Hoppa yfir valmynd
17. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Landspítala 2018

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra

Góðir ársfundargestir.

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa í dag ársfund Landspítala í fyrsta sinn á mínum embættisferli – en ekki það síðasta. Í ráðherratíð minni, sem nú spannar 136 daga hef ég svo til daglega rætt málefni Landspítalans. Spítalinn og starfsemi hans hafa verið rædd í ríkisstjórn, á Alþingi, á sérstökum fundum mínum með forstjóra og ýmsum starfsmönnum, sameiginlegum fundum með borgarstjóra og ýmsum fundum með þeim fjölmörgu aðilum sem koma að  heilbrigðisþjónustu hér á landi.   Þá hef ég heimsótt Landspítalann í hverjum mánuði sem af er þessu ári, meira að segja tvisvar í janúar, til að ræða við stjórnendur og annað starfsfólk og kynna mér starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar. Þessar heimsóknir hafa verið mjög áhugaverðar, gagnlegar og lærdómsríkar fyrir mig sem heilbrigðisráðherra. Ég hef fengið að kynnast staðháttum, ég hef fengið tækifæri til að skoða aðstæður, sjá húsakynnin og hitta fólkið sem starfar á Landspítalanum  augliti til auglitis.  Mér er því full ljóst hvað verkefnin eru fjölbreytt, starfsemin umfangsmikil og áskoranirnar margar á hverjum einasta degi.

Á ársfundum stofnana er að jafnaði litið yfir farinn veg og auðvitað líka horft til framtíðar.  Landspítali er ein af lykilstofnunum heilbrigðisþjónustunnar og einn af hornsteinum velferðarkerfisins hér á landi.  Á spítalanum er veitt gífurlega góð þjónusta þar sem allir eru að leggja mikið af mörkum. Þeir sem sækja þjónustu til Landspítalans tala jafnan um  fagmennsku og hæfni starfsfólksins en ekki síður um hvað það leggur mikla alúð í störf sín þrátt fyrir erfiðar aðstæður oft á tíðum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru nefnd fjölmörg verkefni sem snerta Landspítalann beint og óbeint. Þar vil ég fyrst nefna að við ætlum að  fullvinna heilbrigðisstefnu með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Þar verða mótuð markmið og leiðir í heilbrigðismálum í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar. Þessi vinna er komin vel á veg og ég stefni að því að áherslurnar verði ræddar á heilbrigðisþingi sem ég boða nú í október. Heilbrigðisstefnuna mun ég síðan leggja fyrir Alþingi eftir áramótin eða haustið 2019.

Í stjórnarsáttmálanum lögð áhersla á að íslenska heilbrigðiskerfið standist samanburð við það sem best gerist í heiminum. Það er mikilvægur þáttur í því að treysta sjálfstæði þjóðarinnar að hún búi við öruggt heilbrigðiskerfi. Heilbrigðismálin eru þess vegna ekki bara heilbrigðismál í þröngum skilningi. Þvert á móti eru heilbrigðismálin úrslitaþáttur í því að við fáum lifað á þessari eyju sem sjálfstæð þjóð. Þess vegna er öflugur spítali sem er hjartað í öflugu heilbrigðiskerfi, kjarninn í sjálfstæði þjóðar.

Ég  legg mikla áherslu á að nýta sem best fagþekkingu allra starfsmanna, að innleiða teymishugsun og teymisvinnu og að árangur sé ekki síður metinn í mælikvörðum um gæði starfseminnar en fjölda og kostnaðartölum. Allar fagstéttir sem starfa á Landspítalanum eiga að hafa rödd og fá tækifæri til þess að taka þátt í stefnumótun og innra  starfi Landspítala, hvort sem um er að ræða sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, lækna eða sjúkraþjálfara og allar þessar raddir og fleiri til þurfa að heyrast líka um mótun heilbrigðisstefnu.

Þessu tengist sú mikla vinna sem átt hefur sér stað að undanförnu að skilgreina betur hver er best til þess fallinn að veita tiltekna þjónustu. Ég vil við þetta tækifæri þakka Landspítalanum þeirra stóra þátt í sameiginlegri faglegri vinnu og niðurstöðu um það hvernig sérgreinalæknaþjónustu við íbúa um allt land verði best fyrir komið og þau skref sem spítalinn er þegar farinn að taka með stuðningi ráðuneytisins til að unnt verði byggja upp mun öflugri göngudeildarþjónustu á Landspítalanum. Gagnvart Landspítalanum er það mjög mikilvægt að grunnþjónustan, heilsugæslan, heilbrigðisstofnanirnar og sérfræðiþjónustan þjóni hlutverki sínu sem best og það skiptir líka miklu máli fyrir sjúklingana að fá þjónustu á viðeigandi og réttu þjónustustigi.

Það þarf að vera ljóst í hverju sérstaða Landspítalans á að fel­ast og hvernig við stöndum vörð um hlutverk hans sem sérhæft háskólasjúkrahús. Það verður að vera ljóst til hvers er ætlast af heilbrigðisstofnununum í öllum umdæmum landsins og hvaða kröfur er hægt að gera til þjónust­unnar á hverjum stað.

Á Landspítala er unnið mikið og öflugt fræðslu- og vísindastarf en vísindarannsóknir á heilbrigðissviði eru einn af grundvallarþáttum fyrir því að heilbrigðiskerfið sé skilvirkt, öruggt, uppfylli hæstu gæðakröfur og geti staðist samanburð við önnur lönd.

Heilbrigðisvísindarannsóknir á Íslandi hafa verið sterkar undanfarin ár og þar hefur Landspítalinn verið fremstur meðal jafningja með mjög öfluga vísindavinnu sem vakið hefur athygli hérlendis og erlendis. Það er mikilvægt að stuðla að því að þessi þróun haldi áfram og að góð skilyrði séu sköpuð fyrir rannsóknarvinnu og vísindastarf og umhverfi sem að þessu starfi hæfir. Það þarf að efla vísinda- og rannsóknastarf og nýsköpun, bæði innan spítalans og utan, sem er auðvitað forsenda framþróunar í heilbrigðiskerfinu öllu.

Við uppbyggingu nýs Landspítala er einnig lögð áhersla á  þarfir nemenda í heilbrigðisvísindadeildum og öll hönnun bygginganna er miðuð við þær þarfir. Sú áhersla í hönnun, auk nálægðrar spítalans við Háskóla Íslands og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir miklu máli vegna rannsókna og kennslu, og rímar vel við áherslu mína á aukið vísindastarf innan heilbrigðiskerfisins.

Oft er talað um spítalann sem næststærsta hjúkrunarheimili landsins. Það er verðugt verkefni að sinna hjúkrunarsjúklingum, en hins vegar er það ekki hlutverk sérhæfðustu heilbrigðisstofnunarinnar á Íslandi. Um langt árabil hefur verið skortur á hjúkrunarheimilum í landinu þannig að bið eftir hjúkrunarrýmum hefur verið allt of löng og í mörgum tilvikum óásættanleg. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er tekið með afgerandi hætti á þessu verkefni og um að ræða stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Í fyrri áætlun var gert ráð fyrir uppbyggingu 250 nýrra rýma á tímabili áætlunarinnar en sá fjöldi er nú kominn upp í 550 rými fram til ársins 2023. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar á næstu árum, hlutfallsleg fjölgun aldraðra og aukin þjónustuþörf er veruleiki sem þarf að bregðast við í tæka tíð með margvíslegum hætti. Landspítalinn þarf að átta sig á því að þessar ákvarðanir um uppbyggingu hjúkrunarheimila hafa bein áhrif á stöðu spítalans. Engar ákvarðanir sem teknar eru í heilbrigðismálum eru óháðar umhverfinu. Allt sem gert er snertir Landspítalann; Landspítalinn má aldrei líta á sig sem eyland. Landspítalinn er þungamiðja og móðurskip í senn.

Í lok apríl fór fram vinnustofa á vegum velferðarráðuneytisins um bætta þjónustu við aldraða. Vinnustofan fór fram í Höfða og var haldin í samvinnu velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki á hverjum degi sem ríki, borg og heilbrigðisstofnanir taka höndum saman til að ræða fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu, í þeim tilgangi að bæta þjónustuna á öllum þjónustustigum – og því um að ræða viðburð sem var sérstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að boða til. Það var unnið sérstaklega með áherslu á mikilvægi samfellu í þjónustu við aldraða frá einu þjónustustigi til annars, miðað við ólíkar þarfir og heilsufarsaðstæður, en einnig hvernig tryggja mætti öldruðum viðeigandi stuðning í samræmi við óskir þeirra, þarfir og lögbundin réttindi. Framlag Landspítalans til þessa verkefnis var mikilvægt og fyrir það er hér þakkað.

Eins og öllum sem hér eru er ljóst stendur bygging Nýs Landspítala yfir.  Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu. Stærstur hluti þess fjármagns rennur til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut, en meginþungi framkvæmda við nýjan spítala við Hringbraut mun fara fram á árunum 2020-2023. Gangi áætlanir eftir lýkur byggingu spítalans svo árið 2024. Fullnaðarhönnun við byggingarnar stendur nú yfir og við þá vinnu hefur aðferðafræði notendastuddrar hönnunar verið nýtt. Það þýðir að hagsmunaaðilar og þeir sem koma munu að þjónustunni taka virkan þátt í hönnunarferlinu. Með Nýjum Landspítala bætist til muna öll aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk og gerir sjúkrahúsinu kleift að auka gæði starfseminnar sem og öryggi sjúklinga og starfsmanna og að veita skilvirkari þjónustu. Til að tryggja samfellu og sem besta yfirsýn yfir þetta verkefni hef ég sett á stofn sérstakt samstarfsráð. Markmiðið með ráðinu er að efla enn frekar samráð og miðlun upplýsinga þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki mið af áherslum aðila samstarfsráðsins en það skipa ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins sem veitir því forystu, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss, rektor Háskóla Íslands, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og stjórnarformaður NLSH ofh. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess hve margar stórar ákvarðanir eru framundan sem varða þessa uppbyggingu en ekki síður ákvarðanir sem lúta að ráðstöfun og nýtingu eldri bygginga, ásamt tækjakosti, ásamt flutningi og starfsemi spítalans á framkvæmdatímanum að stilla saman strengi í hverju skrefi. Ég hef miklar væntingar til þess að með samstarfsráðinu takist að stýra þessu stærsta uppbyggingarverkefni Íslandssögunnar farssællega í höfn.

Það er mín skoðun, og raunar skoðun meginþorra landsmanna, að við eigum að hafa upp á að bjóða sterkt, opinbert heilbrigðiskerfi sem rekið er á félagslegum grunni.

Það er einnig meginmarkmið mitt sem heilbrigðisráðherra að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu sem stenst samanburð við það sem best gerist í heiminum.

Sterkt móðursjúkrahús er lykillinn að þessu tvennu og það er mín skoðun að Landspítalinn sé einmitt slík stofnun; sterkt móðursjúkrahús sem myndar grundvallarstoðina í góðu opinberu heilbrigðiskerfi.

Landspítalinn er heldur ekki eyland í heilbrigðiskerfinu, heldur miklu frekar meginland og um leið einn hluti af mörgum í mikilvægri heild. Ákvarðanir sem teknar eru og varða aðra þætti kerfisins, t.d. fjölgun hjúkrunarrýma, stofnun geðheilsuteyma og fleira hafa óbein áhrif á starfsemi Landspítala – og verkefni Landspítala hafa áhrif á aðra þætti og stofnanir heilbrigðiskerfisins. Það skiptir miklu að hafa hugfast, því að við stefnum jú öll að sama markmiði; að bæta heilbrigðiskerfið í landinu.  Landspítalinn og forysta hans má aldrei líta þröngt á spítalann; hann er hluti af heild. Það er ekki hægt að skilja Landspítalann nema horft sé á hann sem hluta af heildarferli og heildaruppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins.

Góðir ársfundargestir.

Sjálf kem ég að þessu starfi sem ég gegni utan að en ég lít á mig sem samherja ykkar. Við störfum öll í heilbrigðiskerfinu og við eigum að standa saman. Við verðum að vera samstíga í allri okkar vinnu, styðja við hvert annað og horfa á heilbrigðiskerfið okkar sem eina heild. Þannig náum við árangri. 

Yfirskrift þessa ársfundar er Landspítali í vörn og sókn. Ég tel þessa yfirskrift sýna þann jákvæða hug sem starfsfólk spítalans ber til þeirra viðfangsefna sem mæta þarf hverju sinni. Að því sögðu vil ég segja að ég hlakka til áframhaldandi sóknar í þágu heilbrigðisþjónustunnar þar sem Landspítalinn gegnir meginhlutverki. Ég vænti þess einnig að eiga áframhaldandi gott samstarf við forystu Landspítalans, hér eftir sem  hingað til, og óska ykkur góðs fundar og alls hins besta í ykkar mikilvægu störfum.

Núverandi ríkisstjórn er að stíga stærri skref í þágu heilbrigðiskerfisins en sést hafa um árabil. Þau sem hér starfa; á Landspítalanum, þurfa að gera sér grein fyrir því að þarna liggur raunverulegur góður vilji að baki, þessari afstöðu ríkisstjórnarinnar til mikilvægis Landspítalans og uppbyggingar opinbers heilbrigðiskerfis.

Góðir ársfundargestir. Við erum samherjar.

Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum