almennt mikil virðing borin fyrir Embætti landlæknis, fólk hefur til þess miklar væntingar og gerir jafnframt miklar kröfur. Fólk sér í embættinu verndara sinn og umboðsmann gagnvart heilbrigðiskerfinu sem tryggir öryggi og gæði þjónustunnar og grípur í taumana þegar eitthvað fer úrskeiðis. Þetta höfum við séð glöggt í tengslum við PIP brjóstapúðamálið sem allir þekkja. Þetta mál hefur reynst erfitt og raunar miklu umfangsmeira en virtist í fyrstu. Það snýst ekki einvörðungu um þá skýru kröfu sem fram kom um viðbrögð og aðgerðir af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að taka á málinu og tryggja hagsmuni og heilsufarsöryggi þeirra kvenna sem í hlut eiga. Þetta er enn stærra mál því það hefur vakið upp margvíslegar spurningar sem snúa að eftirlitshlutverki Embættis landlæknis, ekki síst gagnvart heilbrigðisþjónustu sem veitt er á einkareknum stofum, án greiðsluþátttöku hins opinbera og er jafnvel á jaðri þess að teljast heilbrigðisþjónusta í faglegum skilningi þótt hún sé það lagalega.

Í tengslum við þetta mál ákvað ég að stofna ráðgjafahóp til að fara í saumana á faglegum þáttum í starfsemi einkarekinna læknastofa og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefur. Það er alveg ljóst að heilbrigðisyfirvöldum er skylt að sinna eftirliti með gæðum allrar heilbrigðisþjónustu í landinu. Þá verður líka að vera tryggt að eftirlitsaðilar hafi aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru til að sinna því á fullnægjandi hátt – en ég verð að segja að viðbrögð lýtalækna og raunar Læknafélagsins í þessu máli varðandi afhendingu upplýsinga og gagna til Embættis landlæknis hafa valdið mér furðu og vonbrigðum.

Ýmsum spurningum þarf að svara varðandi innflutning og notkun á lækningavörum, hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra, örugga og samræmda skráningu, upplýsingagjöf til eftirlitsaðila og margt fleira. Athugun á þessum þáttum er viðfangsefni ráðgjafahópsins sem ég nefndi áðan og Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari leiðir.

Síðustu misseri hefur töluvert verið fjallað um fyrirkomulag eftirlits með velferðarþjónustu almennt og þörf fyrir að styrkja það og efla. Meðal hugmynda sem nú eru til skoðunar í velferðarráðuneytinu er að samræma á einum stað eftirlit með allri velferðarþjónustu. Þetta sé ég fyrir mér að gæti gerst á grundvelli laga um embætti landlæknis og lýðheilsu, það er að segja með því að víkka gildissvið laganna og þar með embættisins og koma á fót sjálfstæðri einingu innan þess sem bæri ábyrgð á eftirliti með velferðarþjónustu. Þetta er enn á umræðustigi og endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin. Mér virðist engu að síður að þetta sé raunhæf hugmynd sem vel getur orðið að veruleika ef rétt er á málum haldið.

Góðir gestir og gestgjafar.

Það er virkilega ánægjulegt og fróðlegt að koma hingað og ég þakka Embætti landlæknis kærlega fyrir að bjóða okkur í heimsókn hingað á Barónsstíginn og kynna starfsemina. Verkefni ykkar hjá embættinu eru mörg og stór og afar mikilvæg fyrir samfélagið. Líkt og aðrir ber ég mikið traust til Embættis landlæknis og hef jafnframt miklar væntingar til starfseminnar sem ég er ekki í vafa um að embættið rís undir með sóma.

- - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum