Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Kostir rafrænna fylgiseðla

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Þann 18. október síðastliðinn var haldinn hér á landi fjölmennur fundur íslenskra og erlendra sérfræðinga í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Umfjöllunarefni fundarins voru kostir rafrænna fylgiseðla lyfja með lyfjum en Ísland hefur haft forystu um innleiðingu rafrænna fylgiseðla á norrænum vettvangi. Innleiðing rafrænna fylgiseðla hefur verið eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og er einnig sett fram sem markmið í ályktun Alþingis um lyfjastefnu til ársins 2020.

Á fundinum voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem Evrópuráðið stóð fyrir að frumkvæði Íslands um kosti og galla þess að innleiða rafræna fylgiseðla. Í stuttu máli fela niðurstöðurnar í sér að heilbrigðisstarfsfólk telur vandkvæðum bundið að tryggja að sjúklingar sem ekki hafa tungumál viðkomandi lands að móðurmáli fái fullnægjandi upplýsingar um þau lyf sem þeir þurfa á að halda. Núverandi fyrirkomulag tryggi því ekki sem skyldi rétta og örugga notkun lyfja. Um 88% svarenda telja að með rafrænum fylgiseðlum megi betur tryggja sjúklingum aðgengi að upplýsingum sem þeir geta skilið.

Samstaða hefur náðst meðal allra Norðurlandaþjóðanna um að leita eftir því við Evrópusambandið að kanna hvort gera þurfi breytingar á tilskipun um fylgiseðla lyfja svo innleiðing rafrænna fylgiseðla verði möguleg, þannig að rafrænir fylgiseðlar komi í stað prentaðra seðla, í ríkjum sem það kjósa. Ég sendi í sumar erindi þessa efnis til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir hönd allra heilbrigðisráðherra Norðurlandanna.

Fylgiseðlar á rafrænu formi hafa marga kosti, þar á meðal þann að þá er hægt að lesa efni þeirra á mörgum tungumálum og í mörgum leturstærðum. Upplýsingagjöf yrði því einfölduð og bætt, einkum gagnvart þeim sem ekki tala íslensku eða eiga af einhverjum ástæðum erfitt með að lesa smáan texta. Þegar fram líða stundir yrði vonandi mögulegt að bæta aðgengi enn frekar með því að að miðla texta á fjölbreyttari hátt í gegnum rafræn kerfi eða smáforrit.

Rafrænir fylgiseðlar hafa einnig jákvæð áhrif á umhverfið; prenta þyrfti minni af fylgiseðlum á pappír auk þess sem sóun lyfja yrði minni þar sem ekki þyrfti að innkalla lyf vegna breytinga á fylgiseðlum, eins og stundum er þörf á í dag.

Auk þess horfa Norðurlandaþjóðirnar til þess að ef heimilt verður að nota rafræna fylgiseðla í stað prentaðra muni það auðvelda þeim sameiginleg lyfjainnkaup. Með því megi sporna við lyfjaskorti og ná fram hagstæðara innkaupaverði og lækka þar með lyfjaverð.

Það er mikilvægt að regluverk taki breytingum í samræmi við tækninýjungar og breyttar þarfir almennings og rafrænir fylgiseðlar væru sannarlega skref í þá átt, og fælu í sér jákvæðar breytingar fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 24. október 2019

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum