Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. janúar 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Sterkari heilsugæsla

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Styrking heilsugæslunnar er eitt af mikilvægustu stefnumálum mínum sem heilbrigðisráðherra og meðal meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar. Á undanförnu ári hafa verið stigin mikilvæg skref í þá átt að efla heilsugæsluna. Sett var á fót þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu sem mun leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu og markmiðið með stofnun hennar er meðal annars að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum. Til að ná markmiðum um öfluga heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu er mikilvægt að leggja áherslu á forvarnir og fræðslu til sjúklinga. Í samræmi við geðheilbrigðisáætlun alþingis verður geðheilbrigðisþjónusta efld til muna með 650 milljóna króna framlagi samkvæmt fjárlögum ársins 2019  meðal annars með því að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni.

Bætt aðgengi að heilsugæslunni er mikilvæg forsenda eflingar hennar og er nýliðun þar mikilvægur þáttur. Í byrjun október tók ég þá ákvörðun að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um fimm. Þá hefur aðgengi að þjónustu heilsugæslunnar verið bætt í gegnum vefsíðuna Heilsuveru en þar er nú boðið upp á netspjall við hjúkrunarfræðinga heilsugæslustöðva sem leiðbeina fólki um hvert skuli leita innan heilbrigðiskerfisins. Um er að ræða samstarfsverkefni  Landlæknisembættisins  og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að auka aðgengi fólks að heilsugæslu og heilsuvernd. Verkefnið er mikilvæg viðbót við heilbrigðisþjónustu og er til þess fallið að draga úr álagi á Heilsugæsluna og aðrar heilbrigðisstofnanir og veita notendum bætta þjónustu.

Mikilvægur liður í að bæta aðgengi heilbrigðisþjónustu er að draga úr kostnaðarþáttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Stórt skref var stigið í þeim efnum nú um áramót þegar innheimtu komugjalda af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum var hætt nú um áramótin óháð því hvort um er að ræða komu á dagvinnutíma eða á öðrum tímum sólarhringsins. Þá var gjald fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja verður einnig fellt niður. Aðgengi barna heilbrigðisþjónustu er sömuleiðis tryggt en eftir sem áður eru ekki innheimt komugjöld hjá börnum að 18 ára aldri.

Nýsamþykkt fjárlög 2019 endurspegla því þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur sett sér um eflingu heilsugæslunnar og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2019

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum