Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2018

Skortur á hjúkrunarrýmum hefur leitt til þess að biðtími eftir þeim hefur lengst. Árið 2017 var meðalbiðtími þeirra sem fara í hjúkrunarrými 106 dagar. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er það markmið kynnt að biðtími eftir hjúkrunarrýmum verði undir 90 dögum á tímabilinu. Árið 2017 var hlutfall íbúa sem fá dvöl í hjúkrunarrými og hafa beðið skemur en 90 daga 59% en markmið nú er að þetta hlutfall hækki og verði 80% í lok tímabils fjármálaáætlunar.

Það er óþarfi að fjölyrða um mikilvægi uppbyggingar hjúkrunarrýma. Fjölgun hjúkrunarrýma hefur auðvitað fyrst og fremst jákvæð áhrif á lífsgæði aldraðra sem eru á biðlistum eftir slíkum rýmum. Uppbyggingin hefur einnig áhrif á heilbrigðiskerfið allt; fleiri hjúkrunarrými létta á deildum Landspítalans, heilbrigðisstofnunum um allt land og heilsugæslunni. Þannig leiðir uppbyggingin til þess að mögulegt er að veita heilbrigðisþjónustu í meira mæli á réttu þjónustustigi. Þannig aukast gæði þjónustunnar fyrir alla landsmenn, óháð aldri.

Heildarfjölda hjúkrunarrýma sem eru á framkvæmdaáætlun núna eru 790. Ný viðbótarrými eru 550 og rými sem þegar eru fyrir hendi en þar sem aðbúnaður verður bættur eru 240. Fjöldi rýma sem bætt var við frá fyrri fjármálaáætlun er rúmlega 300, þar af 241 ný rými og 63 rými þar sem bæta á aðbúnað. Staðsetning fyrrgreindra rýma liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti en samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er fremur horft til heilbrigðisumdæma en nákvæmrar staðsetningar. Það skýrist af því að möguleikar sveitarfélaga til að koma að verkefninu með ríkinu geta haft áhrif á áætlaðar framkvæmdir.

Vinnan sem framundan er við staðarval, byggingu og rekstur umræddra hjúkrunarrýma er bæði viðamikið og spennandi verkefni. Það er ánægjulegt að geta sagt frá þessari áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og ég er viss um að uppbyggingin mun hafa mjög jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið allt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum