Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. júlí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Heildarlöggjöf um málefni transfólks á Íslandi fagnað

Borgarstjóri og aðrir góðir gestir sem hér eru staddir til að fagna saman merkum áfanga í mannréttindamálum á Íslandi. Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með gildistöku heildarlöggjafar um málefni Trans-fólks þann 27. júní síðastliðinn. Dagsetningin var ekki valin af handahófi, heldur á sjálfum Stonewall-deginum sem kenndur er við þá atburði í New York árið 1969 þegar samkynhneigðir risu upp gegn kúgun og misrétti þannig að seint gleymist og kröfðust sjálfsagðra mannréttinda.

Á síðastliðnum árum hefur mikil þróun orðið á réttarstöðu samkynhneigðra í þjóðfélaginu, hvort sem um er að ræða lagalega réttarstöðu eða í félagslegu samhengi. Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfum almennings og fordómar hafa verið á hröðu undanhaldi. Ég tel óhætt að segja að ágætlega hafi verið staðið að réttindamálum samkynhneigðra hér á landi, margir sigrar hafa unnist og árið 2010 var stigið eitt stærsta skrefið í réttindabaráttu samkynhneigðra þegar Alþingi samþykkti að ein hjúskaparlög skyldu gilda um alla. Ísland var þar með komið í fremstu röð meðal þjóða sem tryggja mannréttindi samkynhneigðra.

Staða transfólks hefur hins vegar verið óljós hér á landi og réttindi þessa hóps að ýmsu leyti fyrir borð borin. Kannski er að einhverju leyti fámenni um að kenna og tvímælalaust hefur vanþekking og fordómar átt hlut að máli.

Árið 1996 stóð Landlæknisembættið og Kynfræðifélagið fyrir málþingi um kynleiðréttingar en sama ár var fyrirhugað að framkvæma fyrstu kynleiðréttingaraðgerðina á Íslandi. Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir lét þessi mál til sín taka og var trúlega fyrstur embættismanna til þess að tala máli transfólks. Í viðtali við Morgunblaðið 11. júní 1996 lagði hann áherslu á að allir ættu jafnan rétt á heilbrigðisþjónustu. Hann sagði það brjóta í bága við lög að synja fólki um slíkar aðgerðir og enn fremur sagði hann orðrétt: „Slíkar aðgerðir eru lítið vandamál fyrir þjóðfélagið en geta skipt gífurlegu máli fyrir þá örfáu einstaklinga sem eiga í hlut.“

Þetta var mikilvæg ábending þáverandi landlæknis. Síðan hefur meðferð til kynleiðréttingar verið fáanleg hér á landi en lagaleg staða transfólks hefur engu að síður verið óljós um margt.

Álit umboðsmanns Alþingis árið 2009 um réttarstöðu transfólks var afdráttarlaust. Hann vísaði meðal annars til þess að réttur einstaklinga til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns sé varinn í ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Álit umboðsmanns var ítarlegt og ljóst af því að ýmsar úrbætur væru nauðsynlegar til að tryggja mannréttindi transfólks. Ég ætla ekki að fjölyrða um framvindu þessara mála, þið þekkið hana eflaust flest eða öll, en í stuttu máli skipaði ég nefnd sem falið var að leggja fram tillögur að úrbótum í málefnum transfólks með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis. Þessi nefnd vann afar vel og lagði fram drög að því frumvarpi sem nú er orðið að lögum.

Heildarlöggjöf sem tryggir lagalegt jafnræði og mannréttindi transfólks hefur tekið gildi. Þess vegna erum við hér saman komin til að fagna því og gleðjast. Það er von mín að þessi löggjöf styðji vel við bak þeirra sem gangast undir meðferð til kynleiðréttingar og auðveldi þau skref sem stíga þarf á þeirri leið. Setning þessarar löggjafar var þörf og löngu tímabær og við höfum því ríka ástæðu til að gera okkur dagamun. Enn og aftur til hamingju.

- - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum