Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp velferðarráðherra á aðalfundi Búmanna 2012

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraÁvarp Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra
Aðalfundur Búmanna, 6. júní 2012

Góðir gestir.

Húsnæðismál eru í brennidepli, ekki aðeins hjá Búmönnum, heldur líka hjá stjórnvöldum, eins og ykkur er kunnugt um. Nú er ár liðið frá því að samráðshópur sem ég fól að móta drög að húsnæðisstefnu skilaði mér skýrslu sinni og tillögum sem formaður hópsins, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, kynnti á aðalfundi ykkar fyrir réttu ári. Í stuttu máli var þar skilgreint það meginmarkmið að með húsnæðisstefnu skuli tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum og sérstök áhersla lögð á að efla leigu- og búseturéttarkosti og stuðla að jöfnuði milli búsetuforma.

Síðastliðið ár hefur verið unnið með þann grunn sem samráðshópurinn lagði, til að útfæra nánar hugmyndafræði og tillögur sem þar voru kynntar. Unnið hefur verið að þessu í nokkrum vinnuhópum sem hver um sig hefur haft afmörkuð verkefni og fjallað um upptöku húsnæðisbóta, rekstrar- og skattaumhverfi leigufélaga, gerð opinberrar húsnæðisáætlunar, stóreflda og samræmda skráningu upplýsinga um húsnæðismarkaðinn og miðlun þeirra og loks endurskoðun húsaleigulaga og laga um húsnæðissamvinnufélög. Stefnt er að því að leggja fram frumvörp til breytinga á þessum lögum á Alþingi næsta haust. Síðast en ekki síst hafa lög um húsnæðismál verið endurskoðuð og er frumvarp til breytinga á þeim til meðferðar á Alþingi og verður að líkindum samþykkt fyrir þinglok.

Vinnuhópur um bætta öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál og húsnæðismarkaðinn skilaði vinnu sinni í febrúar síðastliðnum þar sem birt var meðal annars samantekt og greining á því hvaða upplýsinga er aflað reglubundið, hvar þær eru vistaðar og hvaða upplýsingaöflun þarf að bæta. Lagt er til að Íbúðalánasjóði verði falið að gera reglulega greiningu á húsnæðismarkaðnum í samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og velferðarráðuneytið. Þar verði meðal annars fjallað um lánakjör til almennings, verðþróun á fasteignamarkaði og leigumarkaði og þróun byggingakostnaðar og lóðaverðs greint eftir landshlutum og sveitarfélögum, umfang húsnæðisstuðnings ríkisins og fleira.

Vinnuhópur um húsnæðisbætur og aukið framboð leigu- og búseturéttaríbúða skilaði nýlega tillögum sínum og var töluvert fjallað um þær í fjölmiðlum, enda snúast þær um grundvallarbreytingar á núverandi fyrirkomulagi húsnæðisstuðnings. Miðað er við að tekið verði upp nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem tryggir öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi og leysi af hólmi núverandi kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta. Þannig á einu að gilda hvort fólk kýs að búa í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttaríbúðum, en í gildandi kerfi eru almennar húsaleigubætur mun lægri en vaxtabætur og uppbygging kerfanna ólík. Vinnuhópurinn leggur áherslu á einföldun stuðningskerfisins, meðal annars þannig að húsnæðisbætur taki mið af fjölskyldustærð, óháð aldri fjölskyldumeðlima, og verði að fullu greiddar úr ríkissjóði. Enn fremur er lagt til að húsnæðisbætur verði samtímagreiðslur og greiddar út mánaðarlega.

Það mun taka tíma að innleiða nýtt húsnæðibótakerfi en ég vonast til að það geti orðið á næstu fjórum árum. Breytingin er mikil og skipting fjármuna verður önnur en verið hefur þar sem þunginn hefur hingað til verið í vaxtabótakerfinu meðan aðrir hafa borið skarðan hlut frá borði. Þess vegna verðum við að gera þetta í áföngum en ég tel að með þessu fáum við mun sanngjarnara kerfi sem dregur úr mismunun og fjölgar raunhæfum valkostum fólks milli ólíkra búsetuforma.

Góðir fundarmenn.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þensluárin, falska góðærið í íslensku samfélagi, fasteignamarkaðinn sem tútnaði út og sprakk með svo eftirminnilegum hætti að seint mun gleymast, eða hrunið í heild haustið 2008. Við verðum hins vegar að tryggja að svona geti ekki gerst aftur og meðal annars þess vegna er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að stjórnvöld hafi á hverjum tíma skýra húsnæðisstefnu og byggi á áætlunum sem samræmast raunhæfum þörfum samfélagsins.

Sá vinnuhópanna sem ég nefndi áðan og falið var að útfæra tillögur um gerð húsnæðisáætlunar hefur nú skilað mér niðurstöðum sínum og skýrsla með tillögum hans ætti í þessum töluðu orðum að vera að birtast á vef ráðuneytisins. Lagt er til að stjórnvöld leggi fram húsnæðisáætlun á fjögurra ára fresti í samráði við hagsmunaaðila á húsnæðismarkaði. Áætluninni er ætlað að verða hluti af landsskipulagsstefnu og nýtast ríki og sveitarfélögum til að ná markmiðum sínum í húsnæðismálum með skynsamlegri og raunhæfri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við svæðisbundnar þarfir með hliðsjón af fólksfjöldaþróun, atvinnustefnu og annarra áhrifavalda.

Vinnuhópur sem skipaður var til að endurskoða rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðis- og leigufélaga mun skila niðurstöðum í þessum mánuði. Vinna þess hóps tekur þar með til húsnæðissamvinnufélaga, fasteignasjóða og einstaklinga sem vilja leigja út íbúðarhúsnæði. Tillögur hópsins verða kynntar um leið og þær liggja fyrir.

Síðast en ekki síst nefni ég hér frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi til breytinga á lögum um húsnæðismál. Samkvæmt frumvarpinu verður eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs aukið, skýrari skilyrði sett við lánveitingum til uppbyggingar leiguhúsnæðis og heimildir sjóðsins til lánveitinga vegna kaupa á dýru íbúðarhúsnæði þrengdar.

Lagt er til að lánveitingar Íbúðalánasjóðs til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði verði takmarkaðar við almenn lán til einstaklinga. Er þetta gert til samræmis við athugasemdir EFTA um að lánastarfsemi til fyrirtækja, svo sem byggingaverktaka, samræmist ekki hlutverki Íbúðalánasjóðs.

Þá er miðað við að lánveitingar til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka vegna byggingar eða kaupa á leiguíbúðum verði skilyrtar því að félögin séu ekki rekin í hagnaðarskyni og hafi það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Þessar kröfur eru taldar samræmast reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð og geta miðað að því að auka framboð af leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Með þessu móti verða lánveitingar vegna leiguíbúða og félagslegar lánveitingar færðar í einn flokk.

Loks er samkvæmt frumvarpinu miðað við að eitt af verkefnum Íbúðalánasjóðs verði að eiga og reka leigufélag með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði en að rekstur þess verði aðskilinn hefðbundnum rekstri sjóðsins.

Eins og þið heyrið er unnið að margvíslegum breytingum á húsnæðiskerfinu, þótt ég hafi hér aðeins stiklað á stóru og tæpt á helstu breytingunum sem áformaðar eru. Húsnæðismál eru stór og viðkvæmur málaflokkur sem skiptir allar fjölskyldur í landinu miklu máli. Við verðum því að vanda til verka, tryggja góða yfirsýn yfir málaflokkinn og hafa að leiðarljósi þá grundvallarsýn að landsmenn geti allir búið við öruggt og gott húsnæði og fengið til þess nauðsynlegan stuðning í samræmi við fjárhagslega getu og þarfir og óháð því hvaða búsetuform þeir kjósa.

Góðir Búmenn.

Ég þakka ykkur fyrir fundinn og óska ykkur velfarnaðar í framtíðinni.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum