Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Heimili er meira en hús. Ráðstefna um búsetumál fatlaðs fólks

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Efni og aðstandendur: Að ráðstefnunni standa Landssamtökin Þroskahjálp, Þroskaþjálfafélag Íslands, Rannsóknarstofa í þroskaþjálfafræðum og Samband íslenskra sveitarfélaga um gæði þess starfs sem unnið er í búsetuþjónustu við fatlað fólk.

Góðir gestir. 

Fyrst af öllu vil ég þakka ykkur öllum sem standið að þessari ráðstefnu fyrir að efna til hennar og stefna hér saman öllu því góða fagfólki sem kemur að málefnum fatlaðs fólks. Yfirskrift ráðstefnunnar er vel til fundin og segir meira en mörg orð. „Heimili er meira en hús“ — það má svo sannarlega til sanns vegar færa í öllu tilliti en er sérstaklega gott að hafa að leiðarljósi þegar rætt er um búsetuþjónustu við fatlað fólk. „Því hvað er auður og afl og hús ef engin urt vex í þinni krús“ orti Bjartur í Sumarhúsum til Ástu Sóllilju en var ekki fær um að hlúa að þeirri urt sem honum þótti þó vænst um. Hús Bjarts varð aldrei það heimili sem því var ætlað og vissulega kom þar margt til sem ekki á erindi hér.

Það má hins vegar segja að fatlað fólk hafi í gegnum tíðina mátt heyja ótrúlega harða og oft torsótta baráttu fyrir sjálfstæði sínu. Sú barátta hefur hins vegar skilað öðrum og betri árangri en hjá Bjarti forðum. Margt hefur áunnist á liðnum árum og áratugum þótt vissulega megi gera enn betur.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að eðlilegt þótti í samfélaginu að fatlað fólk væri vistað á stofnunum, í raun úr tengslum við samfélagið utan þeirra. Um miðja síðustu öld fóru hins vegar nýjar hugmyndir að ryðja sér til rúms sem sneru að mannréttindum og stöðu fatlaðs fólks sem sköpuðu nýja umræðu um rétt þess til að lifa eðlilegu lífi og taka fullan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Samfélagsþróun og viðhorfsbreytingar gagnvart fötluðu fólki koma fram í lagasetningu 1979 um málefni þroskaheftra, lögum um málefni fatlaðra sem leystu þau fyrri af hólmi árið 1983 og svo aftur með nýjum lögum um málaflokkinn árið 1992. Með tíð og tíma var horfið frá þeirri stofnanahugsun sem lengi var svo ríkjandi og réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs og sjálfstæðrar búsetu tók að festa rætur.

Árið 2007 var undirritaður af Íslands hálfu Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sáttmálinn hefur reynst mikilvægur leiðarvísir fyrir málaflokkinn, eflt umræðu um mannréttindi, mannhelgi og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks og haft veruleg áhrif á hugmyndafræðilega umræðu og nálgun verkefna.

Með undirritun sáttmálans má segja að stjórnvöld hafi gefið út afdráttarlausa yfirlýsingu um hvert skuli stefna í margvíslegum réttindamálum fatlaðs fólks sem snerta flest eða öll svið samfélagsins. Þessi stefna var síðan innsigluð á afgerandi hátt þegar Alþingi fól velferðarráðherra með lögum vinnu við gerð framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks þar sem fram kæmu meðal annars tímasettar aðgerðir til fullgildingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin var staðfest sem þingsályktun frá Alþingi í júní á síðastliðnu ári og þar með var jafnframt innanríkisráðuneytinu falið að leiða vinnuna við innleiðingu sáttmálans.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindingu um að innleiða viðhorf og vinnubrögð, verklag og framkvæmd, aðhald og eftirlit á fjölmörgum sviðum sem varða réttindi, stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Grundvöllur sáttmálans byggist á virðingu fyrir persónufrelsi, banni við mismunun, þátttöku, aðgengi, virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins og jafnrétti kynjanna. Í fimmtíu greinum samningsins er kveðið á um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, aðgengismál, samfélagsþátttöku, rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, réttinn til atvinnu og svo mætti áfram telja.

Í þessu felast mörg og viðamikil verkefni sem krefjast mikillar vinnu, undirbúnings og samhæfingar milli stjórnsýslustiga og fjölmargra stofnana samfélagsins með þátttöku hagsmunasamtaka og raunar alls almennings. Allt þetta og meira þarf til að sá árangur náist sem að er stefnt og fullgilding sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér.

Eitt af skilgreindum verkefnum í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks er að efla og styrkja notendasamráð og valdeflingu. Mikilvægur liður í þessu er innleiðing notendastýrðrar persónulegarar aðstoðar sem velferðarráðuneytið stýrir. Ég vil einnig nefna sérstaklega lög um réttindagæslu fatlaðs fólks sem Alþingi samþykkti í júní 2011. Réttindagæslumenn starfa nú um allt land og hafa það meginverkefni að aðstoða og leiðbeina fólki sem vegna fötlunar á erfitt með að gæta réttinda sinna sjálft. Í sömu lögum eru einnig ákvæði um persónulega talsmenn. Mig langar að nefna að nýlega stóð velferðarráðuneytið fyrir starfsdegi réttindagæslumanna og réttindavakt ráðuneytisins stóð sömuleiðis nýverið fyrir námskeiði fyrir persónulega talsmenn fatlaðs fólks til að styrkja þá í hlutverki sínu og frekari námskeiðahöld eru fyrirhuguð.

Góðir gestir.

Ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk færðist frá ríki til sveitarfélaga í janúar 2011. Áður en yfirfærslan kom til framkvæmda var gerð viðamikil úttekt á aðstæðum fatlaðs fólks sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið. Rannsóknin var kynnt á ráðstefnu sem efnt var til 26. október 2011 og þið hafið eflaust mörg setið. Það eru geysilega verðmætar upplýsingar sem þar koma fram, enda verða þær nýttar við mat á faglegum ávinningi þessarar stóru breytingar á stjórnskipulagi málaflokksins.

Þann 11. október síðastliðinn var haldið stórt málþing um innleiðingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar reifaði innanríkisráðherra hugmynd um stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar á Íslandi í samhengi við þær þær skyldur sem við þurfum að axla á grundvelli 33. greinar sáttmálans um réttindi fatlaðs fólks varðandi eftirlit með framkvæmd samningsins. Þetta er sannarlega ástæða til að skoða alvarlega og íslensk stjórnvöld hafa verið hvött til þess að koma slíkri stofnun á fót vegna fleiri samninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að.

Eins og ég hef áður sagt er eftirlit með framkvæmd samningsins mikilvæg en við þurfum líka að huga að því hvernig við stöndum að eftirliti með velferðarþjónustu hins opinbera almennt. Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem unnið er að í velferðarráðuneytinu og er hugmyndin sú að sameina slíkt eftirlit á einum stað, með áherslu á að það verði sjálfstætt og óháð, þannig að skilið sé skýrt á milli framkvæmdar þjónustu og eftirlits.

Ég hef stiklað á stóru um stöðu og þróun málefna fatlaðs fólks á liðnum árum. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi umfjöllun en hún sýnir glöggt hvað aukið notendasamráð og fagleg umræða byggð á skýrri hugmyndafræði og mótaðri framtíðarsýn hefur skipt miklu máli í þróun þessa málaflokks þar sem hafa orðið ótrúleg umskipti á undanförnum árum.

Á liðnum árum hafa mannréttindi ávallt verið grundvöllur allrar umræðu um málefni fatlaðs fólks og nauðsyn þess að búa þannig um hnútana að allir fái í raun notið þeirra mannréttinda sem eiga að heita tryggð í viðkomandi samfélagi. Réttindabarátta fatlaðs fólks hefur snúist um að leiða stjórnvöldum og almenningi fyrir sjónir að mannréttindi felast í því að fólk fái tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, njóti sjálfræðis og sjálfstæðis eftir því sem nokkur kostur er og þá með stuðningi eftir því sem þess gerist þörf.

Öflugt fagfólk sem starfar með fötluðu fólki og síaukinn kraftur á sviði rannsókna sem háskólasamfélagið leiðir hefur reynst ómetanlegt við alla stefnumótun hins opinbera sem varðar fatlað fólk og aðstæður þess. – Og hér erum við kannski einmitt komin að kjarna málsins: Umræðan um fatlað fólk og aðstæður þess á ekki að snúast um afmarkað svið eða þröngt skilgreindan málaflokk. Við erum öll hvert upp á sinn máta, fólk er ólíkt, aðstæður okkar eru ólíkar en við eigum öll að vera virkir þátttakendur í samfélaginu eins og nokkur kostur er. Um það snúast mannréttindi, í því felst rétturinn til sjálfstæðs lífs sem er öllum svo mikilvægur.

Góðir gestir.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir að efna til þessarar myndarlegu ráðstefnu. Umræðan er þörf og fagleg skoðanaskipti eru mikilvæg. Sem flestar raddir þurfa að heyrast, sjónarmið allra sem málið varðar eiga rétt á sér og gagnrýni er af hinu góða sé hún málefnaleg. Ég er viss um að við lok ráðstefnunnar fer fólk heim með góðar hugmyndir og aukna þekkingu í farteskinu. Bestu þakkir fyrir ykkar framlag, fyrr og síðar.

- - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum