Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. júní 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Drögum úr sykurneyslu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra  - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Í byrjun árs fól ég Embætti landlæknis að gera aðgerðaáætlun til að draga úr sykurneyslu landsmanna. Embættið hefur nú skilað aðgerðaáætlun í 14 liðum sem lúta meðal annars að heilsueflandi samfélögum, skólum og vinnustöðum, aukinni heilbrigðisfræðslu á öllum skólastigum, eflingu heilsugæslunnar með heilsueflandi móttökum, hollara matarframboði í íþróttamanvirkjum og að því að hafa hærri álögur á sykurríkum mat en lægri álögur á ávöxtum og grænmeti. Á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku var ákveðið að skipa starfshóp sem verður falið að innleiða aðgerðaáætlun Embættis landlæknis.

Í stjórnarsáttmála kemur fram að skoða eigi beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu. Í minnisblaði Embættis landlæknis sem lagt var fram í ríkisstjórn fyrir rúmu ári kemur fram að embættið leggur áherslu á að lýðheilsusjónarmið verði höfð til hliðsjónar þegar kemur að því að beita efnahagslegum hvötum þannig að þeir virki sem forvarnaraðgerð og verði til að bæta heilsu Íslendinga. Aðgerðaáætlunin er í samræmi við þessar áherslur embættisins á forvarnir og beinir sjónum að áhrifaþáttum heilsu í lífstíl fólks eins og mataræði, hreyfingu og svefni.

Á Íslandi, samanborið við hin Norðurlöndin, er mest neysla á sykruðum gosdrykkjum og sykurríkum vörum. Sykraðir gos- og svaldrykkir vega þyngst í sykurneyslu hér á landi  en rúmlega þriðjungur (34%) af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr þessum vörum. Verð á gosdrykkjum er lágt á Íslandi og lækkaði enn frekar þegar vörugjöld voru afnumin í byrjun árs 2015. Er það andstætt þeirri þróun sem á sér stað í vestrænum löndum þessi misserin.

Þá hefur ítrekað komið fram að hlutfall of feitra er hátt á Íslandi og neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum og mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2.

Í nýrri skýrslu frá WHO kemur fram að það sé vaxandi vísindalegur grunnur fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Það er mín skoðun að skattlagning ætti að vera ein af forgangsaðgerðum stjórnvalda til að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 24. júní 2019.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum