Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins
Greiningar- og ráðgjarfastöð ríkisins

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, 11. - 12. maí.
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Góðir ráðstefnugestir.

Heil og sæl öll, það er gott að sjá ykkur hér svo mörg á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar sem nú er haldin í 27. sinn. Ráðstefnan er með allra fjölmennasta móti og ánægjulegt að sjá áhuga fólks sem vinnur að málefnum barna með fatlanir  á því að sækja sér þekkingu og hafa með sér samráð um fagleg málefni.

Eins og fram kemur í dagskránni er vorráðstefnan stærsti faglegi vettvangur þeirra sem tengjast börnum með þroskafrávik og vinna að málefnum þeirra. Ég leyfi mér að fullyrða að fagleg þekking á þessu sviði er mikil hér á landi og gróska í starfinu. Frá upphafi hefur áhersla verið lögð á að ráðstefnan speglaði þá umræðu sem á sér stað í samtímanum. Því hefur metnaður verið lagður í fjölbreytni þar sem í boði eru fræðlegir fyrirlestrar og málstofur um hagnýt málefni jafnframt því sem vorráðstefnan hefur verið vettvangur fólks til að kynnast markverðum rannsóknar og þróunarverkefnum.  Ráðstefna sem þessi þjónar líka hlutverki sem hugmyndadeigla og samskiptatorg líkt og fylgir óformlegum samskiptum þar sem fagfólk úr ólíkum stéttum, úr öllum landshlutum hittist til skrafs og ráðagerða og ber saman bækur sínar.

Eftirspurn eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hefur aukist mikið á liðnum árum sem sést á því að tilvísanir barna voru um 200 um aldamótin en hafa síðustu ár verið hátt á fjórða hundrað á ári. Tilvísunum til annarra sérhæfðra stofnana eins og Barna- og unglingageðdeildarinnar og Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur einnig fjölgað nokkuð ört.

 

Þessi vaxandi þörf fyrir greiningu og þjónustu er á margan hátt umhugsunarverð, hvort sem við veltum fyrir okkur ástæðunum að baki eða því hvernig við tökumst á við þau verkefni að annast greininguna fljótt og af öryggi  og einnig hvernig hægt sé að tryggja þjónustu við hæfi.

Fjölgun tilvísana  barna til greiningar hefur verið lang mest vegna raskana á einhverfurófi. Slíkar raskanir eru mun algengari en áður var talið. Það skýrist eflaust fyrst og fremst af betri þekkingu á vandanum og eins vitneskju um hvaða afleiðingar þessar raskanir geta haft fyrir viðkomandi til framtíðar ef ekkert er að gert, þar sem þær geta leitt til geðraskana eða verulegrar skertar getu. Fjölgun þeirra sem vísað er til greiningar  þarf því alls ekki að vera vísbending um neikvæða þróun, heldur má miklu heldur líta á þetta sem forvarnarstarf sem leitt getur til þess að  framtíðarhorfur og möguleikar þeirra sem í hlut eiga til sjálfstæðis og betra lífs á fullorðinsárum verða meiri en ella. 

Á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar fyrir ári gerði ég að umtalsefni flutning ábyrgðar á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga sem þá hafði nýlega átt sér stað, ræddi um hugmyndafræðina að baki þessari breytingu og þær vonir sem ég held að við bindum öll við hana varðandi bætta þjónustu til lengri tíma litið.

Ég held að við horfum öll til þess að veita skuli þjónustu í sem mestum mæli í nærumhverfi þeirra sem á henni þurfa að halda. Þessi hugmyndafræði hefur átt vaxandi fylgi að fagna á flestum sviðum velferðarþjónustu síðustu ár og áratugi og þróunin hefur öll verið í þá átt. Vægi stofnanatengdra úrræða hefur minnkað. Reynt er að veita fólki þjónustu, meðferð og stuðning í sínu venjulega umhverfi eins og kostur er í stað þess að slíta það úr tengslum við daglegan veruleika með innlögn á stofnun.

Eins og ég sagði hér fyrir ári tel ég líklegt að þessar áherslubreytingar muni leiða til ákveðinna breytinga hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni. Annars vegar með auknum kröfum til hennar á sviði ráðgjafar, rannsókna og fræðslu og vegna samstarfs við tilvísendur og þjónustuaðila í nærumhverfi barna og fjölskyldna sem þurfa á þjónustu og stuðningi að halda. Hins vegar með því að stöðin haldi áfram að styrkja sig í sessi sem þriðja stigs þjónustustofnun og annist ekki beina þjónustu við börn þegar fært er að veita þeim þjónustu í nærumhverfinu. Uppbygging á sérhæfðri miðlægri þjónustu byggist á þessari hugsun og þar með áherslan á heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga sem fyrsta viðkomustað þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Þaðan er fólki síðan vísað í sérhæfðari þjónustu eftir þörfum.  

Við þurfum að styrkja framkvæmd þessa skipulags og hugmyndafræðina sem snýr að því að veita þjónustu á fyrsta, öðru og þriðja þjónustustigi eftir því sem það á við. Í því skyni tel ég nauðsynlegt að auka vægi  sérfræðiþjónustu sveitarfélaga um allt land. Það á að nýta greiningarvinnuna sem þar fer fram til að þjónusta þau börn sem í hlut eiga og til að stýra fjármagni og mönnun í samræmi við þörf fyrir þjónustu frekar en eftir greiningarflokkum.

Við eigum að skerpa hlutverk þjónustu   milli fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu og tryggja þannig að þjónusta við einstaklinga sé veitt á réttum forsendum á réttum tíma og réttum stað og að flæði milli þessara þriggja þjónustustiga sé tryggt. Fagfólk á hverjum stað á að fást við þau verkefni sem það kann best og gerir best í ljósi sérþekkingar sinnar og reynslu. Þannig tryggjum við hagsmuni notenda og stuðlum jafnframt að markvissri uppbyggingu þekkingar og reynslu þar sem hún nýtist best.

Ég velti því fyrir mér hvort við eigum að endurvekja hugmynd um landshlutateymi sem myndi ráða yfir meiri þekkingu og reynslu en vænta má að verði fyrir hendi í einstökum sveitarfélögum eða þjónustusvæðum. Sveitarfélögin gætu lagt til sérfræðinga sem þá væru í flestum tilvikum búnir að koma að málum hlutaðeigandi barna, en á móti legði ríkið til sérfræðinga – hugsanlega í tengslum við heilbrigðisstofnanirnar sem myndu styrkja starfið enn frekar. Með þessu móti væri  hægt að tryggja þverfaglega greiningar- og ráðgjafarþjónustu sem væri aðgengileg í eða nærri heimabyggð og gæti orðið til þess að leiða mál til lykta án suðurferðar.

Góðir gestir.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur ekki frekar en aðrar stofnanir farið varhluta af samdrættinum í fjármálum ríkisins. Stjórnendur og starfsfólk stofnana finna að sjálfsögðu fyrir þessu og þurfa að beita mikilli útsjónasemi í daglegum rekstri og vinnuálagið er mikið. Ég hef hins vegar veitt því athygli hve fólk er reiðubúið að leggja mikið á sig og sýnir mikinn metnað í því að slaka ekki á faglegum kröfum og gera allt sem hægt er til þess að skerða ekki þjónustu við notendur. Þetta er afar mikils virði og verður seint fullþakkað.

Þótt efnahagsþrengingar síðustu ára hafi reynt á þolrifin þá tel ég líka að erfiðar aðstæður hafi orðið okkur hvatning til að sjá ýmis mikilvæg mál í víðara samhengi en áður og finna nýjar leiðir að lausnum þeirra verkefna sem við er að etja hverju sinni.

Burt séð frá kreppu og erfiðu efnahagsástandi þá er það verkefni okkar til framtíðar í velferðarkerfinu að finna og þróa leiðir til að mæta þörf fólks fyrir margvíslega þjónustu á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Þá er mikilvægt að festast ekki í ákveðnu skipulagi, heldur að vera sífellt vakandi fyrir því hverju má breyta, hvað má bæta og hvernig megi ná sem mestum árangri með sem minnstum tilkostnaði.

Það er stundum talað um hve dýrkeypt það getur verið að aðhafast ekki – það að gera ekki neitt. Um þetta verður væntanlega rætt í dag í tengslum við mikilvægi íhlutunar og ég er ekki í vafa um að snemmbær íhlutun gagnvart börnum sem eiga við erfiðleika að etja, samhliða stuðningi við fjölskyldur þeirra, skiptir öllu máli. Að greina vandann fljótt og bregðast strax við og á viðeigandi hátt frekar en að bíða og sjá hvað setur. Ef við byggjum á þessari hugsun held ég að við náum mestum árangri, hvort sem við horfum á hagsmuni einstaklinganna sjálfra eða samfélagsins.

Allt þetta og margt fleira verður fjallað um hér á eftir af fagfólki og sérfræðingum á þessu sviði. Þetta verður án efa fróðleg og gagnleg ráðstefna að vanda. Ég óska ykkur fræðandi og ánægjulegra daga og velfarnaðar starfi.

- - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum