Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Jafnari greiðsluþátttaka

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2018.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu tók gildi 1. maí 2017. Breytingarnar eru einhverjar þær mestu sem gerðar hafa verið á þessu sviði í áraraðir. Eftir að ég tók við embætti heilbrigðisráðherra beindi ég þeirri beiðni til Sjúkratrygginga Íslands að taka saman skýrslu þar sem reynslan af greiðsluþátttökukerfinu yrði tekin saman, ári eftir að kerfið var tekið í notkun. Í skýrslu Sjúkratrygginga var meðal annars skoðað hvort breytingar hefðu orðið á notkun heilbrigðisþjónustunnar, áhrif kerfisins á útgjöld sjúklinga í samanburði við gamla kerfið og áhrif breytinganna á útgjöld sjúkratrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu.

Niðurstaða skýrslu Sjúkratrygginga er að nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu hefur aukið jöfnuð í heilbrigðiskerfinu, eins og að var stefnt. Því markmiði að lækka verulega útgjöld þeirra sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustu að halda hefur verið náð, auk þess sem þak sem sett var á hámarksgreiðslur sjúklinga hefur varið þá sem veikastir eru fyrir miklum útgjöldum. Útgjöld barnafjölskyldna hafa lækkað, en börn eru að mestu gjaldfrjáls í nýja kerfinu.Auk þess má nefna að hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu hefur styrkst.

Þegar hámarksgreiðslur einstaklinga fyrir gildistöku nýja kerfisins, og eftir hana, eru skoðaðar kemur í ljós mikill munur. Árið 2016 greiddu rúmlega 15.500 einstaklingar meira en 70.000 kr. fyrir heilbrigðisþjónustu á árinu. Þar af greiddu rúmlega 800 einstaklingar yfir 200.000 kr. og nokkrir tugir enn meira. Hæsta greiðsla einstaklings í gamla kerfinu nam rúmum 400.000 kr. Eftir að nýja kerfið tók gildi í maí 2017 hefur enginn greitt meira en um 71.000 kr. á 12 mánuðum, fyrir heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið.

Það er markmið ríkisstjórnarinnar að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Stefnt er að því að minnka greiðsluþátttökuna þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Greiðsluþátttökukerfið er einn liður í því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga, en 1,5 milljarðar króna voru lagðir inn í kerfið til að standa straum af auknum kostaði hins opinbera vegna kerfisins. Greiðsluþak sjúkratryggðra samkvæmt kerfinu hefur ekki hækkað síðan ég tók við embætti heilbrigðisráðherra, þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á gjaldskrá til samræmis við verðlagsuppfærslur til samræmis við forsendur fjárlaga ársins 2018. Gjaldskrárbreytingar sem þessar eru alla jafna gerðar árlega, og hið sama gildir um verðlagsuppfærslur sem leiða til hækkana, t.d. hækkana á bótum almannatrygginga. Ég mun halda áfram að vinna að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar, en það er forgangsmál í mínum huga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum