Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Hringskonur gefa 70 milljónir til Barnaspítala Hringsins á tíu ára afmæli hans

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Barnaspítali Hringsins 10 ára - Kvenfélagið Hringurinn gefur 70 milljónir króna.

Kæru gestir.

Þetta er stór dagur og sannarlega ástæða til að hittast og fagna tímamótum. Barnaspítali Hringsins er 10 ára um þessar mundir en hann var formlega opnaður 26. janúar 2003.

Engan skyldi undra að barnaspítalinn sé kenndur við kvenfélagið Hringinn, því félagið á mestan heiður af byggingu barnaspítala frá upphafi, jafnt þessari glæsilegu byggingu og forveranum sem tekinn var í notkun árið 1965 eins og ég kem að síðar.

Hringskonur gerðu það ekki endaleppt þegar nýi spítalinn var tilbúinn og tekinn í notkun. Þær hafa verið traustur bakhjarl hans og fært honum margar góðar og stórar gjafir. Nýjasta gjöfin er afhent formlega í dag, hvorki meira né minna en 70 milljónir króna til vökudeildarinnar. Tímamótin eru margvísleg. Barnaspítalasjóðurinn er 70 ára og gjöfin nemur því einni milljón króna fyrir hvert starfsár hans. – Og þetta er raunar ekki allt, því gjafir Hringskvenna til Barnaspítalans árið 2012 nema samtals 118 milljónum króna að meðtalinni þeirri gjöf sem formlega er veitt viðtaka hér í dag.

Hringurinn verður 110 ára á næsta ári, en félagið var stofnað árið 1904 og hefur frá fyrstu tíð einbeitt sér að mannúðar- og líknarmálum, einkum í þágu barna. Hér á Landspítala er það ekki einungis barnaspítalinn nýi sem hefur verið styrktur, því uppbygging Barna- og unglingageðdeildarinnar BUGL hefur einnig notið velvildar og rausnarskapar Hringskvenna, auk margra annarra verkefna sem tengjast veikum börnum.

Góðir gestir.

Saga Hringsins er stórmerkileg og ánægjulegt að hún var hefur verið skráð í vönduðu riti eftir Björgu Einarsdóttur sem gefið var út í tilefni 100 ára afmælis félagsins. Það er ekki annað hægt en að rifja upp aðdragandann að stofnun félagsins sem hófst þegar Kristín Vídalín Jacobsen glímdi við lífshættuleg veikindi á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn og hét því að næði hún heilsu myndi hún gera allt sem í hennar valdi stæði til að bæta hag þeirra sem stríddu við veikindi og bágan efnahag. Þetta gekk eftir og var boðað til stofnfundar Hringsins 26. janúar 1904 í Hússtjórnarskólanum í gamla Iðnó við Tjörnina í Reykjavík. Kristín stýrði farsælu starfi Hringsins í 39 ár og hefur starfsemi þessa merkilega félags verið órjúfanlegur þáttur í uppbyggingu og eflingu heilbrigðisþjónustu hér á landi alla tíð síðan.

Fyrsta stórverkefni Hringskvenna var að reisa og reka hressingarhæli fyrir berklasjúka, Kópavogshælið, sem tekið var í notkun árið 1926. Það væri allt of langur uppi að rekja hér öll þau stórvirki sem Hringurinn hefur átt þátt í frá upphafi, en þess má geta að árið 1942 breytti félagið um stefnu í líknarmálum og setti á oddinn að komið yrði upp barnaspítala sem brýn þörf var fyrir. Róðurinn var þungur, en fór þó svo að barnadeild var opnuð á Landspítalanum 19. júní 1957 og Barnaspítali Hringsins síðan tekinn í notkun 26. nóvember 1965.

Og nú stöndum við hér í því glæsilega húsnæði sem núverandi Barnaspítali Hringsins er óumdeilanlega og hefði tæpast orðið að veruleika án atbeina Hringskvenna.

Ég veit ekki með hvaða orðum er unnt að þakka fyrir þá ótrúlegu elju sem kvenfélagið Hringurinn hefur sýnt í gegnum árin og ómetanlegar gjafir og stuðning í þágu samfélagsins. Störf ykkar verða aldrei fullþökkuð en þau eru svo sannarlega virt og mikils metin og það er með ólíkindum hverju hægt er að áorka með sterkum vilja, dugnaði og samtakamætti – eins og þið hafið sýnt.

Hringurinn á sér samastað í hjörtum landsmanna. Þúsundir fjölskyldna hafa notið góðs af starfi ykkar og þeirrar góðu aðstöðu sem hér hefur verið byggð upp með tilheyrandi tækjum og búnaði. Þetta skiptir allt svo miklu máli þegar veita skal börnum bestu heilbrigðisþjónustu og aðbúnað sem mögulegt er og hjálpa þeim til heilsu á ný. Fyrir þetta erum við öll afar þakklát.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum