Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. janúar 2018 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Eflum geðheilbrigðisþjónustuna

Svandís Svavarsdóttir - mynd
Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Fréttablaðinu 2. janúar 2018

Góð geðheilsa er undirstaða lífsgæða. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni frá því í september 2017 hefur geðheilsu ungs fólks hrakað á undanförnum árum. Geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk þarf því að efla og styrkja sérstaklega, til að stemma stigu við þeirri þróun. Ég mun leggja ríka áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustu í embætti mínu sem heilbrigðisráðherra, með það meginmarkmið að leiðarljósi að tryggja skuli öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Sérstök áhersla er lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu í fjárlögum ársins 2018. 

Efla þarf geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, og í fjárlögum ársins 2018 eru stigin skref í átt að þeirri eflingu. Fjárveiting til geðheilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum hækkar um 200 milljónir króna samkvæmt fjárlögum ársins 2018. Því framlagi er ætlað að efla geðheilbrigðisþjónustu innan Landspítala sérstaklega svo mögulegt sé að bjóða upp á góða geðheilbrigðisþjónustu á deildum spítalans. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans fær 45 milljóna viðbótarframlag, sem er ætlað til þess að stytta biðtíma eftir þjónustu á deildum BUGL, sem er verkefni sem sérstaklega brýnt er að ráðast í. 

Gagnsemi sálfræðiþjónustu er gríðarmikil. Aukið aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu er mikilvægur liður í góðri geðheilbrigðisþjónustu og auka þarf fjárframlög til þessa málaflokks. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018 rennur 60 milljóna króna framlag til heilsugæslunnar, sem er sérstaklega ætlað til að fjölga sálfræðingum og þverfaglegum geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar og auka aðgengi fólks að hugrænni atferlismeðferð.

Ég mun einnig leggja ríka áherslu á að geðheilbrigðisáætlun til ársins 2020 verði hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð til fulls. Einnig mun ég leggja áherslu á að heilbrigðisráðuneytið styðji eins og kostur er við frjáls félagasamtök sem starfa á sviði geðheilbrigðisþjónustu, enda gegna frjáls félagasamtök lykilhlutverki á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustu. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum