Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Jafnlaunastaðall kynntur til sögunnar

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraÁvarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Grand hótel Reykjavík, 19. júní 2012

Góðir fundargestir.

Ég óska ykkur til hamingju með daginn og alveg sérstaklega með það að langþráð frumvarp að jafnlaunastaðli liggur nú fyrir og verður nú gert aðgengilegt hverjum þeim sem vilja kynna sér það og koma með athugasemdir og ábendingar.

Vinnan við gerð jafnlaunastaðalsins reyndist mun flóknari en ráð var fyrir gert en nú er hann að fæðast og ég bind miklar vonir við að hann eigi eftir að reynast öflugt tæki í baráttunni við launamisrétti kynnanna. 

Jafnréttisbarátta er stöðug barátta

19. júní verður manni gjarna tilefni til að rifja upp sögu jafnréttisbaráttunnar á Íslandi sem er svo sannarlega áhugaverð og fróðlegt fyrir fólk að þekkja. Ég ætla þó ekki að ræða söguna í löngu máli hér, til þess gefst ekki tími, en í stuttu máli má skipta kaflaskipta henni í baráttu gegn formlegu og lagalegu misrétti gagnvart konum, áföngum til að leiðrétta þetta og færa konum sjálfsögð mannréttindi og lýðréttindi til jafns við karla – og loks er það barátta síðustu áratuga um að ná fram raunverulegu jafnrétti kynja, ekki aðeins í orði heldur í verki, þar sem glímt hefur verið við hefðirnar, kyngervin, verkaskiptinguna, launamisréttið, íhaldssemina og staðalmyndirnar að ógleymdu kynbundnu ofbeldi sem komst ekki almennilega á dagskrá fyrr en undir lok 20. aldar. Enn er mikið verk að vinna í þessum efnum en við skulum líka minnast sigranna sem náðst hafa, því þeir hvetja okkur til frekari dáða.

Góður árangur

Undanfarin þrjú ár hefur Ísland verið í efsta sæti á lista World Economic Forum yfir kynjajafnrétti í heiminum, en þessi sjálfstæða alþjóðastofnun vinnur að því að bæta ástand heimsmála, meðal annars með því að safna og miðla upplýsingum um efnahags- og mannréttindamál.

World Economic Forum mælir einkum fjögur svið þar sem verulega reynir á jafnrétti kynjanna. Það eru menntun, kyn og völd, heilbrigðismál og staða á vinnumarkaði. Reyndar hefur verið bætt við spurningum hvað varðar jafnréttislög, skatta og ýmis félagsleg réttindi svo sem fæðingarorlof foreldra.

Við Íslendingar stöndum okkur afar vel hvað varðar jafnrétti til menntunar og heilsugæslu og einnig hvað varðar kyn og völd en þar hefur orðið veruleg framför undanfarna áratugi. Okkar veiki hlekkur er staðan á vinnumarkaði, einkum launamunur kynjanna og lélegur hlutur kvenna hvað varðar áhrifa- og stjórnunarstöður í fyrirtækjum og stofnunum. Það síðartalda stendur til bóta eins og kunnugt er því á næsta ári ganga í gildi lög sem gera kröfur um að hlutur hvors kyns um sig sé ekki minni en 40% í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga sem og stjórnum lífeyrissjóða. Lögin eru þegar farin að hafa áhrif því konum hefur fjölgað verulega í stjórnum lífeyrissjóða en alls vantar 192 konur í stjórnir fyrirtækja til að ná markmiðum laganna um kynjahlutföll.

Í vetur lagði Félag kvenna í atvinnurekstri fram lista yfir 200 öflugar konur sem bjóða fram krafta sín til setu í stjórnum íslenskra fyrirtækja þannig að það ættu að vera hæg heimatökin að ná settu marki á næsta aðalfundi.

Launajafnrétti veikur hlekkur

Launajafnrétti kynjanna hefur aftur á móti reynst afar erfitt viðureignar, ekki bara hér heldur í öllum ríkjum OECD. Árið 1961 voru sett lög um launajafnrétti kynjanna hér á landi og var hugmyndin sú að jafna launamuninn á sjö árum með launahækkunum til kvenna. Sem kunnugt er gekk það ekki eftir. Rótgrónar hugmyndir um karla sem fyrirvinnur og fastmótuð launakerfi sem mátu vinnu karla til hærri launa en vinnu kvenna reyndust ótrúlega lífseigar. Enn í dag mælist launamunurinn á bilinu 7-16% eftir því hvaða breytur og hópar eru skoðaðir. Þess má geta að meðaltalið innan Evrópusambandsins var 16,4% árið 2010 þannig að við erum á svipuðu róli. Það veldur þó vonbrigðum að nýjustu kannanir á tilteknum hópum benda til þess að kynbundinn launamunur sé að aukast að nýju.  

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem samþykkt var vorið 2011 er að finna verkefnið framkvæmdaáætlun gegn launamisrétti kynjanna. Þar er meðal annars kveðið á um skipun sérstakrar framkvæmdanefndar til að halda utan um aðgerðir í baráttunni gegn launamisrétti. Nefndin hóf störf síðla árs 2011 og er í þann mund að leggja lokahönd á tillögur sínar. Það verður forvitnilegt að sjá og ræða tillögur nefndarinnar um launajafnrétti þegar þær líta dagsins ljós á allra næstu dögum.

Launajafnrétti er alþjóðlegt viðfangsefni

Það er ekki aðeins hér á landi sem launamisrétti kynjanna og staða þeirra á vinnumarkaði er í brennidepli. Sérstök nefnd er starfandi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og ljóst er að á næstu árum verður vinnumarkaðurinn í öndvegi í norrænu jafnréttisstarfi. Allar Norðurlandaþjóðirnar hafa verið með verkefni í gangi til að draga úr launamun og jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði en þau hafa skilað misjöfnum árangri og alls ekki nægum að mati stjórnvalda.

Ágætu fundargestir.

Um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með kvenréttindadaginn vil ég þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að gerð jafnlaunastaðalsins fyrir vel unnin störf. Við skulum ekki gleyma því að hér er um algjöra nýjung að ræða sem hefur hvergi verið reynd í heiminum. Það verður því spennandi að sjá hver árangurinn verður og ég heiti á atvinnurekendur og stjórnendur stofnana jafnt sem launafólk að nýta þennan nýja möguleika til að meta eigin stöðu og leiðrétta það sem miður fer.

Við höfum í þrjú ár mælst standa okkur best ríkja hvað varðar jafnrétti kynjanna samkvæmt mælikvörðum World Economic Forum. Við eigum að gera allt sem við getum til að halda því sæti, vera góðar fyrirmyndir fyrir aðrar þjóðir um leið og við gerum okkar samfélag réttlátara og betra.

---------------------
Talað orð gildir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum