Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Málþing um loftgæði og lýðheilsu

Málþing á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins, Nauthóli 24. apríl 2013.
Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri flutti ávarpið fyrir hönd velferðarráðherra.

Góðir gestir.

Fyrir hönd Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra lýsi ég ánægju og þakklæti með afrakstur mikillar og vandaðrar vinnu sem birtist í ritinu um loftgæði og lýðheilsu sem við fylgjum úr hlaði með málþinginu hér í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem fjallað er heildstætt um áhrif loftmengunar á heilsufar hér á landi og enginn vafi að þetta merkilega rit er hvalreki fyrir þá sem láta sig þessi mál varða eða vilja fræðast um þau.

Eins og segir í inngangi er loftmengun fylgifiskur örrar fjölgunar jarðarbúa og þéttbýlismyndunar. Alþjóðaheilbrigðisdagurinn árið 2010 var tileinkaður áhrifum þéttbýlismyndunar á heilbrigði fólks og af því tilefni efndu Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra til samstarfs milli ráðuneyta sinna um bætt loftgæði og lýðheilsu. Í framhaldinu var settur á fót stýrihópurinn sem hefur átt veg og vanda að gerð ritsins sem er til umfjöllunar hér í dag.

Það skiptir öllu máli að hér hefur verið unnið á þverfaglegum grunni. Ráðuneytin tvö, sem nú heita umhverfis- og auðlindaráðuneyti og velferðarráðuneyti tóku höndum saman um mikilvægt verkefni og fengu til liðs við sig þær stofnanir þar sem fyrir hendi er hvað mest þekking er á þessu viðamikla málefni. Umhverfismál og heilbrigðismál eiga marga snertifleti þegar að er gáð, því loftgæði hafa trúlega mun meiri áhrif á lýðheilsu en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Ég ætla að nefna þá sem sæti áttu í stýrihópnum, en það voru;

  • Stefán Einarsson, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis, formaður,
  • Valgerður Gunnarsdóttir, fulltrúi velferðarráðuneytis, varaformaður,
  • Lilja Sigrún Jónsdóttir, fulltrúi Embættis landlæknis,
  • Hafsteinn Viðar Jensson, fulltrúi Lýðheilsustöðvar, nú Embættis landlæknis,
  • Árný Sigurðardóttir, fulltrúi Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar,
  • Guðrún Pétursdóttir, fulltrúi Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands,
  • Sigurður Þór Sigurðarson, fulltrúi SÍBS,
  • Þorsteinn Jóhannsson, fulltrúi Umhverfisstofnunar.
  • Hópnum til aðstoðar var Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir starfsmaður velferðarráðuneytisins.

 Þeir voru raunar mun fleiri sem lögðu gott til verkefnisins, því leitað var upplýsinga hjá fjölda sérfræðinga og stofnana og er óhætt að segja að framlag þeirra sé ómetanlegt.

Það þarf samhentan hóp til að takast á við verkefni af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir  og koma umfjöllun og niðurstöðum í aðgengilegan búning líkt og hér hefur verið gert.

Verkefni hópsins fólust í því að safna upplýsingum um loftgæði ásamt mati á áhrifum loftmengunar á heilsu fólks á Íslandi og þá sérstaklega barna og ungmenna. Mat á merkivísum sem gefa slíkar upplýsingar og þar með möguleika á að geta vaktað hvort tveggja á sýnilegan hátt var hluti af þessari vinnu. Jafnframt skyldi hópurinn setja fram fram tímasetta áætlun með mælanlegum skrefum til þess að bæta loftgæði og draga úr áhrifum mengunar á börn. – Og loks að huga að fræðsluefni fyrir markhópa - sér í lagi fyrir ungbarnavernd, skólakerfið og foreldrafræðslu.

Góðir gestir.

Við eigum eftir að hlusta á fróðleg erindi hér á eftir sem án efa munu vekja forvitni og löngun fundargesta til að fræðast meira um þessi mál. Í ritinu er fjallað um helstu mengunarvalda lofts bæði inni og úti á Íslandi, magn, heilsufarsáhrif, vöktun og aðgerðir til að stemma stigu við skaðsemi þeirra. Einnig eru settar fram tillögur til úrbóta og mælt með vísum fyrir loftmengun af ýmsu tagi. Eins og áður sagði er þetta fyrsta heildarúttekt á loftgæðum á Íslandi og hafa höfundar lagt áherslu á að safna öllum tiltækum upplýsingum þar að lútandi og jafnvel unnið þær úr frumgögnum þegar nauðsyn krafði.

Þrátt fyrir gríðarlega mikið efni og flóknar upplýsingar hefur tekist ótrúlega vel að mínu mati að gera ritið aðgengilegt og áhugavert. Stuttar samantektir með tillögum hópsins í fyrri hlutanum veita góða yfirsýn en jafnframt fylgir ítarlegri umfjöllun í síðari hlutanum fyrir þá sem vilja sökkva sér í efnið og fræðast meira. Það vona ég svo sannarlega að sem flestir sjái ástæðu til að gera, því þetta er efni sem varðar okkur svo sannarlega öll.

Merkilegum áfanga er náð sem mikilvægt er að fylgja eftir með áframhaldandi þverfaglegri samvinnu, vöktun og auknum rannsóknum  á þessu sviði, að ekki sé talað um áherslu á fræðslu og eflda samfélagslega vitund um tengsl loftgæða og lýðheilsu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum