Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. september 2020 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Aukin endurhæfing

SVandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Við lifum á fordæmalausum tímum eins og svo oft hefur verið sagt síðustu mánuði. Covid19-veiran veldur nýjum og alvarlegum sjúkdómi sem við erum að læra inn á á sama tíma og þeim sem veikir eru fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þekkingunni um veiruna og sjúkdóminn sem hún veldur hefur fleygt fram á síðustu mánuðum en við erum enn að læra. Eitt af því sem við höfum komist að er að margir þeirra sem hafa veikst af sjúkdómnum en batnað glíma við erfið og langvinn eftirköst í kjölfar veikindanna.

Eftirköstin sem margir glíma við eru til dæmis verkir, þreyta, þrekleysi og fleira og hafa sumir orðið óvinnufærir af þessum sökum. Talin er hætta á því að eftirköstin geti orðið langvarandi og valdið örorku ef ekkert er að gert. Því er mikilvægt að sá hópur sem glímir við slík eftirköst fái góða og markvissa þjónustu og utanumhald í heilbrigðiskerfinu. Rétt þjónusta og  endurhæfing á réttum tíma í kjölfar veikinda í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklinga getur skipt sköpum.  

Heilsugæslan um land allt og Covid19-göngudeildin á Landspítala sinna þjónustu við þá sem hafa veikst af Covid-19, auk þess sem komið hefur í ljós að margir þurfa á endurhæfingu á endurhæfingarstofnunum að halda. 

Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu og þangað ættu þeir sem finna fyrir eftirköstum Covid19-sjúkdómsins að leita fyrst. Þeim sem hafa veikst alvarlegar af sjúkdómnum er fylgt eftir á Covid19-göngudeild Landspítala.Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar, Landspítali og endurhæfingarstofnanir hafa á síðustu vikum unnið að gerð verklagsreglna um það  hvernig þjónusta eigi þá sem glíma við eftirköst Covid19-sjúkdómsins á góðan og samræmdan hátt, og þær verklagsreglur verða uppfærðar eftir þörfum. Þverfaglegt teymi sérfræðinga mun sinna þessum sjúklingum í heilsugæslunni, og æfingar, lyf, markviss þolþjálfun og sálfræðiþjónusta eru allt þættir sem verða hluti af þjónustunni. 

Endurhæfing er líka mikilvæg í þessu samhengi og skiptir í mörgum tilvikum sköpum um það hvernig fólki reiðir af, bæði í kjölfar veikinda en líka í kjölfar slysa eða áfalla. Það þarf að sinna þessum mikilvæga þætti heilbrigðiskerfisins og ástandið sem nú er uppi er áminning um það. Ég hef nú falið Sjúkratryggingum Íslands að semja um aukna endurhæfingu, meðal annars fyrir fólk sem glímir við eftirköst í kjölfar veikinda af völdum Covid-19, en einnig fyrir þá sem eru á biðlista eftir endurhæfingu af öðrum ástæðum. Allt að 200 milljónum króna verður varið til verkefnisins. Þetta er mikilvægt skref og mun vonandi verða til þess að bæta enn frekar þjónustu við þann stóra hóp sem því miður glímir við eftirköst sjúkdómsins. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum