Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Stórfundur um mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í heilbrigðismálum

Ávarp ráðherra á vinnufundi um mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í heilbrigðismálum
9. mars 2012
 


Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

Ágætu þátttakendur

Ég vil byrja á að þakka fyrir komu ykkar til þessa fundar og auðsýndan vilja til þátttöku í umfangsmikilli vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar sem nú stendur yfir.

Þetta eru síður en svo einföld verkefni sem þátttakendum í þessum fundi er ætlað að fást við, en þá er einmitt kosturinn að hér er fjölmennur hópur fólks, eflaust með sterkar skoðanir og fjölbreytta þekkingu og sýn á viðfangsefnið.

Verkefnin hér í dag snúa í fyrsta lagi að því að skilgreina meginmarkmið nýrrar heilbrigðisáætlunar fyrir 29 málaflokka sem falla undir heilbrigðismál. Þetta eru málaflokkar sem lúta einkum að lýðheilsu, heilbrigðisþjónustu og öryggi og gæðum þjónustunnar. Í öðru lagi að setja fram tillögur að mælanlegum markmiðum undir hverju meginmarkmiði og í þriðja lagi að leggja fram tillögur að aðgerðum til að ná markmiðunum.

Meginmarkmiðin eiga að endurspegla þá framtíðarsýn sem við höfum í viðkomandi málaflokki, mælanlegu markmiðin eru vörður á vegi og nýtast til að meta hvernig okkur miðar í átt að framtíðarsýninni. Aðgerðirnar snúast um framkvæmdir, þ.e. öll þau verkefni sem við ætlum að vinna að og til að hrinda markmiðunum í framkvæmd.

Niðurstöður vinnunnar hér í dag verða hryggjarstykkið í heilbrigðisáætlun sem ég mun leggja fyrir Alþingi Íslendinga næsta haust. Markið er þó sett enn hærra, því vilji minn stendur til þess að mótaðar verði stefnur í öllum helstu málaflokkum sem heyra undir velferðarráðuneytið og þær birtar í heildstæðri velferðarstefnu sem stefnt er að því að taki gildi árið 2015. Af þessum ástæðum er lögð áhersla á að aðgerðir sem lagðar verða til í nýrri heilbrigðisáætlun hafi verið hrint í framkvæmd fyrir þann tíma.

Megintilgangurinn með heilbrigðisáætlun er að samþætta áherslur og forgangsverkefni í heilbrigðismálum í gegnum markmið og verkefni sem okkur er ætlað er að vinna að saman á markvissan hátt.  

Þið kannist eflaust flest við stefnu stjórnvalda um sókn fyrir atvinnulíf og samfélag sem ber heitið Ísland 2020. Sú stefna sem þar kemur fram byggist á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hefur verið unnið eftir henni í Stjórnarráðinu í eitt ár, eða frá því að hún var samþykkt af hálfu ríkisstjórnarinnar í kjölfar mikillar og vandaðrar vinnu sem byggðist á víðtæku samráði.

Við mótun stefnunnar Ísland 2020 var stuðst við það verklag að stefnum skuli fylgja aðgerðaáætlanir, að verkefnum skuli fylgja fjármagn og að tilgreina skuli framkvæmda- og ábyrgðaraðila, enn fremur að settir skuli fram mælikvarðar sem gera kleift að mæla árangur og síðast en ekki síst að verkefni skuli unnin í samvinnu við þá sem hlut eiga að málum.

Þetta er það vinnulag sem við viljum hafa við gerð heilbrigðisáætlunar. Mælanlegu markmiðin og verkefnin sem þeim fylgja þurfa því að ákvarðast af þvi hvort mælikvarðar séu til eða að sæmilega auðvelt sé að útbúa þá. Fimm af 20 mælikvörðum Ísland 2020 eru velferðartengdir auk þess sem nýlega hafa verið útbúnir fjölmargir félagsvísar að frumkvæði og undir forystu Velferðarvaktarinnar. Þetta ásamt fleiri mælikvörðum sem safnað hefur verið um heilsufar Íslendinga, meðal annars hjá embætti landlæknis, eru grunnurinn að því geta séð hvernig okkur miðar í þeirri viðleitni að bæta heilbrigði Íslendinga.

Einnig þarf að tryggja að aðgerðum og verkefnum fylgi nauðsynleg aðföng svo gerlegt sé að vinna þau. Því munum við kostnaðarmeta allar aðgerðir sem verða í heilbrigðisáætlun og í framhaldinu innleiða verkefnin í gegnum stofnanir ráðuneytisins og í samvinnu við aðra aðila.

Um leið og ég óska öllum góðrar og árangursríkrar samveru hér í dag vil ég minna á að stefna sem ekki fylgja framkvæmdir er lítils virði og oftast er það svo að verkefni krefjast fjármuna sem verður þá að tryggja. Ég vil því ítreka nauðsyn þess að kostnaðarmeta endanlega áætlun og að verkefnunum verður að fylgja fjármagn.

Enn og aftur, hafið kæra þökk fyrir að sjá af dýrmætum tíma ykkar til að vera hér í dag og gangi okkur vel með verkefni dagsins.  

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum