Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri

Anna Lilja Gunnarsdóttir
Anna Lilja Gunnarsdóttir

Ávarp Önnu Lilju Gunnarsdóttur, ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins.
Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri 23. maí 2012

Góðir ársfundargestir; starfsfólk FSA. 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ætlaði að vera með ykkur hér í dag. Því miður reyndist það ekki mögulegt en hann bað mig fyrir góðar kveðjur til ykkar og þakklæti fyrir öflugt starf hér á sjúkrahúsinu á erfiðum tímum samdráttar og mikils vinnuálags.

Það er augljóst að starfsfólk og stjórnendur sjúkrahússins eru samhent í störfum sínum. Sjúkrahúsið hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu misserum. Vinnuferlar hafa verið endurskoðaðir, unnin hefur verið metnaðarfull stefna um starfsemi sjúkrahússins og í tengslum við það gerðar breytingar á skipuriti. Hér hafa líka orðið forstjóraskipti en Bjarni Jónasson tók við því vandasama starfi fyrr á þessu ári, settur til eins árs í stað Halldórs Jónssonar sem nú er í námsleyfi – og ný framkvæmdastjórn tók til starfa með nýjum forstjóra.

Það er mikil vinna að setja stórum vinnustöðum með flókna starfsemi skýra stefnu, vel skilgreind markmið og mælikvarða um árangur. Stefnumótunarvinnan krefst mikils af þátttakendum en segja má að þegar stefnan sjálf liggur fyrir, þá hefst vandasamasti þátturinn, þ.e. að innleiða stefnuna þannig að hún verði eðlilegur þáttur í daglegu starfi allra og hluti af menningu vinnustaðarins. Árangursrík stefna krefst þess að á bak við hana sé öflug liðsheild starfsfólks sem er meðvitað um markmiðin og keppir að þeim saman með framtíðarsýnina að leiðarljósi.

Þið getið verið stolt af þeirri stefnu sem hér hefur verið mótuð, með starfsgildin öryggi – samvinnu og framsækni að leiðarljósi og framtíðarsýn um Sjúkrahúsið á Akureyri sem miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi með alþjóðlega vottaða starfsemi.

Markmið og áhersluþættir fyrir árin 2012–2013 eru í góðu samræmi við þær aðstæður sem við búum við, þar sem leggja þarf áherslu á skilvirkni, ráðdeild og framsýni en jafnframt að setja öryggi og gæði á oddinn og vinna markvisst að góðu samstarfi starfsfólks og starfsánægju á vinnustaðnum.

Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir veigamiklu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni sem annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa á landinu, að ógleymdu hlutverki þess sem kennslusjúkrahús og sem miðstöð sjúkraflugs í landinu. Sjúkrahúsið á Akureyri er þannig ein af grunnstoðum heilbrigðiskerfisins hér á landi og starfsemin er einnig mikilvæg út frá öryggis- og almannavarnahagsmunum.

Það er augljóst að álag hér á sjúkrahúsinu er mikið, eins og glöggt kemur fram í upplýsingum um starfsemina fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Sjúklingar voru 12% fleiri en miðað við sama tímabil í fyrra, 5% aukning í skurðaðgerðum og gífurleg fjölgun fæðinga sem reyndust 35% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Auðvitað gerir þetta miklar kröfur til ykkar á sama tíma og starfsemin hefur úr minni fjármunum að spila en áður.

Velferðarráðuneytinu er þetta ljóst og því var kærkomið að geta veitt 70 milljónir króna í lok síðasta árs til endurbóta á fæðingar- og kvennadeildinni hér, þar sem augljós þörf var fyrir hendi.

Góðir gestir.

Verkefni heilbrigðiskerfisins eru óþrjótandi og við þurfum sífellt að takast á við nýjar áskoranir til að tryggja öllum landsmönnum örugga og aðgengilega heilbrigðisþjónustu eftir því sem þörf krefur. Við höfum úr minna að spila en áður og því þarf stöðugt að finna nýjar leiðir til að fá sem mest fyrir hverja krónu.

Ykkur er eflaust flestum kunnugt um störf ráðgjafahóps sem velferðarráðherra setti á fót síðastliðið haust til að fjalla um skipulag heilbrigðisþjónustu og nýtingu fjármuna. Hópurinn naut liðsinnis alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group og skilaði tillögum til breytinga og úrbóta í október. Í stuttu máli sýndi greiningarvinnan að gæði heilbrigðisþjónustu hér á landi eru almennt mikil í erlendum samanburði og kostnaður sem hlutfall af landsframleiðslu sambærilegur við það sem gerist í öðrum Evrópuríkjum. Hins vegar eru ákveðnar brotalamir í kerfinu og ýmis tækifæri til breytinga sem geta falið í sér bætta þjónustu og betri nýtingu fjármuna.

Settir voru á fót níu vinnuhópar til að vinna nánar úr tillögum ráðgjafahópsins og útfæra þær. Eitt af viðfangsefnunum er hvernig megi innleiða þjónustustýringu milli heilsugæslu, sérgreinaþjónustu, göngudeilda og bráðamóttaka sjúkrahúsa líkt og almennt tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Hér held ég að við getum náð árangri, því eins og ráðgjafahópurinn benti á hefur gildandi fyrirkomulag valdið því að notkun sérgreinaþjónustu hefur aukist stöðugt og sömuleiðis heilsugæsluþjónusta þar sem boðið er upp á einkarekna vaktþjónustu utan dagvinnutíma. Kostnaður vegna sérgreinalækna hefur aukist um 7% frá árinu 2008 á sama tíma og útgjöld til flestra annarra þátta heilbrigðisþjónustu hafa dregist saman. Við verðum að stýra betur notkun þeirra úrræða sem við höfum í heilbrigðiskerfinu og sjá til þess að ekki séu notuð dýrari úrræði en nauðsyn ber til.

Á næstunni ættu að liggja fyrir niðurstöður vinnuhóps um heildstæða rafræna sjúkraskrá á landsvísu sem er gríðarstórt og mikilvægt verkefni og án efa undirstaða margvíslegra framfara í heilbrigðiskerfinu. Embætti landlæknis hefur þegar verið falin ábyrgð á samræmdri skráningu og birtingu heilbrigðis- og starfsemisupplýsinga, en á þessu sviði er algjörlega nauðsynlegt að gera stórt átak, því slíkar upplýsingar eru mikilvæg forsenda skynsamlegra ákvarðana um breytingar og úrbætur í heilbrigðiskerfinu.

Við höfum enn verk að vinna við sameiningu heilbrigðisstofnana, sjúkraflutningar þarfnast endurskipulagningar í samræmi við breyttar samgöngur og aðgang að heilbrigðisþjónustu, þörf fyrir skurðlækningaþjónustu og fæðingarþjónustu er eitt af því sem verður endurmetið og stefnt er að því að endurskoða greiðslufyrirkomulag heilbrigðisþjónustu til að auka sveigjanleika, hagkvæmni og skilvirkni. Vinnuhópur um sameiningu heilbrigðisstofnana er að leggja lokahönd á tillögur sínar og sömuleiðis vinnuhópur um skipulag sjúkraflutninga. Ráðuneytið mun kynna þessar niðurstöður eins fljótt og auðið er.

„Andstreymið afhjúpar snilldina sem velgengnin dylur“. Velferðarráðherra vitnar stundum til þessara orða rómverska skáldsins og heimspekingsins Hóratíusar sem standa í góðu gildi enn þann dag í dag, um það bil tvö þúsund árum síðar. Þetta hefur ráðherra bent á að sé lýsandi fyrir það hvernig stofnanir velferðarkerfisins, stjórnendur og starfsfólk hafa tekist á við erfiða tíma í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og undir það tek ég heilshugar.

Það er með ólíkindum hve vel hefur tekist að verja þjónustu við notendur velferðarkerfisins þrátt fyrir aðhald og niðurskurð. Ég nefni í þessu sambandi niðurstöður Euro Health Consumer Index árið 2012 sem voru kynntar á Evrópuþinginu í Brussel í liðinni viku en þar er Ísland í þriðja efsta sæti þeirra 34 landa sem úttektin náði til. Þessi vísitala notenda heilbrigðisþjónustunnar er orðin staðlaður mælikvarði á heilbrigðisþjónustu í Evrópu og hefur verið gefin út frá árinu 2005. Í niðurstöðunum kemur fram að íslenskir sjúklingar hafa mikil réttindi, eru vel upplýstir, biðtími eftir þjónustu er stuttur í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og árangur meðferðar er með því besta sem gerist í Evrópu. Við megum svo sannarlega vel una við þessar niðurstöður.

Þessar niðurstöður þykja benda til þess að neikvæð áhrif kreppunnar á heilbrigðisþjónustu hafi verið ofmetin. Hins vegar er bent á að vísitalan beini sjónum að þremur þáttum sem gefa verði sérstakan gaum í tengslum við erfitt efnahagsástand. Þetta er tilhneiging til lengri biðtíma eftir valaðgerðum í þeim ríkjum sem verst hafa orðið úti í kreppunni, tilhneigingu til aukinnar kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu og enn fremur að aðgengi að nýjum lyfjum standi í stað eða hafi jafnvel minnkað. Við þurfum að vera vakandi fyrir þessum ábendingum og hvernig við helst getum spornað við breytingum í þessa átt.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri en vil ítreka kveðjur velferðarráðherra til ykkar með þakklæti til starfsmanna fyrir öflugt og gott starf. Það er gott að vinna með ykkur og við í velferðarráðuneytinu treystum á áframhaldandi farsælt samstarf í þeim fjölmörgu og mikilvægu verkefnum sem framundan eru.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum