Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Vinnumál-Frettir

Liðsstyrkur

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

Grein Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Birtist í Fréttablaðinu 17. janúar 2013.

Nú um áramót hófst átaksverkefnið Liðsstyrkur sem er samstarfsverkefni velferðarráðuneytisins, sveitarfélaga, stéttarfélaga og atvinnurekenda. Markmið verkefnisins er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013 til þátttöku að nýju á vinnumarkaði.

Öllum í þessum hópi verður boðið tímabundið starf eða starfsendurhæfing á þessu ári enda skrái þeir sig til þátttöku í átakið á www.lidsstyrkur.is. Megininntak þessa umfangsmesta atvinnuátaksverkefnis sem ráðist hefur verið í er þannig vinna fyrir vinnufæra og vinnufúsa á sama tíma og þeim sem eru óvinnufærir er boðin atvinnutengd starfsendurhæfing. Heildarkostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs við verkefnið er áætlaður 2,7 milljarðar króna.

Reiknað er með að um 60% einstaklinga í þessum hópi þiggi starfstilboð svo skapa þarf 2.200 tímabundin ný störf fyrir langtímaatvinnuleitendur á þessu ári. Sveitarfélög munu bjóða 660 störf, ríkið 220 störf og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 störf.

Markmiðið Liðsstyrks er að enginn falli af atvinnuleysisbótum án þess að fá tilboð um starf.

Atvinnuleysistryggingasjóður niðurgreiðir stofnkostnað atvinnurekenda við ný störf fyrir þennan hóp tímabundið og nemur styrkur með hverri ráðningu grunnatvinnuleysisbótum ásamt 8% framlagi í lífeyrissjóð, samtals 186.417 kr. á mánuði. Atvinnurekandi gerir síðan hefðbundinn ráðningarsamning við atvinnuleitanda og greiðir honum laun samkvæmt kjarasamningi.

Skilyrði þess að atvinnurekandi geti tekið þátt í verkefninu eru eftirfarandi:

  • Ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér fjölgun starfsfólks.
  • Fyrirtæki hafi að minnsta kosti einn starfsmann á launaskrá.
  • Fyrirtæki hafi síðastliðna sex mánuði ekki sagt upp starfsmönnum sem gegnt höfðu starfinu sem ráða á til.
  • Ráðning feli ekki í sér verulega röskun á samkeppni innan atvinnugreinar á viðkomandi svæði.
  • Staðfesting á launagreiðslu til starfsmanns samkvæmt kjarasamningi fylgi með reikningi til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings um Liðsstyrk.

Með þessu metnaðarfulla átaki hafa ríkið og hagsmunaaðilar á vinnumarkaði sameinast með einstökum hætti til að tryggja langtímaatvinnulausum tækifæri til að komast inn á vinnumarkaðinn að nýju. Samstarf sem þetta er óþekkt í nágrannalöndum okkar og ljóst að gríðarmikil vinna er framundan til að ná þessu metnaðarfulla markmiði. Forsenda árangurs er gott samstarf aðilanna sem hrinda hér sameiginlega af stað þjóðarátaki gegn langtímaatvinnuleysi. Ég vil þakka samtökum launafólks, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd þessa verkefnis sem sýnir hverju hægt er að áorka þegar unnið er sameiginlega að úrlausn samfélagslegra mála.  

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum