Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Mikilvægi neyðarmóttöku

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2018

Á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala – háskólasjúkrahúsi geta þau komið sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Á neyðarmóttökunni er veittur stuðningur og ráðgjöf, auk læknisskoðunar og meðferðar. Þjónustan stendur öllum til boða, jafnt konum sem körlum, og markmiðið er að tryggja velferð og stöðu þeirra sem þangað leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.

Árið 2017 voru komur á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis 187 talsins. Þar af voru 96% konur og 4%   karlar. Komur á móttökuna hefur fjölgað um 40% á aðeins tveimur árum. Tilgangur með þjónustu neyðarmóttökunnar er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón sem oft er afleiðing kynferðislegs ofbeldis. Einn liður í þeirri þjónustu er sálfræðiaðstoð. Árið 2017 var 80% þeirra sem leituðu til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis vísað í sálfræðiþjónustu. Þeir sem ekki fá formlega meðferð fá stuðning eftir þörfum en öðrum er veitt áfallahjálp og sálfræðiþjónusta. Ef áfallastreituröskun greinist er einstaklingum boðið upp á sérhæfða áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð.

Ég hef hitt sálfræðinga sem sinna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala og fengið innsýn í það góða starf sem fram fer á móttökunni. Auk þess var ég viðstödd formlega opnun nýrrar aðstöðu fyrir neyðarmóttökuna á Landspítala. Veitt er einstaklingsmiðuð sálfræðiþjónusta og áhersla lögð á að þörfum hvers og eins sé mætt. Því er viðtalafjöldi ólíkur auk þess sem þolendum kynferðisofbeldis býðst einnig sálfræðiaðstoð síðar í ferlinu, til dæmis í tengslum við framlagningu kæru eða meðferð máls fyrir dómi.

Bætt aðstaða og fagleg þjónusta við þennan hóp er gríðarlega mikilvæg. Það er ekki bara heilbrigðismál að þolendum kynferðisofbeldis bjóðist viðeigandi þjónusta. Það er nefnilega líka jafnréttismál. Það er jafnréttismál að þolendum kynferðisofbeldis bjóðist fagleg og vönduð heilbrigðisþjónusta og að langtímaafleiðingar kynferðisofbeldis séu lágmarkaðar eins og kostur er. Fjölgun þeirra sem koma á endurspeglar hugsanlega að fleiri þolendur kynferðisofbeldis treysta sér til þess að segja frá upplifunum sínum af ofbeldi og þar hafa byltingar á borð við #metoo vafalaust áhrif.

Fyrst og síðast þarf þó að vinna gegn ofbeldi í nánum samböndum, til dæmis með aukinni opinni umræðu um náin sambönd og fræðslu. Það er barátta sem við megum ekki gleyma.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum