Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Efling heilsugæslunnar

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið
Grein Svandísar Svarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birt í Morgunblaðinu 20. apríl 2018

 

Styrking heilsugæslunnar er eitt meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar. Heilsugæslan ætti að vera fyrsti viðkomustaður allra í heilbrigðiskerfinu, burt séð frá því hvers eðlis vandinn er eða hversu umfangsmikilli þjónustu einstaklingurinn þarf á að halda. Til þess að heilsugæslan geti staðið undir því hlutverki þarf að efla hana og styrkja, og sjá til þess að hún hafi bolmagn til að sinna öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem undir hana heyra. 

Mikilvægt er að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu til þess að tryggja jafnan aðgang allra að góðri opinberri heilbrigðisþjónustu. Einstaklingar eiga að hafa aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þörf er á hverju sinni, óháð efnahag, stöðu og búsetu.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er að finna nokkur markmið og aðgerðir sem tengjast eflingu heilsugæslunnar. Í áætluninni segir til að mynda að einstaklingar eigi að njóta þjónustu á því stigi og hjá þeim aðila sem er best til þess fallinn að leysa vanda hans, þannig að öryggi og gæði þjónustunnar samrýmist bestu fagþekkingu.

Meðal markmiða með styrkingu heilsugæslunnar er skilvirkari þjónusta fyrir þá sem þangað leita. Til að veita sem besta heilbrigðisþjónustu á sem hagkvæmastan hátt og nýta sem best þekkingu hverrar heilbrigðisstéttar er mikilvægt að sjúklingar geti haft aðgang að þverfaglegri þjónustu og þeim þjónustuaðilum sem þörf er á hverju sinni. Sjúklingar geti til dæmis farið á heilsugæsluna og leitað þar til sálfræðings vegna geðheilbrigðisvanda, til næringarfræðings vegna ofþyngdar, til lyfjafræðinga vegna lyfjafræðilegrar umsjár og til sjúkraþjálfara vegna stoðkerfisvandamála. Aukinn aðgangur sjúklinga að öðrum faghópum en læknum og hjúkrunarfræðingum og aukin teymisvinna innan heilsugæslunnar getur einnig leitt til þess að biðtími eftir viðtali styttist, auk þess sem einstaklingum býðst þar með fjölbreyttari og heildstæðari heilbrigðisþjónusta.

Annar liður í styrkingu heilsugæslunnar er bætt geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslu, til dæmis með fjölgun sálfræðinga og stofnun geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum. Einnig kemur talsverður hópur á bráðamóttökur sjúkrahúsa sem gæti fengið úrlausn innan heilsugæslu, og þar með létt á álagi á sjúkrahúsum. Efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar er því einnig mikilvægt skref í þá átt að létta álagi af sjúkrahúsum landsins.

Styrking heilsugæslunnar hefur þar af leiðandi ekki bara jákvæð áhrif fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar, heldur einnig á alla aðra þætti þjónustunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum