Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. júlí 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Innleiðing heilbrigðisstefnu til 2030

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Eins og ég hef greint frá áður á þessum vettvangi þá var Heilbrigðisstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi í byrjun júní. Stefnan var samþykkt með 45 atkvæðum og án mótatkvæða. Stefnan skapar heilbrigðisþjónustunni í landinu mikilvægan ramma og framtíðarsýn að vinna eftir til næstu 10 ára og því dýrmætt að hún hafi verið afgreidd frá Alþingi í sátt. 

Í stefnunni er kveðið á um að árlega verði lögð fram á Alþingi aðgerðaáætlun til fimm ára meðan heilbrigðisstefnan er í gildi og lagði ég fyrstu aðgerðaáætlunina fram á Alþingi nokkrum dögum eftir samþykkt stefnunnar í byrjun júní. 

Að innleiða jafn umfangsmikla stefnu og heilbrigðisstefnu krefst samstilltra vinnubragða þeirra fjölmörgu þjónustuveitenda og hagsmunaaðila sem starfa innan heilbrigðiskerfisins.  Mikil ábyrgð hvílir á stjórnendum þeirra stofnana sem heyra til ráðuneytisins, að mörkuð sé stefna og starfsáætlun fyrir hverja stofnun sem tekur mið af heilbrigðistefnu til ársins 2030. Heilbrigðisráðuneytið ber ábyrgð á að öllum sé ljóst hvað á gera, hvenær og hver sé ábyrgur og fylgja eftir innleiðingu stefnunnar. Undanfarin ár hef ég lagt áherslu á að efla samstarf og samvinnu heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið. Ég á reglulega samráðsfundi með forstjórum þar sem farið er yfir þau fjölmögu verkefni og áskoranir sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir með það að markmiðið að leita leiða og lausna í sameiningu til hagsbóta fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Ég er sannfærð um að stefnan verði þeim mikilvægur vegvísir og að stofnanirnar séu vel í stakk búnar til að tryggja innleiðingu hennar.

Í þeim tilgangi að kynna nýja heilbrigðisstefnu tók ég ákvörðun um að efna til opinna kynningarfunda um stefnuna í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Ég hef haldið tvo fundi nú þegar, á Akureyri og á Ísafirði. Fyrirhugað er að halda fundaröðinni áfram í ágúst með fundum á Selfossi þann 14. ágúst,  á Akranesi  þann 15. ágúst, á Suðurnesjum þann 19. ágúst  og á Egilsstöðum þann 22. ágúst.  Við ljúkum svo fundaröðinni á Höfuðborgarsvæðinu í september. Á fundunum er fjallað um hvað felst í stefnunni, hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvers vegna hún skiptir svo miklu máli, hvort heldur í þéttbýli eða í dreifðari byggðum landsins.

Það er sannfæring mín að aðgerðaáætlun til fimm ára, kynningarfundir, samráðsfundir og önnur úrræði við að kynna og innleiða stefnuna ásamt þeirri gildavinnu sem fram undan er á komandi heilbrigðisþingi muni leiða til þess að heilbrigðisstefnan verði okkur öllum leiðarljós við uppbyggingu á heildstæðu og öflugu  heilbrigðiskerfi til framtíðar.

Grein heilbrigðisráðherra  birtist í Morgunblaðinu 31. júlí 2019

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum