Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Eftir 140 daga

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Á þeim 140 dögum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur verið starfandi hefur ríkisstjórnin unnið hörðum höndum að því að koma aðgerðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Heilbrigðismálin eru í forgangi í stjórnarsáttmálanum. Fyrsti kafli stjórnarsáttmálans er helgaður þeim og þar er að finna fjölmargar mikilvægar aðgerðir og markmið, sem öll miða að því að bæta íslenska heilbrigðiskerfið, styrkja það og efla.

Á meðal þeirra aðgerða sem nefndar eru er að fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland, efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar notenda, framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala, efling nýsköpunar í heilbrigðismálum, að hrinda geðheilbrigðisáætlun til ársins 2020 í framkvæmd, aukin áhersla á forvarnir og lýðheilsu og stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma aldraðra.

Þessi listi er fjölbreyttur og viðamikill, en ég er stolt af því að geta sagt frá því að vinna við allar fyrrnefndar aðgerðir er hafin í velferðarráðuneytinu. Vinna við heilbrigðisstefnu er komin vel á veg. Í þeirri vinnu höfum við hugfast að stefnuna þarf að vinna með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og að skilgreina þarf betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Ég stefni að því að áherslur heilbrigðisstefnu verði ræddar á heilbrigðisþingi sem ég mun boða til nú í október og stefnuna sjálfa mun ég síðan leggja fyrir Alþingi eftir áramótin eða haustið 2019. Efling heilsugæslunnar er ennig hafin, til dæmis með fjölgun sálfræðinga sem starfa við heilsugæslur, geðheilsuteymum og stofnun nýrrar þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar sem mun meðal annars leiða faglega þróun allra heilsugæslustöðva á landsvísu og stuðla að gæðaþróun.

Í stjórnarsáttmálannum segir að framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala muni hefjast næsta sumar. Útboð vegna jarðvinnu við meðferðarkjarnann var auglýst í seinni hluta apríl, en meðferðarkjarninn er stærsti þátturinn í uppbyggingu Landspítalaþorpsins við Hringbraut. Því er um stórt og mikilvægt framfaraskref að ræða. Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu hefur jafnframt verið efld, til dæmis með auknum fjárframlögum til fjarheilbrigðisþjónustu, og unnið er markvisst að framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar til 2020.

Áhersla á forvarnir og lýðheilsu hefur verið aukin, til dæmis með stofnun fagráðs um skimanir fyrir krabbameini hjá embætti landlæknis og styrkingu heilsueflandi samfélaga. Síðast en ekki síst má nefna sannkallaða stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma en í nýrri fjármálaáætlun
ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er gert ráð fyrir uppbyggingu 550 hjúkrunarrýma fram til ársins 2023, en það er aukning um 300 frá fyrri áætlun. 

Fjölmörg verkefni eru hafin, mikil sigling á málaflokknum og markmiðin eru skýr. Góð og samfelld heilbrigðisþjónusta sem þjónar landsmönnum öllum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum