Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra á málþingi Félags forstöðumanna ríkisstofnana um aðgerðir gegn einelti

Ávarp velferðarráðherra á málþingi um aðgerðir gegn einelti.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, flutti ávarpið fyrir hönd ráðherra.

Góðir gestir.

Einelti er verknaður sem að ýmsu leyti má líkja við þjófnað. Í báðum tilvikum vita gerendurnir að verknaðurinn er rangur, reyna að gæta þess að ekki komist upp um þá og spila á umhverfið. Þeir sem þiggja hlut í illum feng eru þjófsnautar og það sama má segja um þá sem gerast viðhlægjendur þegar einelti er annars vegar. Þeir sem verða vitni að þjófnaði en bregðast ekki við eru óhjákvæmilega samsekir með aðgerðaleysi sínu vegna verknaðar sem bitnar á einhverjum sem á sér ekki ills von. Sama máli gegnir um þá sem verða vitni að einelti en hafast ekki að. Ábyrgð þeirra er mikil og sennilega meiri en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Án efa er eitt mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn einelti að gera þessa ábyrgð skýra og ljósa fyrir hverjum og einum, - ekki síst að undirstrika meðsektina sem felst í því að samþykkja einelti með þögninni. Ef okkur tekst að skapa afdráttarlaust viðhorf í samfélaginu um að einelti sé ekki liðið undir neinum kringumstæðum mun það ekki þrífast – en til þess þurfum við öll að taka höndum saman.

Í júní árið 2010 samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun í þrjátíu liðum til að vinna gegn einelti á vinnustöðum, í skólum og í samfélaginu almennt. Þrjú ráðuneyti stóðu saman að gerð áætlunarinnar og höfðu við vinnuna samráð við fjölda hagsmuna- og fagaðila sem létu sig málið varða. Aðgerðaáætluninni fylgdi fé til framkvæmda og sett var á fót verkefnisstjórn og ráðinn verkefnisstjóri til að fylgja málum eftir.

Aðgerðir sem snúa að velferðarráðuneytinu sérstaklega varða aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum og um það snýst þetta málþing í dag.  Í samræmi við aðgerðaáætlunina er nú unnið að því að endurskoða ákvæði laga sem fjalla um einelti og kynferðislega áreitni og drög að endurskoðaðri reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað er nú komið í opið umsagnarferli á heimasíðu velferðarráðuneytisins. Margir koma að þessu verki, en í nefnd um endurskoðunina eiga sæti fulltrúar Vinnueftirlits ríkisins, Jafnréttisstofu, Sambands sveitarfélaga, starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandinu og Samtaka atvinnulífsins. Áhersla er lögð á víðtæka samvinnu, ekki einungis með það í huga að vanda sem best til verka, heldur líka með það í huga að virkja sem flesta og ýta þannig undir umræður og áhuga á að sinna þessu máli á breiðum vettvangi.

Því miður hafa flestir orðið vitni að einelti í einhverri mynd einhvern tíma á lífsleiðinni, hvort sem er í skóla, á vinnustað eða við aðrar kringumstæður. Allur gangur er á því hvort og hvernig hefur verið tekið á eineltismálum í gegnum tíðina en sem betur fer hefur skilningur á því að það verði að bregðast við á markvissan hátt farið vaxandi ár frá ári. Við eigum að nýta okkur þá reynslu sem við höfum, læra af því sem vel hefur verið gert og skoða jafnframt helstu mistök þannig að við getum forðast þau í framtíðinni. Setning reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum var framfaraskref á sínum tíma – en við höfum líka séð að margt í reglugerðinni þarf að skýra betur í sambandi við ábyrgð, verkaskiptingu og verklag.

Góðir gestir.

Öll getum við verið sammála um að einelti, kynferðislega áreitni eða ofbeldi á ekki að umbera á vinnustað undir neinum kringumstæðum. Stjórnendur og starfsmenn bera ábyrgð á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar og mikilvægt er að leysa ágreiningsmál og hagsmunaárekstra sem upp koma á vinnustöðum áður en þau þróast til verri vegar.

Ég bind vonir við að sú endurskoðun á lögum og á reglugerðinni sem ég nefndi áðan, auk annarra aðgerða sem fjallað er um í aðgerðaáætlun stjórnvalda, muni stuðla að aukinni virðingu, umhyggju og jafnrétti meðal fólks á vinnustað og aukinni vellíðan almennt.

Ég vil að lokum þakka þeim sem standa að þessu málþingi um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum – en sérstakar þakkir færi ég öllum þeim sem á hverjum degi leggja lóð sitt á vogarskálarnar með því að ástunda jákvæð og uppbyggileg samskipti við annað fólk, hvort sem í hlut eiga samstarfsfólk á vinnustað eða einhverjir aðrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum